16.03.1936
Neðri deild: 25. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

32. mál, landssmiðja

*Jakob Möller:

Hv. þm. Hafnf. vill koma því inn hjá mönnum, að breyt., sem gerð var á frv. í fyrra, hafi verið eftir ósk minni hl. fjhn. En það er mjög fjarri sanni, að minni hl. væri ánægður með þá breyt., því hann krafðist alveg þess sama þá og nú, en meiri hl. treysti sér ekki til að ganga alveg í berhögg við kröfur okkar og bjó út það orðalag, sem nú er á gr. Hv. þm. vill gera mikinn mun á gr. nú og áður, en sé efnið athugað, er það nákvæmlega það sama.

Í upphaflega frv. var svo fyrir mælt, að landssmiðjan skyldi annast þau verk, sem ríkisstj. þyrfti að láta vinna. Í þessu felst bein fyrirskipun að því er snertir ríkisfyrirtækin, en heimild að því er kemur til vinnu fyrir einstaklingana.

Nú er þetta alveg eins, nema ríkisstj. er ætlað að dæma um, að tilboð landssmiðjunnar séu sanngjörn. En hvaða aðstöðu hefir hann til þess, nema að láta fara fram útboð? Ekki getur ríkisstj. dæmt um það óséð. Hún hefir enga aðstöðu til þess að dæma um, hvort tilboðin eru sambærileg um verð og vörugæði við það, sem aðrir mundu bjóða, nema með útboði á verkinu. Þessi viðauki er því gersamlega þýðingarlaus og settur aðeins til þess að blekkja, þar sem alveg er þurrkaður út möguleikinn fyrir því að ganga úr skugga um, hverjir gera hagkvæmust tilboð, með því að koma í veg fyrir, að verkið sé boðið út.

Þá var hv. þm. Hafnf. að minnast á miður vinsamlega forstjóra, sem mundu undirbjóða landssmiðjuna með óeðlilegum tilboðum, ef þeir fengju aðstöðu til frjálsrar samkeppni. Ég sé ekki, að það væri neitt við það að athuga, ef þeim þóknaðist að skaða sjálfa sig. Þá fengi ríkið verkið unnið fyrir lægra verð, svo afstaða forstöðumannanna hefir engin áhrif í þessum efnum. En hv. þm. Hafnf. skoðar það sem fjandskap við stofnunina, ef farið er fram á að bjóða verkin út. Allt ber þetta að sama brunni, þar sem öll rök forsvarsmannanna sanna, að þeir telja fyrirtækið gersamlega óstarfhæft í frjálsri samkeppni. Það getur engin önnur ástæða verið.