03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Ég býst við, að sú hörmulega frammistaða, sem hv. þm. Hafnf. sýndi hér í gær, verði honum nægileg hirting, sú fyrst um sinn a. m. k. Ég hélt í sannleika sagt, að þessi hv. þm., sem er verkfræðingur, vissi það, að ekki er hægt að skeyta saman margar pípur án þess að setja skrúfugang á þær. En þessi umtalaða pípa þoldi ekki, að skrúfugangur væri settur á hana; hún sprakk við beygjuna. Hv. þm. sagði þó, að hún hefði þolað fyllstu bograun. Slíkur er allur hans sannleikur í þessu máli. Það er alveg sama, hvernig hv. þm. reynir að smjúga út úr þessu; vandræði hans munu aukast dag frá degi. Hann hefir svikið rafvirkjana. Þykist ekki þekkja samþykktina frá iðnþinginu á Akureyri og ætlar því að svíkja hana. Annars hljóðar samþykktin á þá leið, að forstöðumenn, sem ríkið setur fyrir einkasölur sínar, skuli jafnan vera sérfræðingar og innlendir menn. Þetta veit hv. þm. og hefir vitað í heilt ár, en hann þykist ekki vita það, af því að hann er ákveðinn í að hafa samþykktina að engu.

Þá skal ég segja hv. þm. það, að hann þarf ekki að hugsa, að ég flytji frv. þetta og segi allt það, sem ég hefi sagt hér, í óþökk rafvirkjastéttarinnar, og ég veit, að rafvirkjarnir eiga eftir að segja honum á viðeigandi hátt, að hann eigi að fylgja þessu nauðsynlega frv. Þeir hafa farið bónleiðir til búða hvað fjmrh. snertir, sem ekki vill taka hinar sanngjörnu kröfur þeirra til greina.

Ég get ekki mikið fyrir það, þótt hv. þm. Hafnf. segist vilja hafa einkasölu til þess að tryggja það, að fluttar séu inn vandaðar vörur og verðið sé haft hæfilegt, þegar hann veit, að þessa hefir ekki verið gætt. Það er sannað mál og stendur óhrakið, að ekki hafa verið fluttar inn vandaðar vörur og að verðið hefir verið svo, að okur má kallast, og að fyrirtækinu hefir yfirleitt verið illa stjórnað. Ég skal ekkert segja um þetta eina dæmi um mann, sem hefir átt að fá góð kjör hjá einkasölunni, en það sannar ekkert og hefir ekkert gildi í þessum umr. Það eru engir verðleikar hjá einkasölunni, þótt hún hlynni að einhverjum einstökum manni, og það er ekki það, sem um er deilt, eða þær kröfur, sem verið er að gera. Stéttin er fjölmenn, og sá maður, sem nú er kosinn varaformaður í Iðnsambandi Íslands, verður að fara að bæta ráð sitt og fylgja fram þeim óskum, sem iðnaðarmenn gert. Hann er kosinn til að gæta hagsmuna iðnaðarmanna, og hann verður á sínum tíma að svara fyrir, hvernig honum hafi farizt það.

Svar hæstv. ráðh. um, að rafmagnseftirlit Reykjavíkur hafi t. d. leyft pípur þær, sem átti að nota í hinar svonefndu huldu lagnir, er staðlaust. Nikulás Friðriksson fullyrðir, að þessar pípur séu svikin vara, og einmitt þess vegna á nú að fara að reyna að senda þær út og fá aðrar betri í staðinn eða að eyðileggja þær.

