09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

61. mál, gengisskráning

Flm. (Hannes Jónsson):

Ég hafði ætlað mér að fylgja þessu frv. úr hlaði með allýtarlegri grg. í framsöguræðu. Undanfarna daga hefi ég þó rekizt á, að ýmsar þær skýrslur, sem ég hafði til að styðjast við, eru ekki eins fullkomnar og skyldi, og jafnvel sumar, sem ég hafði litið svo á, að leggja mætti til grundvallar við umr. um málið, eru miður áreiðanlegar. Ég vil ekki í jafnþýðingarmiklu máli styðjast við rök, sem hægt væri að segja, að séu vafasöm, og læt því niður falla þann frekari rökstuðning, sem ég gjarnan hefði viljað láta koma fram nú, þangað til málið kemur úr n. til 2. umr.

Ég hefi þessa dagana verið að reyna að ná samkomulagi við þingflokkana um að láta þetta mál ekki daga uppi í n. Hér er um svo þýðingarmikið málefni að ræða fyrir þjóðina, að það má ekki eiga sér stað, að tilraun til að leysa úr vandræðunum sé þöguð í hel.

E. t. v. er ekki hægt að leysa vandann að fullu eftir þeim leiðum, sem ég bendi á í þessu frv., en það verður að finna þær leiðir, sem geta bjargað þjóðinni frá yfirvofandi fjárhagshruni.

Það er skylda allra flokka og Alþingis í heild að beita sér fyrir því, að slík lausn fáist á málinu, svo bjargað verði sem fyrst því, sem enn verður bjargað, en í voða stendur.

Ég drep á það í grg. frv., að atvinnuvegir þjóðarinnar hafa mörg undanfarin ár verið reknir með stórtöpum. Ég hefi engan heyrt mótmæla því, að svo sé, enda er sú niðurstaða deginum ljósari. Skuldir við bankana hafa hlaðizt á atvinnuvegina. Bankarnir hafa safnað skuldum erlendis, og ríkissjóður hefir stöðugt verið að auka sínar skuldir út á við. Síðan 1925 má gera ráð fyrir, að erlendar skuldir hafi vaxið um 60–70 millj. kr. Slík óhemju skuldasöfnun þjóðarbúsins getur ekki leitt til annars en fjárhagslegrar glötunar. Það er engin tilviljun, þessi mikla skuldasöfnun. Hún hefir nákvæmlega fylgt því eftir, hvernig gengið hefir fyrir atvinnuvegum þjóðarinnar. Þegar eitthvað hefir rofað til fyrir atvinnuvegunum síðan ófriðnum lauk, hafa skuldirnar við útlönd jafnframt farið minnkandi, og lengst komust þær niður árið 1925, eða niður í 34 millj. kr.

Skuldasöfnun atvinnuveganna hjá bönkunum hefir orðið til þess, að bankarnir hafa þegar orðið fyrir stórtöpum, og það, sem enn er talið til eigna í bókum bankanna, er sumt í raun og veru tapað, og e. t. v. tapast meira af því heldur en menn hafa gert sér í hugarlund. Nýlega er búið að gera upp annan af aðalatvinnuvegunum, landbúnaðinn. Og af 14 millj. kr. lausaskuldum, sem sá atvinnuvegur var búinn að hlaða utan á sig, hefir orðið að afskrifa um 8 millj. kr.

Af skuldasafni smáútgerðarmanna er alveg fyrirsjáanlegt, að stórfé hlýtur að tapast. Nú er verið að gera upp þann atvinnuveg, og sést þá, hvað þar hefir tapazt á þessum undanförnu árum. Hvað stórútgerðina snertir, þá dettur víst engum í hug að neita, að þar hafa orðið milljónatöp á þessum árum.

Hvert einasta framleiðslufyrirtæki í landinu er svo að segja á heljarþröminni og ekki sjálfu sér ráðandi. Slíkt ástand sem þetta getur ekki staðið til lengdar; þjóðin getur ekki undir því risið.

