04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (1280)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Gunnar Thoroddsen:

Í umr., sem fóru fram um þetta mál í fyrradag, gerði ég að umtalsefni sérstakan lið útvarpsstarfseminnar, fyrirlestra Jóns Eyþórssonar um daginn og veginn. Nefndi ég fáein dæmi þess, að þetta fyrirlestrahald hefði ekki verið algerlega hlutlaust, og þessi stutta ræða mín hefir farið svo í taugarnar á hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Reykv., að hún varð aðalefni andsvara þeirra í fyrradag. Ég hefi í rauninni fáu við að bæta það, sem ég sagði þá, en tel þó rétt að svara örfáum orðum.

Fyrsta ásökunin frá minni hendi til þessa fyrirlesara var sú, að hann hefði ráðizt að ræðumönnunum, sem töluðu við umræður ungra manna um stjórnmál, sem fóru fram í útvarpinu fyrir nokkru, og talið, að þeir hefðu ekki gætt almenns velsæmis, þverbrotið reglur útvarpsins um slíkar umr. o. s. frv. Ég gat þess, að eitt af stjórnmálafélögum ungra manna hér í bænum hefði sent útvarpinu yfirlýsingu, þar sem það mótmælti þessum ummælum og krafðist þess, að ef útvarpið teldi einhverja af ræðumönnunum seka um brot á settum reglum, þá væru þeir nafngreindir. Ég skýrði líka frá, hverjar viðtökur þessi leiðrétting og réttmæta krafa fékk, að neitað var um birtingu hennar. Þetta taldi ég hlutdrægni bæði frá hendi þess manns, er ummælin viðhafði, og af hendi útvarpsráðs. Þessari ásökun minni vildi hv. 2. þm. Reykv. svara með því, að hann teldi alveg réttmætt að álasa ræðumönnunum við stjórnmálaumræður ungra manna, og rökstuddi það þannig, að það væri engin ástæða til þess fyrir unga menn sérstaklega að ræða stjórnmál í útvarpinu. Ég þarf ekki að svara þessu. Með því að leyfa þessar umr. hefir útvarpsráðið lýst yfir þeirri skoðun, að ungir menn ættu rétt á að ræða áhugamál sín og hagsmunamál í útvarpinu. En mér þykir rétt, að reykvískir æskumenn veiti því athygli, hvernig þessi frekasti foringi Alþfl. talar í þeirra garð, að hann telur æskumenn þessa bæjar engin þau hagsmuna- eða áhugamál hafa, sem réttmætt sé að hleypa þeim í útvarpið til að ræða um. Það kann að vera, að í hans flokki sé æskulýðnum þannig farið, að hann eigi engin sérstök áhugamál, en ég fullyrði, að það er ekki þannig í öllum stjórnmálaflokkum þessa lands a. m. k.

Ég hjó einnig eftir því hjá hv. 2. þm. Reykv., að hann sagði, að það hefðu aðallega verið „hálfgamlir“ menn, sem töluðu í útvarpið við þetta umrædda tækifæri, og nefndi m. a. mig þar til dæmis. Ég skal benda á í því sambandi, að daginn eftir minntist blað Framsfl. á mig og talaði um mig sem sérstaklega ungan mann. Læt ég því þeim ritstjóra Nýja dagbl. og hv. 2. þm. Reykv. eftir að glíma um þetta atriði.

Ég vil því endurtaka það hér, að í þessum fyrirlestri Jóns Eyþórssonar var farið hlutdrægt að, þar sem ráðizt var að þessum ungu mönnum, og síðan neitað að nafngreina þá menn, sem undir ásökunum lægju.

