04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

16. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Ég vil aðeins vekja athygli á því, að það er ekki rétt, sem hv. 6. landsk. sagði, að það væru erlendir kaupendur beinanna, sem greiddu þennan toll. Ég undirstrika það enn, að það er í þessu efni eins og alltaf, að framleiðendurnir verða að borga hann. Og það er vitanlegt, að undanfarin ár hafa ísl. verksmiðjurnar hagað sínu verði eftir því, sem Norðmenn hafa greitt fyrir þetta hráefni. Norðmenn hafa svo miðað við, hvað þeir gætu greitt fyrir beinin með því að greiða þennan 30 kr. toll pr. tonn. Svo að ef aðstaða er svipuð hjá Norðmönnum og Íslendingum, þá hafa ísl. verksmiðjur stungið í sinn vasa sem nemur tollinum.

Þá vil ég út af því, sem hv. 6. landsk. sagði um síldarmjölsverksmiðjurnar, og bar þær saman við fiskimjölsverksmiðjurnar, vekja athygli á því, að það er mjög mikill munur á þeirri atvinnu, sem vinnsla síldar í síldarmjölsverksmiðjunum veitir, og þeirri atvinnu, sem fiskimjölsverksmiðjurnar skapa við mölun beina. Ef t. d. er tekin verksmiðjan á Sólbakka, sem vinnur úr afla þriggja botnvörpuskipa, þá munu jafnmargir menn hafa atvinnu í landi við að vinna úr aflanum eins og þeir, sem eru á sjónum til þess að sækja þennan afla.

Mjölverðið hefir, eins og tekið hefir verið fram, lækkað á þýzkum markaði, og nemur sú lækkun 15% á síðastliðnu ári. En ísl. fiskimjölsverksmiðjurnar hafa lækkað verðið á hráefninu um 50%. Á sama tíma sem fiskimjölið lækkar aðeins úr 225 n. kr. og niður í 190 n. kr. tonnið, þá lækka verksmiðjurnar verðið á hverri körfu af blautum beinum úr 60 aurum og niður í 30 aura. Og þar, sem verðið hefir verið eitthvað lítið eitt hærra eða lægra, þar hefir lækkunin verið hlutfallslega sú sama. Ég hygg, að það þætti nokkuð slæm útkoma hjá síldarmjölsverksmiðjunum, ef þær fyrir 15% verðfall á síldarmjölinu færu að lækka verðið á síldarmálinu úr 4 kr. í fyrra niður í 2 kr. í ár. Nú er það vitanlegt, að síldarmjölið hefir lækkað og kemur til með að lækka hlutfallslega á við fiskimjölið. En ég er alveg viss um, að að þeim hluta, sem síldarmjölið er hluti úr framleiðslu síldarmjölsverksmiðjanna, þá kemur ekki verðið á hráefninu til með að lækka um 50% að þeim hluta á móts við 15% lækkun á síldarmjölsverðinu á þýzkum markaði.

Þó að hv. 6. landsk. sé að taka hér fram tölur eins og að verð á beinamjöli hafi 1930 og 1931 verið 300 kr. tonnið og svo nú 190 kr. tonnið, þá er rétt að fara eftir lækkuninni á síðasta ári aðeins og taka það verð, sem greitt var fyrir hráefnið á síðustu vertíð og bera það saman við það verð, sem nú er greitt fyrir það, og hinsvegar einnig að bera saman verðið á fiskimjölinu í Þýzkalandi á sama tíma og athuga verðlækkunina á hvoru fyrir sig. Útkoman á þeim samanburði er eins og ég hefi tekið hér fram.

Ef á að fara að láta fiskimenn greiða 20 kr. í verndartoll til þess að verðlauna verksmiðjurnar fyrir að lækka afurðir þeirra (þ. e. fiskimanna) í verði um 50%, þá fer að færast skörin upp í bekkinn.