Hæstv. fjmrh. sagði það rangmæli hjá mér, að það væru um 100 vörutegundir, sem einkasalan hefði leitað álits rafmagnseftirlitsins um og ekki hefðu verið taldar nothæfar, og sagðist hafa fengið þær upplýsingar, að það hefðu aðeins verið 36 tegundir, sem ekki hefði mátt flytja inn. En svo bætti hann því við, að 62 tegundir hefðu verið lagðar til hliðar, og skilst mér þá, að það fari að nálgast 100, þegar lagðar eru saman þær 36 tegundir, sem hann viðurkenndi, að hefðu verið bannaðar, og svo þessar 62 tegundir, sem hann sagði svo skemmtilega frá, að hefðu verið lagðar til hliðar. Það er og ósatt hjá hæstv. fjmrh., að þetta séu eingöngu sýnishorn, sem svo hafi ekkert verið notuð. Einkasalan hefir gert sig seka um þá óhæfu, að þótt þessi raftæki hafi verið dæmd, þá hefir hún sumpart ekki beðið eftir umsögn rafmagnseftirlitsins og sumpart ekki skeytt um hana. Þetta er samkv. því, sem rafmagnseftirlitið segir sjálft. Ég fullyrði, að hér sé um meira en sýnishorn að ræða, og það hefir komið fram, að þótt sýnishorn hafi verið send til rafmagnseftirlitsins og fengið náð fyrir augliti þess, þá hafa þær vörur, sem komu eftir þessum sýnishornum, reynzt ónýtar, og það er hugsanlegt, að svo sé um þessar ónýtu pípur, að eftir því sýnishorni, sem rafmagnseftirlitið athugaði, hafi þær talizt hæfar til notkunar, en reyndin varð sú, hvað sem þessu sýnishorni líður, að þegar þessi pípa kemur til notkunar, og það var ekki sparað að kaupa nógu mikið af henni, þá var hún algerlega óhæf til þess, sem hún átti að notast.

Það verður vægast sagt að teljast mjög einkennilegt, ef sama vörutegundin er svo misjöfn, að sumt af henni er nothæft, en sumt algerlega ónothæft. Það er einmitt þetta, sem Nikulás Friðriksson á við, þegar hann segir, að varan sé svikin, en það voru einmitt hans orð, og ég tek þau meira til greina heldur en orð hv. þm. Hafnf., sem játar, að hann hafi ekki kunnugleika á þessu. en segist hafa verið með í því að koma einkasölunni á í von um að fá vandaða vöru og ódýra vöru. — Þetta hljómar! En þetta er hlægilegt, og þó verra en svo, þegar öll þau gögn, sem fyrir liggja og eru hjá hæstv. fjmrh., eru þannig, að þau sanna, að þetta er lygi. Það er beinlínis sannað, að það þarf að hafa mjög strangt eftirlit með því, að einkasalan flytji ekki ónýtar vörur, og þótt það eftirlit sé nú að komast í fast form, þá á einkasalan engar þakkir skilið fyrir það. Hún er og verður sjálfdæmd fyrir sínar aðgerðir.

Hæstv. fjmrh. fór inn á þau sömu dæmi, sem við höfum áður talað um og hann vill aldrei gefast upp við.

Í Morgunblaðinu er samanburður á því verði nokkurra tegunda, sem var áður en einkasalan tók til starfa, og því, sem er hjá einkasölunni. Er þar m. a. talað um mótora, sem fengust áður fyrir 263 kr., en kosta nú 637 kr., og skakkar þar 374 krónum. — Það er einnig upplýst, að ekki er mikið að marka það, sem þessir menn, sem settir hafa verið yfir einkasöluna, tala, sumpart með ráði og sumpart með óráði. Það er upplýst og sannað, að forstjórinn hefir selt bifreið með ákveðnu verði, en gefið prívatafslátt, og hefir síðan leyft sér að fá kaupandann til að gefa upp annað verð. Það liggja fyrir óræk gögn um það, að hann hefir reynt að fá menn til að segja annað um verð en það, sem rétt var, og ég efa, að fremur sé hægt að trúa þeim lista, sem hæstv. fjmrh. kemur nú með og les hér upp eins og páfagaukur, því að hann hefir ekkert vit á þessum hlutum og gat í gær ekkert um verðið talað, en hefir nú fengið þennan verðlista hjá einkasölunni.

Ég ætla að enda mál mitt nú með því að taka hér tvö dæmi. — Ég hefi hér fyrir framan mig lista, sem sýnir, með hvaða verði einkasalan hefir selt ýmsar tegundir, og ennfremur reikning frá Paul Smith frá 30. apríl í fyrra. Þá selur hann skrúfuð stálrör fyrir 37 kr., en einkasalan selur þá sömu tegund á 42 kr. — Það sjá allir, að hér hallast á. Þá selur P. Smith dósir á 35 kr., en einkasalan selur þær á 55 kr. Hér hallast líka á, og það á annan veg en hæstv. fjmrh. vill vera láta. En nú þykist hæstv. fjmrh. ætla að hrekja þetta, og ég staðhæfi, að hann ætli að gera það með því verði, sem einkasalan hefir nú og jafnvel nú á síðustu dögum hefir verið breytt.