07.03.1936
Neðri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

16. mál, útflutningsgjald

*Jónas Guðmundsson:

Ég fór fram á það í gær, að umr. yrði frestað, og var það gert. Vil ég þakka hæstv. forseta fyrir það, að hann varð við þessum tilmælum mínum.

Frá sjútvn. hefir komið brtt. í tveim liðum. Annar er einungis leiðrétting, en um hina, að fella niður orðin „þurrkuðum og“ er það að segja að það atriði skiptir litlu máli. Finnst mér jafnvel betra, að þetta sé eins og í frv. stendur, og það stóð þar áður en lögunum var breytt.

Eftir afgr. málsins við síðustu umr. virðast líkur til, að þingið hafi breytt svo um skoðun á því, að málið fái framgang. En síðan ég talaði síðast í málinu, hefir ýmislegt komið fram, sem ég vildi víkja að nú.

Aðalatriðið fyrir mér er að sýna fram á, að þjóðinni getur enginn skaði orðið að því að hafa þennan toll. Tollurinn hefir ekki lækkað verðið á þessari vöru. Árið 1931 var verðið á fiskimjölinu, komnu til Þýzkalands, 330 kr. tonnið. 1935 var þetta verð fallið niður í 247 kr. tonnið. Nú í dag er verðið á því, sem selt verður, 209 kr. tonnið. Allt er þetta reiknað í ísl. kr. — Annars liggja fyrir upplýsingar eftir skeytum frá Þýzkalandi um það, að verðið á síldarmjöli nemi nú 160 kr., á karfamjöli 170 kr. og á fiskimjöli 190 kr., og líkur eru til, að verðlækkun þangað til í maí n. k. muni nema 10–20 kr.

Eins og sést á undanförnum tölum, nemur verðfall á fiskimjölinu frá því í nóv. 1934 og þar til nú 121 kr., og í maí n. k. mun verðlækkun þessi nema 143 kr. á hvert tonn, verði verðlækkun sú effektiv, sem gert er ráð fyrir.

1934 var greitt fyrir hráefnið þurrt hér á landi 130–l50 kr. Nú svarar það til 82 kr. verðs á tonninu. Hefir því verðlækkunin orðið 58–68 kr., miðað við verð, sem nú er gefið fyrir hráefnið þurrt í Vestmannaeyjum og hér við Faxaflóa. Á sama tíma, sem verðfall á mjölinu hefir numið 121 kr., hefir hráefnið aðeins lækkað um 58–68 kr.

1935 var greitt fyrir hráefnið 105 kr. á tonn. Nú er verðið 82 kr. á tonn. Lækkunin hefir því á þessu tímabili numið 23 kr. á tonn. Lækkun á markaðsverði fiskimjölsins frá því í fyrra úr 247 kr. niður í 209 kr. nemur 38 kr. á tonn. Hefir því verðið á hráefninu lækkað um 23 kr. á einu ári, en verð á mjöli um 38 kr.

Í Vestmannaeyjum eru nú gefnar 9 kr. fyrir úrgang úr 1000 fiskum, en 14 kr. í fyrra. Svarar það til 36 kr. á tonn af þurru hráefninu. Hér við Faxaflóa hefir verðfall orðið meira, af því að meira var gefið hér fyrir hráefnið í fyrra. Fari nú svo að verðið lækki á þessu ári niður í 187 kr., úr 330 kr. haustið 1934, er óhjákvæmilegt, að á þessum atvinnuvegi verði gerðar miklar breytingar, ef hann á að geta staðizt framvegis.

Það, hvernig þetta hefir verkað í Vestmannaeyjum, skiptir mestu máli. Vestmannaeyjar hafa ekki greitt þennan toll, því að þar var ákveðið, að vörugjaldið í bæjar- og hafnarsjóð skyldi dregið frá honum. Vestmannaeyjar hafa því nærri jafnhátt gjald dregið frá honum og sjálfur tollurinn nemur. Því ætti verðið ekki að hafa lækkað í Vestmannaeyjum, ef tollurinn einn hefði lækkað verðið. Jafnframt ber þess að gæta, að hvergi á landinu er jafnmikil samkeppni af hálfu útlendinga og þar. Þar hafa jafnan verið að minnsta kosti tveir útlendir kaupmenn, sem kepptu við Íslendinga. Samt hefir verðfall þar verið svipað og annarsstaðar á landinu. Ef nú tollurinn yrði afnuminn og vörugjaldið héldist áfram í Vestmannaeyjum, stæðu Vestmannaeyingar verr að vígi en aðrir landsmenn, og þar yrðu það hinir innlendu framleiðendur, sem myndu tapa.

