07.03.1936
Neðri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

16. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Þegar þetta mál var til umr. á síðasta þingi, hafði ég við höndina tölur um verðlag á mjölinu og hinsvegar hráefninu. Þessar tölur hefi ég ekki nú við höndina, en dm. munu vera þær nokkuð kunnar, síðar við umr. á síðastl. þingi. Þá sýndi ég fram á ósamræmið í verðfallinu á mjölinu erlendis og verðfallinu á hráefninu innanlands. Ég tók það líka fram við 2. umr., hve mikið þetta ósamræmi væri orðið nú, þar sem nú er greitt 50 minna fyrir blauta hausa en á síðustu vertíð.

Hv. 6. landsk. hefir alltaf verið að klifa á því, að það væru kaupendur, en ekki framleiðendur, sem yrðu að greiða þennan toll. Ég hefi ekki trú á því, að hann geti sannfært nokkurn mann utan þings eða innan, um, að það hafi ekki áhrif á útflutningsverð varnings, hvaða tollur á hann er lagður.

Hér hafa oft verið á döfinni tollar á útflutningsvöru, og hafa menn alltaf verið á móti þeim, af því að verðlagið á vörunni væri þannig, að hún mætti ekki við því að fá tollinn á sig, og að framleiðendur myndu fá baggann á sig, sem af tollinum myndi leiða. Hér er sama máli að gegna. Það eru fyrst og fremst framleiðendur, sem verða að bera þennan toll.

Hv. 6. landsk. nefndi nokkrar tölur um mjölverðið frá 1934–1936. Verðið 1934 kemur málinu ekki mikið við. Hann fór nokkurnveginn rétt með verðið á mjölinu nú. Þó held ég, að 211–212 kr. sé sönnu nær en 209 kr. á tonnið, en það skiptir ekki miklu máli. Hann blandaði hér inn í verði á síldarmjöli, en þar er verðið 3 sterlingspund, sem er meira en 160 kr., nema hann hafi þá átt við norskar krónur. (JG: Ég átti við það).

Þá sagði hann, að í fyrra hefðu verið greiddar 14 kr. fyrir þúsundið af hausum. Ef hann væri kunnugur í Vestmannaeyjum, myndi hann vita, að verðið fer mjög eftir staðháttum, eftir því hversu hagar til um flutning á hausunum. Yfirleitt mun verðið hafa verið um 17 kr. þúsundið. Ég skal ekki segja um það, hvort verðið er komið niður í 9 kr. nú, því að ég var farinn frá Vestmannaeyjum, er til þess kom, að verðlag væri ákveðið, en mér er kunnugt um, að sunnanlands hefir verðið fallið um 50%.

Þá sagði hv. þm. einnig, að Vestmannaeyingar hefðu alveg losnað við að greiða tollhækkunina. Þetta er ekki rétt, en hitt skal viðurkennt, að þeir hafa ekki greitt af henni nema kr. 1.25 á smálest.

Hann var að tala um samkeppni í Vestmannaeyjum í þessari grein. En í Vestmannaeyjum eru ekki nema 3 keppendur, og er það minna en víða annarsstaðar.

Ég get verið ánægður yfir þeirri yfirlýsingu, sem hann las upp frá Félagi fiskimjölsframleiðenda, sem hann er aðili í. Vegna tollhækkunarinnar eru menn hættir að hirða beinin, þótt hausar séu enn hirtir. Þetta hlýtur að leiða til þess, að verksmiðjurnar hafa minna að vinna úr eftir en áður, og hafa því séð sitt óvænna og vilja nú losna við tollinn.