13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2181)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Gísli Guðmundsson:

Ég skal ekki vera langorður um þetta frv.; en ég vil aðeins vekja athygli á því áður en það kemur til atkv., að mér virðist aðstaða meiri hl. landbn. næsta undarleg í þessu máli, og satt að segja skil ég hana ekki. Hv. meirihl.menn hafa verið því fylgjandi og komið því fram, að varið yrði allmikilli fjárhæð úr ríkissjóði til þess að koma á útrýmingarböðun í landinu í því skyni að reyna að útrýma fjárkláðanum, og þetta hafa þeir barið í gegn þrátt fyrir þær miklu líkur, sem fyrir því eru óneitanlega og raunverulega, að ekki sé hægt að útrýma fjárkláðanum á þennan hátt, þó miklu sé til þess kostað. En látum það vera, þó hv. nm. hafi þessa aðstöðu og komi fram sínum útrýmingarlögum. Það er hitt, sem ég skil ekki, hvernig þeir geta verið á móti því, að l. um hinar almennu þrifabaðanir séu endurbætt. Í því frv., sem við höfum leyft okkur að bera hér fram, er um það að ræða að gera fullkomnari þau l., sem gilda nú um almennar þrifabaðanir sauðfjár, og það er vitanlegt, að þó almenn útrýmingarböðun gegn fjárkláða fari fram, þurfa almennar þrifabaðanir að halda áfram jafnt fyrir því. Ég skil t. d. ekki, hvernig hv. nm. geta verið á móti því, að settur sé maður í hverjum hreppi til þess að líta eftir og fylgjast með framkvæmd þrifabaðanna. Það er vitanlegt, að það hefir verið mikill misbrestur á framkvæmd þeirra á einstökum heimilum og í einstökum sveitum, en við erum á þeirri skoðun, að ef ákvæði þessa frv. væru lögfest, yrði það mikil trygging fyrir því, að þetta verk yrði almennt vel af hendi leyst. Ég held því, að það hljóti að stafa af einhverjum misskilningi, að hv. meiri hl. skuli vera á móti því, að l. um þrifabaðanir sé breytt til batnaðar, og vildi ég vekja athygli á því áður en gengið er til atkv.