Þetta dæmi sannar betur en flest annað það, sem ég hefi haldið fram, að tollurinn geti ekki haft önnur áhrif en þau að hækka verðið innanlands og gera innlendar verksmiðjur hæfari til að kaupa vöruna. En ef íslenzkar verksmiðjur verða að gefast upp vegna verðfallsins á erlenda markaðinum, þá mun verðið á hráefninu falla svo mjög að menn geta ekki hirt það hvort sem er.

Hv. þm. Borgf. hélt því fram um daginn, að ég hefði farið með blekkingar í þessu máli. Spurði hann, hvort ég héldi, að allir sjómenn og útgerðarmenn væru þeir skynskiptingar eða jafnvel umskiptingar, að þeir fylgdu honum allir með tölu, en ekki mér, ef þeir skildu ekki hvernig í málunum liggur. Ég held nú ekki, að sjómenn séu meiri skynskiptingar en aðrir menn. En fyrst mér hefir ekki tekizt að sannfæra hv. þm. Borgf. um mitt mál hér í d., hvernig ætti ég þá að geta sannfært alla sjómenn landsins, sem ég hefi ekki talað við og næ ekki til?

Þetta er ekki talið flokksmál, en þó hafa blöð og fundir verið notuð til að vinna á allan hátt gegn því, því að sumir menn álíta alla tolla þannig vaxna, að þeir hljóti að lenda á innlendum mönnum.

Ég hefi átt tal við stj. ísl. fiskimjölsframleiðenda, sem í fyrra gerði ýtarlega grein fyrir áliti sínu. Stj. þessa félags hefir beðið mig að lýsa yfir eftirfarandi fyrir sína hönd:

„Vegna þeirrar mótspyrnu, sem löggjöf um verndartoll fyrir fiskimjölsiðnaðinn hefir mætt á undanförnum þingum, og þeirrar óánægju, sem einstakir menn hafa vakið gegn þeirri löggjöf, og vegna þeirrar trúar manna, að tollurinn lækki verðið innanlands, sem við þó höfum sýnt fram á með rökum, að er algerlega rangt, þá vill stjórn félagsins taka það fram, að hún telur rétt, að tollurinn verði færður niður, eins og ráðgert er í fyrirliggjandi frv., því þó með því verði hinum íslenzka fiskimjölsiðnaði neitað um þann stuðning, sem minnst kostar þjóðarheildina og einstaklinga hennar að láta í té, þá vilja fiskimjölsframleiðendur ekki, að þeim verði um það kennt, að hafa í skjóli verndartollsins lækkað verð þessarar vörutegundar, ef svo fer, að hún fellur svo í verði, að ekki svarar lengur kostnaði að vinna hana.“

Þessa skyldu við félagið tel ég mér skylt að inna af hendi, og geta svo hv. þm. ráðið því, hvað þeir gera við atkv. sitt. En ég mun greiða mitt atkv. gegn frv., því að ég álít, að það eina, sem bjargað getur þessum iðnaði, sé það, að hann fái alla framleiðslu hérlenda til vinnslu, því að þá fyrst getur hann dreift kostnaðinum á stærra kvantum og gefið framleiðendum hærra verð. Þetta er mín sannfæring.

Ég hefi lýst yfir því, að fiskimjölsframleiðendur vilja, að tollurinn sé færður niður, svo að þeim verði ekki kennt um verðfallið á þessari vöru, og að þeir hafa beðið mig að taka þetta fram. Að öðru leyti fjölyrði ég ekki um málið. Ég geri ráð fyrir, að ekki verði miklar deilur um málið héðan af. Munu margir hafa greitt þessum tolli atkv. sitt í upphafi af því að þeir töldu, að fiskimjölsiðnaðinum yrði hann til hagsbóta.