Það er ekkert sérstakt skilyrði fyrir því, að atvinnuvegirnir geti borið sig, að gengi peninga sé svo eða svo lágt; það má vera eins hátt og verkasi vill. Aðalatriðið er, að gengi peninganna sé skráð sem næst réttu hlutfalli við rekstarafkomu atvinnuveganna í landinu. Þetta er það, sem alstaðar hefir komið fram sem óhjákvæmileg nauðsyn til þess að fjárhagsleg afkoma þjóðanna geti verið í sæmilegu lagi. Englendingar ráku sig á þetta, og Norðurlandaþjóðirnar ráku sig á það eftir ófriðinn, þegar þjóðirnar stefndu að því að færa gjaldeyri sinn aftur upp í gullgengi, þær sem á annað borð nokkra getu höfðu til þess. Englendingum tókst það árið 1925, og Dönum líka sama ár. Þessar þjóðir báðar héldu svo uppi gullinnlausn á gjaldmiðli sínum þangað til í september 1931, en síðan hefir afkoma atvinnuveganna ein ráðið um það, hvernig sterlingspundið hefir verið metið gagnvart gulli. Þennan tíma höfum við fylgt sterlingspundinu, þannig að afkoma atvinnuvega okkar hefir ekki á neinn hátt skorið úr um, hvert gildi okkar peninga skyldi vera, heldur hefir krónan verið látin fylgja sterlingspundinu blindandi eftir. Þessi blindingsleikur í peningapólitík okkar Íslendinga hefir leitt til þess, að ósamræmi hefir orðið á milli skráningar peninganna og rekstrarafkomu atvinnuveganna. Slíkt ósamræmi milli skráningar gengisins og rekstrarafkomu atvinnuveganna hefir einnig komið fram í Danmörku, en þó lækkaði danska krónan ekki óverulega árið 1933, og ef okkar króna hefði fengið svipaða lækkun þá, hefði það að sjálfsögðu bætt nokkuð úr fyrir atvinnuvegunum frá því, sem raun varð á.

Menn munu nú e. t. v. efast um, að þetta ósamræmi milli gengisskráningarinnar og afkomu atvinnuveganna sé raunverulega eins mikið og ég hefi talað hér um. En þetta er ekki annað en það, sem hagfræðilegar tölur sýna, ef að er gáð. Skal ég taka nokkur dæmi, sem snerta landbúnaðinn.

Frá því 1920 hefir alveg sérstaklega snúizt um í þessu efni fyrir þeim, sem sauðfjárrækt stunda. Jafnvægið helzt nokkuð lengur hjá mjólkurframleiðendum, eða til ársins 1925; þá fer að hallast á ógæfuhliðina. Árið 1932 er svo komið, að meðaltalsframfærsla 5 manna fjölskyldu í Rvík, sem sett er 100 1914, er komin í 236. Verkakaup karlmanna í Rvík úr 100 frá 1914 í 388, en brúttóarður af 4 meðalkúm, miðað við meðalmjólkurverð Mjólkurfélags Reykjavíkur, úr 100 frá 1914 í aðeins 161,2, og brúttóverð afurða eftir 100 ær úr 100 1914 niður í 67,9. Að vísu hafa sauðfjárafurðir hækkað síðan, en jafnframt hefir kaupgjald hækkað nokkuð á móti.

Meðan kaupgjald hefir þannig nærri fjórfaldazt og framfærsla 5 manna fjölskyldu rúmlega tvöfaldazt, hefir brúttóarður mjólkurframleiðandans aðeins hækkuð um 3/5 og brúttóarður fjáreigandans lækkað um 1/3.

Mér kæmi ekki á óvart, þó útkoman hjá útgerðinni væri sízt betri, en um það hefi ég eigi tölur við höndina, sem hægt er við að styðjast. Hér er orðið svo sýnilegt ósamræmi í þessum hlutföllum, að það er engin von, að atvinnuvegirnir fái undir því risið.

Nú munu alþýðuflokksmenn telja, að þeir hafi hér alveg sérstaklega hagsmuna að gæta fyrir sína umbjóðendur, því ef slíkt samræmi fengist milli gengisskráningarinnar og afkomu atvinnuveganna, sem ég og fleiri teljum þörf á, þá mundi það leiða af sér kauplækkun fyrir verkalýðinn. Því er haldið fram, að sú stefna, að halda skráningu gengisins í réttu hlutfalli við afkomu atvinnuveganna, geti aldrei í senn samrýmzt hugsmunum verkalýðsins og framleiðendanna. En þetta er hinn mesti misskilningur. Því það hefir alstaðar komið fram, að atvinnuleysið hefir alveg farið eftir því, hvernig ástatt hefir verið um þessi hlutföll. Eftir því, sem þau hafa verið nær réttu lagi, eftir því hefir verið minna um atvinnuleysi. Þetta liggur alveg glöggt fyrir í skýrslum, t. d. frá Danmörku. Vitanlega er það fyrst og fremst hagsmunamál verkalýðsins að útrýma atvinnuleysi úr landinu; það er höfuðskilyrðið fyrir afkomu hans, miklu fremur en hitt, hvort tímakaupið er nokkrum aurum hærra eða lægra. Þannig fara algerlega saman hagsmunir verkamanna og framleiðendur í þessu efni. Einmitt þess vegna er óforsvaranlegt, að menn láti það villa sér sýn, sem sumum kann að finnast liggja auganu næst, fljótt á litið, en haldlaust reynist þegar betur er að gáð. Mönnum ber skylda til að taka málið til rækilegrar athugunar og yfirvegunar og finna leið út úr ógöngunum. Ég neita því ekki, að það kunni að vera til fleiri leiðir til að ná því samræmi, sem ég hefi talað hér um, heldur en skráning gengisins, og ég held því ekki fram, að gengisskráningin ein ráði öllu um afkomuna. Kemur þar að sjálfsögðu einnig til greina mismunandi árferði. Árið 1924 var það svo, að vegna fiskisældar og hagstæðrar tíðar náði hin mikla gengishækkun ekki að verka eins og búast hefði mátt við og eðlilegt hefði verið. Þetta óvenjulega árferði árið 1924 leiddi til þess, að hækkunarmönnunum á þeim tíma sást yfir þá hættu, sem af hækkuninni stafaði; þeim fannst atvinnuvegirnir standa undir þessari hækkun og gætu svarað úti öllum tilkostnaði þrátt fyrir hana. En þeir misreiknuðu sig á því, að ekki var um venjulegt árferði að ræða, hvorki að því er aflabrögð eða tíðarfar snerti.

