24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (1494)

25. mál, alþýðutryggingar

*Jónas Guðmundsson:

Það er nú orðið fámennt hér í d. og ekki helmingur af hv. flm. frv. viðstaddur, svo að það er í rauninni þýðingarlítið að ræða þetta, en í ræðu hv. þm. Borgf. og hv. þm. V.-Sk. kom fram eitt atriði, sem ég held, að ekki hafi verið minnzt á, hvorki af hæstv. atvmrh.hv. 1. landsk., en það var um eignarrétt sveitarfélaganna yfir gjöldum ellistyrktasjóðanna og það, að hreppsnefndirnar skuli ekki fá úthlutað úr þeim sjóðum áfram eins og verið hefir, Þetta er ofureinfalt mál, því að í l. stendur, að sveitar- og bæjarstjórnir skuli auglýsa úthlutun til þeirra, sem eru 67 ára og eldri, og þeirra, sem sækja um örorkubætur. Ef slík umsókn kemur, þá verður styrk úthlutað, og þá gengur kannske allt það fé, sem þessi sjóður á, til þessarar úthlutunar, en berist engin slík umsókn, — til hvers er þá umráðarétturinn yfir þessum sjóðum? Þegar umsókn liggur fyrir, þá er það skylda sveitarstjórnanna að leggja fé fram, en komi hinsvegar engin umsókn, þá þarf ekkert fé, og þá kemur ekki til úthlutunar.

Ég vil leyfa mér að leggja spurningu fyrir hv. þm. V.-Sk. Hvað ætlar hann að gera við þetta fé, ef engin umsókn kemur? Hvað ætlar hann að gera við vexti af sjóðunum í þeim hreppum í hans sýslu, þar sem engin umsókn kemur, eða ef vextirnir eru meiri en það fé, sem úthluta þarf handa þessum mönnum? Nú vita allir, að í öllum hreppum landsins eru gamalmenni, sem þurfa á þessum styrkveitingum að halda, og þar af leiðandi kemur hluti gömlu ellistyrktarsjóðanna beinlínis heim í hreppana á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í l. Ég vil biðja hv. þm. að svara greinilega, hvað hann ætlar að gera við peningana, ef engin umsókn berst. Ætlar hann að leggja þá við höfuðstól eða nota þá öðruvísi í þarfir sveitafélagsins? Komi umsókn, þá þarf peninga til úthlutunar, en liggi engin umsókn fyrir, þá þarf enga úthlutun.