Í öðru lagi drap ég á það, er þessi sami maður minntist á sjálfstæðisfélag kvenna hér í bænum, að hann notaði einn af þessum fyrirlestrum sínum til þess að reyna að spilla fyrir þeim félagsskap. Hv. 2. þm. Reykv. svaraði þessu á þá lund, að Jón Eyþórsson hefði ekki sagt neitt um, að það væri óviðeigandi fyrir konur að hafa sérstakan stjórnmálafélagsskap, heldur aðeins beint fyrirspurn um það til hlustenda, hvort þeir teldu þetta rétt og vel viðeigandi. Það kann að vera, að hann hafi orðað þetta í fyrirspurnarformi, en það er líka hægt að læða fram samskonar áróðri í spurningaformi eins og þó fullyrðingar séu viðhafðar, og það er áreiðanlegt, að þessi ummæli Jóns Eyþórssonar voru almennt skilin þannig, að hann teldi fyrir sitt leyti ekki rétt, að konur tækju sig út úr og mynduðu með sér sérstök stjórnmálafélög. Þessu fannst manninum ástæða til að vekja athygli á, einmitt rétt eftir að sjálfstæðiskonur í Reykjavík voru búnar að stofna með sér stjórnmálafélag. Þetta kalla ég ósæmilega hlutdrægni og áróður.

Þá voru nokkur fleiri atriði, sem ég gat um í minni ræðu. Ég minntist á fyrirlestrahald Ragnars Kvarans um kosningar á Norðurlöndum. Ég fullyrti, að í þeim fyrirlestrum hefði komið fram hlutdrægni, að fyrirlesarinn hefði dregið taum sósíalistanna í öllum þessum löndum, þar sem hann lýsti stefnu þeirra og framkvæmdum, en minntist varla nokkru orði á gagnrýni í þeirra garð, né á stefnu hægri flokkanna í þessum löndum. Þessu hefir ekki verið svarað einu orði af þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað.

Þá minntist ég fáeinum orðum á ummæli Jóns Eyþórssonar um nýafstaðið flokksþing framsóknarmanna. Ég taldi óþarfa, að í erindunum um daginn og veginn væri skýrt svo ýtarlega og með svo miklum belgingi frá þessu flokksþingi, hvað það væri veglegt og hvað það vekti mikla athygli, að varla væri um annað talað heila viku hér í höfuðstaðnum. Ég hefi nú fengið bréf frá útvarpsstjóra, þar sem hann heimtar, að ég leiðrétti það ranghermi, er komið hafi fram hjá mér í fyrradag, að útvarpið hafi ekki minnzt á afmæli Heimdallar í fréttum sínum. Ég hefi þegar sagt útvarpsstjóra það prívat, að bréf hans sé á misskilningi byggt. Þessa afmælisfagnaðar var tvívegis getið í fréttum útvarpsins, og ég hefi alls ekki borið á móti því. Hitt sagði ég, að Jón Eyþórsson hefði talað með alltof miklum rosta um flokksþing framsóknarmanna, og tók þá sem dæmi til samanburðar umsögn hans um þetta 10 ára afmæli Heimdallar. Ég vísa því kröfu útvarpsstjóra heim til föðurhúsanna.

Þau atriði, er ég minntist á í fyrirlestrum Jóns Eyþórssonar, standa þannig enn óhrakin, og sökunum mínum út af fyrirlestrum Ragnars Kvarans hefir enginn reynt að mótmæla.

