20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2198)

60. mál, sauðfjárbaðanir

Guðbrandur Ísberg:

Mig furðaði á þeim orðum, sem hv. síðasti ræðumaður lét falla, að ekki mundi fara fram útrýmingarböðun á yfirstandandi ári. Mér kemur þetta ókunnuglega fyrir, því mér er kunnugt um, að atvinnumálaráðuneytið hefir tilkynnt úti um sveitir landsins, að þetta yrði framkvæmt, og minnt á í sambandi við það, að sýslunefndum beri að kjósa þá eftirlitsmenn, sem gert er ráð fyrir í lögunum, að hafi umsjón með framkvæmd útrýmingarböðunar í héraði hverju. Svo ef ekkert sérstakt kemur fyrir, svo sem afleitur heyskapur eða annað því líkt, þá veit ég ekki betur en framkvæmd laganna standi fyrir dyrum nú á þessu ári.

Ég kvaddi mér hljóðs til að minna á það, að í þessu landi eru til lög um þrifabaðanir, frá 1914. Vegna þess að ég geri ráð fyrir, að ekki séu allir hv. þdm. jafnáhugasamir um þetta mál, þá vil ég nota tækifærið til að undirstrika það, að þessi lög eru enn í gildi, og að frv. það, sem hér liggur fyrir, er þessi lög uppprentuð með örlitlum breytingum. Þessar breyt. eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi, að nota skuli ákveðna tegund af baðlyfi, en það virðist ónauðsynlegt eftir að búið er að útrýma kláðanum. Í öðru lagi að fyrirskipa baðstjóra til að hafa eftirlit með þrifaböðunum, en það ætti að vera óþarft eftir að allsherjarútrýmingarböðun hefir farið fram. En ef til þess þarf að grípa af því að útrýming fjárkláðans hafi ekki tekizt við fyrstu böðun, þá eru til ákvæði í lögum frá síðasta þingi, er heimila, að þá skuli útrýmingarböðun fara fram á ný á svo stóru svæði sem stjórnarvöld telja nauðsynlegt. Ég sé því ekki, að þessi ákvæði séu nauðsynleg eða nokkuð til bóta, en ég er á móti því, nú sem endranær, að samþ. lög eða lagaákvæði að þarflausu. En í þessu frv. er líka eitt ákvæði, sem ekki er aðeins þarflaust, heldur skaðlegt, vegna þess að það getur aldrei orðið annað en dauður bókstafur. Það er ákvæðið um, að baðað skuli í sundþróm.

Sú útrýmingarböðun, sem hér fór fram skömmu eftir síðustu aldamót, tókst sæmilega; þótt hún því miður yrði ekki algerlega fullnægjandi, þá verður það að teljast glæsilegur árangur, að það tókst að útrýma kláðanum svo, að í langmestum hluta landsins varð hans ekki vart í 20 ár. En áður en þessi útrýmingarböðun fór fram eða við hana voru ekki heimtaðar sundþrær, og þó gafst hún svo vel sem raun bar vitni um. Það væri ekki úr vegi að athuga, hve líklegt það er, að t. d. bændur, sem búa á fjallakotum, sem búast má við, að fljótlega leggist í eyði, vilji leggja í þann kostnað að steypa sundþrær, sem ekki mun vera hægt að koma upp fyrir öllu minna en 200 krónur. Ég hygg, að það gangi ekki orðalaust að pína alla bændur til þess að koma upp sundþróm, og ég þori að fullyrða, að það ákvæði verður aldrei annað en dauður bókstafur, enda ástæðulaust að gera svo strangar kröfur. (PO: Hvar stendur þetta í frv.?). Það er í 5. gr. (PO: Að það eigi að steypa sundþró á hverjum bæ?). Það stendur ekki beinlínis þannig, að það skuli gert á hverjum bæ, en má skilja það þannig.

Ég vil skírskota til þeirra, sem nenna að lesa gildandi lög frá 1914, um þrifabaðanir, að athuga, hvað verið er að gera, og þeir munu komast að raun um, að þetta frv. er ónauðsynlegt og að engin ástæða er til að breyta nefndum lögum. Þess vegna hefi ég lagt á móti þessu frv. og þess vegna greiði ég atkv. gegn því.