05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Guðrún Lárusdóttir:

Ég hreyfði því hér í gær, að mér þætti óviðkunnanlegt, að það yrði leitt í lög, að sunnudagur skyldi vera kosningadagur. Ég heyrði ekki hæstv. forseta lesa dagskrána, og gerði mér líka von um, að hv. allshn. mundi taka til greina þau orð, sem ég mælti hér í gær, ella hefði ég gert brtt. um þetta atriði.

Hér er verið að skerða helgihald sunnudagsins, a. m. k. í fjölmennari stöðunum. Vel má vera, að kosningar fari svo rólega fram í sveitum, að þessa gæti ekki mikið, en hitt vitum við öll, að t. d. hér í Rvík er ekki sá blær yfir kosningadögum, sem á að vera yfir helgi- eða hvíldardögum.

Í því trausti, að fleiri séu hér í hv. d., sem líta þetta sömu augum og ég, þá hefi ég leyft mér að bera hér fram skrifl. brtt. um, að í stað orðanna „síðasta sunnudag í júnímánuði“ komi: síðasta dag í júnímánuði. Nú getur stundum komið fyrir, að það sé sunnudagur, en um það er öðru máli að gegna, því þar ræður hending, og tel ég það ekki skipta jafnmiklu máli eins og að lögfesta það, að kosningarnar fari fram á sunnudegi.