05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Hannes Jónsson:

Ég get að nokkru leyti vísað til þess, sem hv. 7. landsk. sagði um þetta efni. Ég vildi aðeins bæta því við, að ég teldi mjög æskilega bráðabirgðalausn á þessu máli, sem í raun og veru felst í frv., þó það sé þar, eins og ég hefi áður tekið fram, tekið óheppilega mikið úr höndum þessa félagsskapar. Ég teldi það æskilegt, að Loðdýraræktarfélaginu væri veittur styrkur til að ráða sér ráðunaut, sem það hefði svo allan veg og vanda af og réði störfum hans að öllu leyti, og ennfremur að varið væri úr ríkissjóði einhverjum hluta, t. d. helmingi, kostnaðar við sýningar og merkingu dýranna.

Það mætti gjarnan setja þau ákvæði, að sýnendur dýranna eða þeir, sem létu merkja, borguðu tillag á móti, en það væri létt undir með loðdýraeigendum með þessum helmingsstyrk úr ríkissjóði.

Ég skal aðeins segja það um 11. gr., að það væri mjög æskilegt að fá þá breyt. á henni, sem hv. frsm. minntist á. Það getur ekki komið til mála að sekta menn fyrir þau óhöpp, sem þeir verða fyrir og eru þeim ósjálfráð. Þó að allar öryggisráðstafanir séu gerðar, sem l. heimta, þá geta komið fyrir óhöpp, sem ekki er hægt að ráða við, og það nær engri átt að sekta menn fyrir það. Það getur ekki komið til mála að hafa gr. eins og hún er orðuð þar, því það stendur „ef sannanlegt tjón hlýzt af“. Það er a. m. k. vafasamt, hvort það er í raun og veru ekki alltaf sannað fyrirfram, að tjón hljótist af, ef dýr sleppa. Það er ekki tekið fram, að það hljótist tjón af dýrunum sjálfum, heldur að það hljótist tjón af, ef dýr sleppa. (BÁ: Þetta er nú nokkuð langt sótt). Alþ. mundi hljóta tjón af því, ef hv. þm. Mýr. hyrfi úr tölu þm. En það er ekki þar með sagt, að hann mundi valda öðrum miklu tjóni með því. (BÁ: Ég verð að beygja mig fyrir þessum rökum).