Þá hefir borizt hér í tal, að Alþfl. eða Alþýðusambandið fengi leyfi til að halda pólitíska fyrirlestra í útvarpið 1. maí. Þetta var átalið af okkur sjálfstæðismönnum. En hv. 2. þm. Reykv. taldi það ekki ásökunarvert, því Alþýðusambandið væri ópólitísk stofnun, sem ætti sama rétt á að fá tíma í útvarpinu eins og t. d. Búnaðarfélag Íslands. Þessu þarf í rauninni ekki að svara, því það er margsannað, að Alþýðusamhandið er ekki fyrst og fremst ópólitísk verkalýðssamtök, heldur er Alþfl. og Alþýðusambandið eitt og hið sama. Því til sönnunar, að skipa beri Alþýðusambandinu á bekk með pólitískum flokkum, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð úr lögum þess. Í 2. gr. er talað um, að tilgangur sambandsins sé að styrkja og auka samstarf íslenzkra alþýðufélaga, „þeirra, er byggð eru á grundvelli jafnaðarstefnunnar“. Þá segir í 4. gr.: „Rétt til þess að vera tekin í Alþýðusambandið hafa öll íslenzk verkalýðsfélög og stjórnmálafélög, sem vilja hlíta stefnuskrá Alþýðuflokksins“. — Þar sem ræðir um kjörgengi til trúnaðarstarfa fyrir sambandið segir m. a.: „Kjörgengi fulltrúa í fulltrúaráð, á fjórðungsþing, sambandsþing og aðrar ráðstefnur innan sambandsins, svo og í opinberar trúnaðarstöður fyrir sambandsins eða flokksins hönd, er bundið við að fulltrúinn sé Alþýðuflokksmaður og tilheyri engum öðrum stjórnmálaflokki“. Svo er bætt við, að hver fulltrúi verði að skrifa nafn sitt undir stefnuskrá Alþfl. og skuldbinda sig til að lúta henni. Með þessu er sannað mál, það sem allir heilvita menn hafa vita, að Alþýðusambandið er pólitískur flokkur, og því á það ekki frekar rétt til að fá sérstakan ræðutíma í útvarpinu heldur en t. d. Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri að sinni, en vil aðeins bæta því við, að það mun vera mikið rétt í því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að allur landslýður tryði yfirleitt því, sem útvarpið segði, þó það tryði ekki blöðunum. Einmitt þess vegna er hættan ennþá meiri, að útvarpinu sé beitt hlutdrægt í pólitískum tilgangi. Þetta höfum við sjálfstæðismenn viljað sýna fram á og átelja, að útvarpinu hefir verið beitt hlutdrægt til áróðurs fyrir rauðu flokkana. Það sýnir líka greinilega skilningsleysi stjórnarflokkanna á þýðingu útvarpsins, að þegar við ráðumst á útvarpið fyrir hlutdrægni þess, þá svarar hv. 9. landsk. því m. a., að Morgunbl. skrifi hlutdrægt og noti stolnar fréttir; m. ö. o., þeir leggja pólitísk flokksblöð að jöfnu við ríkisútvarpið. Vilji menn gera einhvern samanburð við Morgunbl., verður að taka flokksblöð hinna flokkanna til samanburðar. Því er það misheppnuð málsvörn hjá hv. stjórnarsinna, að afsaka hlutdrægni útvarpsins með ásökunum í garð Morgunbl., sem er pólitískt málgagn, um hlutdrægni.

Við sjálfstæðismenn höfum nú flutt sundurliðaða, rökstudda ádeilu á útvarpið fyrir hlutdrægni. Hv. þm. V.-Sk. hefir sérstaklega ýtarlega í sinni snjöllu ræðu í fyrradag sýnt fram á lið fyrir lið, hvernig sérstaklega einn starfsmaður þess hefir komið ósæmilega fram í þessu efni. Aðrir hafa tekið önnur dæmi, og flest standa þau óhögguð. Það má því telja sannað mál, að ríkisútvarpið hafi beitt hlutdrægni á undanförnum árum í þágu rauðu stefnunnar, og m. a. í því tilefni er það frv. komið fram, sem hér liggur fyrir. Við sjálfstæðismenn álítum, að eina hugsanlega leiðin til að koma í veg fyrir þetta sé sú, að útvarpsnotendur, sem ég fullyrði, að eru mjög óánægðir, fái meiri umráð yfir rekstri útvarpsins gegnum útvarpsráð. Það er furðuleg framkoma, ef stjórnarflokkarnir, sem nota hvert tækifæri til þess að reyna að skreyta sig með fjöðrum lýðræðisins, ætla að setja sig upp á móti því, að almenningur, útvarpsnotendur, fái meiri umráð yfir útvarpinu.