22.02.1936
Neðri deild: 6. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

16. mál, útflutningsgjald

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Á haustþinginu 1934 var lögum um útflutningsgjald af beinum og hausum breytt þannig, að útflutningsgjaldið af þessu hráefni var hækkað úr 1 kr. í 3 kr. af hverjum 100 kg. af þessari vöru. Af formælendum þessarar breyt. var því þá haldið fram, að þetta ætti að vera til þess að vernda fiskimjölsiðnaðinn íslenzka, en yrði ekki til skaða fyrir þá, sem fisk veiða og selja hráefni þessi til verksmiðjanna, sem vinna úr þeim, og til útflutnings, eins og verið hefir. Á síðasta þingi var svo hér til umr. frv., sem gekk í þá átt, að þessum l. yrði aftur breytt, þannig að tollurinn væri lækkaður aftur. En það frv. náði ekki fram að ganga. Það fékk þá meðferð í sjútvn. þessarar d., ef ég man rétt, að 3 af hv. nm. töldu, að ekki væri rétt að breyta tollinum aftur að svo komnu, með því að ekki væri fengin næg reynsla fyrir því, hvernig hann verkaði. Þó að þessum hv. nm. og fleiri hv. þm. hafi kannske á síðasta þingi ekki verið kunnugt um það, hver áhrif þessi hækkun útflutningsgjaldsins hefir haft, þá mun nú svo vera úr því skorið, að ekki leiki vafi á lengur, að þessi útflutningsgjaldshækkun hefir haft í för með sér stórkostlega verðlækkun á þessari vöru til framleiðenda. Það má að vísu segja, að á sama tíma hafi orðið verðlækkun á fiskimjöli. En verðlækkunin á þessum hráefnum nemur miklu meira hlutfallslega heldur en verðlækkuninni á fiskimjölinu. Þegar þetta mál var hér til umr. á síðasta þingi, sýndi ég og aðrir, sem töluðu fyrir lækkun útflutningsgjaldsins, fram á, hvernig samræmið væri á milli verðlækkunarinnar á þessu hráefni og verðlækkunarinnar á fiskimjölinu. Og færðum við gild rök fyrir því, að fiskimjölsframleiðendurnir íslenzku hefðu tekið upp samkomulag við Norðmenn um verðlag á beinunum, þannig, að þeir hafa ekki keypt þau yfir visst hámarksverð eftir þessu samkomulagi. Hefir þetta haft verulega lækkun á verði fiskbeinanna í för með sér. Á þessu ári hefir svo verzlunin með þetta hráefni versnað enn fyrir framleiðendur, svo að við borð liggur, að hætt verði að nokkru eða öllu leyti að hirða þessar afurðir.

Þessi útflutningsgjaldshækkun hefir aldrei verið hugsuð sem leið til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, heldur hefir verið látið í veðri vaka, að hún væri gerð til verndar innlendum iðnaði. Þegar það nú liggur við borð, að hætt verði að hirða þetta hráefni, er það sýnilega yfirvofandi, að vinnsla og útflutningur fiskimjöls muni hverfa, og við svo búið getur ekki staðið. Þess vegna fer ég fram á þá niðurfærslu á þessum tolli, sem ég hefi lýst.

Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál nú, því að það er hv. þdm. kunnugt frá umr. um það á síðustu þingum. Leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.