Ég hefði gjarnan viljað færa fram sterkari rök í þessu máli, byggð á hagfræðilegum niðurstöðum á rekstri þjóðarhúsins undanfarin ár. En því miður er ekki það, sem fyrir liggur í þeim efnum, svo aðgengilegt og ábyggilegt sem skyldi. Þó vona ég, að ef hv. fjhn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, leggur sig fram við að leita að slíkum gögnum sér til stuðnings, þá muni fást svo ábyggilegur grundvöllur, að tiltækilegt ætti að vera að reisa á honum till. til úrlausnar. Ég vil alvarlega skora á alla þingflokka og einstaka þm. að leggja sitt lið til þess, að lausn fáist á þessu máli. Því hversu sem menn kunna að hafa sundurleitar skoðanir á því, hvernig beri að leysa það, þá getur hitt varla dulizt nokkrum hugsandi manni, að slíkt ástand um afkomu atvinnuveganna getur ekki staðið til lengdar. Slíkt ósamræmi getur hver þjóð þolað um eitt eða tvö ár, en það getur ekki gengið, að það verði viðvarandi um fleiri ára skeið. Hér er um svo alvarlegt atriði að ræða, að ég trúi því ekki, að menn láti blindast af einhverjum ímynduðum hagsmunum einstakra manna eða stétta, þegar annarsvegar eru hagsmunir þjóðarbúsins í heild sinni.

Fyrst þegar þetta mál kom til umr. hér á landi, urðu átökin hörðust um hagsmuni innstæðueigendanna, og olli því nokkuð, hvernig menn skiptust í flokka um lausn málsins. Síðan hefir þetta mikið breytzt og mönnum skilizt, að innstæðueigendum væri ekki til langframa hagur í því, að óeðlilega háu gengi væri haldið uppi. Og ég er viss um, að eins fer fyrir mönnum, þegar þeir fara að athuga þetta viðkvæma mál með tilliti til hagsmuna verkamannastéttarinnar. Þeir komast smátt og smátt að sömu niðurstöðu, að verkamenn hafa enga hagsmuni af því, að haldið sé uppi óeðlilega háu gengi. Þeirra hagsmunir eru bundnir við það, að hægt sé að koma nýju fjöri í atvinnuvegina og gera þá starfhæfa. Það er eina leiðin til þess að halda uppi heilbrigðu starfi innan þjóðfélagsins, og það hentar þeim bezt sem öðrum einstaklingum þjóðarinnar.

Ég skal svo ekki hafa þessa ræðu miklu lengri. Ég geri mér von um að geta við 2. umr. þessa máls rökstutt skoðanir mínar nánar með hagfræðilegum niðurstöðum af rekstri atvinnuveganna og afkomu þjóðarbúsins á tímabilinu síðan stríðinu lauk. — Ég vonast eftir, að hæstv. forseti stilli svo til, að þessu máli verði sinnt í n. og að það komi ekki fyrir, að það verði svæft þar. Og þó svo ógiftulega tækist til, að málið fengi ekki afgreiðslu á þessu þingi, þá geri ég ráð fyrir, að sú meðferð, sem það fengi í nefnd og við umr., yrðu þess valdandi, að margháttaður misskilningur yrði að víkja úr vegi fyrir þörf þjóðarinnar á heppilegri lausn málsins, og að sú lausn kæmi áður en allt er um seinan.

Ég lýk svo máli mínu með þeirri ósk, að þingið beri gæfu til þess að ganga svo frá þessu máli, að þjóðin þurfi ekki að afsala sér fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn. að þessari umr. lokinni.