05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Þorsteinn Briem:

Það hefir orðið samkomulag hjá meiri hl. n. um þær brtt., sem ég gerði ráð fyrir við 2. umr. að flytja við 3. umr.; aðeins um eina þeirra hefir ekki náðst samkomulag. Ég hefi því leyft mér að bera fram á þskj. 526 brtt. við 17. gr. Í þessari brtt. legg ég til, að í staðinn fyrir „1/10 hluti kjósenda“ komi: 1/5 kjósenda, — og að orðin „þó nægir, að 25 kjósendur krefjist þess falli burt.

Þessi brtt. er flutt samkv. þeim vilja, sem ég veit, að er ríkjandi í sveitahreppum. Ég veit, að þar er ekki óskað eftir hlutfallskosningum, meðal annars vegna þess, að það þykir ekki æskilegt, að löggjöfin gefi ástæðu til, að pólitískur flokkadráttur komist í sveitarstjórnarmál þar, sem það er ekki þegar orðið. Ég álít það rétt að halda sveitarstjórnarmálum sem lengst fyrir utan pólitískan flokkadrátt, og þess vegna flyt ég þessa brtt., sem torveldar það, að hlutfallskosningum sé komið á, en útilokar þær þó ekki þar, sem sýnt er, að talsverður fjöldi kjósenda í hreppnum er því fyrirkomulagi fylgjandi. Ég þykist ekki þurfa að hafa fleiri orð um þessa brtt. og vona, að hv. d. líti hana réttu auga.