22.02.1936
Neðri deild: 6. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

16. mál, útflutningsgjald

*Jónas Guðmundsson:

Það er nú svo mikill áhugi fyrir þessu máli, að ekki dugar um það eitt frv., heldur verða þau að vera tvö, til þess að reyna að koma fyrir kattarnef þeim litla stuðningi, sem fenginn var samþ. á Alþingi til handa þessari iðngrein.

Ég sé ekki að svo stöddu ástæðu til að fara að ræða frv., en vil mega vænta þess af hv. þd., að hún taki nákvæmlega eins á málinu nú og á síðasta þingi, nefnilega að hún felli málið hreinlega. Skal ég ekki setja mig á móti því, að málið verði látið fara til n. til athugunar. Því að ef eitthvað hefir gerzt síðan um miðjan desember s. l., þegar þessu frv. var slátrað hér í hv. d., sem réttlætir það að taka málið upp nú, þá er rétt, að það komi fram í dagsljósið. Mér er ekki kunnugt um, að svo sé, heldur mun iðnaður þessi, fiskimjölsiðnaðurinn, þurfa enn meiri stuðning frá ríkinu vegna miklu meira verðfalls á þessari iðnaðarvöru erlendis en þá var fram komið.

Ég vil því mæla með því, að þessi tvö frv. fái nákvæmlega sömu afgreiðslu og þetta frv., sem nú liggur hér fyrir til umr. fékk á síðasta þingi.