18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Jónas Guðmundsson:

Það eru þrír af allshn.mönnum, sem flytja þessa umorðun á þeirri brtt., sem ég hefi flutt við frv. Hv. þm. Barð. hefir nú mælt fyrir þessari till., og í rauninni er ekkert við þessu sjónarmiði að segja, en samt vil ég benda á það, að till. gerir ráð fyrir, að opna megi sjóðinn alveg að nýju, þar sem ætlazt er til þess, að umsóknarfresturinn skuli vera til 1. sept. 1937. Ég vil bara í þessu sambandi benda á, að það munu vera á annað hundrað sveitarfélög, sem hafa ekki enn sótt um lán úr sjóðnum, og það er vitað, að mörg þeirra skulda verulega upphæð, þó að þau færu ekki á síðasta ári í kreppulánasjóð til að fá uppgerð, svo að ef opna á sjóðinn að nýju fyrir öllum sveitarfélögum landsins, þá er ég hræddur um, að það fé, sem nú er í honum, sé of lítið til þess að hægt sé að inna af hendi það hlutverk, sem honum er ætlað samkv. þessum lögum, og ef þessi till. verður samþ., þá þyrfti að gera ráðstafanir til þess að auka við þetta fé að verulegu leyti.

Hinsvegar fer mín till. ekki fram á annað en að þau sveitarfélög, sem í fyrra voru tekin til skuldaskila og ekki gátu fengið fullnægjandi afgreiðslu, fái nú þá afgreiðslu af þessu fé, og með því mælir öll sanngirni, því að þó svo sé gert ráð fyrir í lögunum um kreppulánasjóð, að þessu fé sé skipt nokkurn veginn jafnt á milli hreppa og kaupstaða, þá er það vitanlegt, að þessi skuldaskil áttu að fara fram 1936, og á því ári er heimilt að verja 3 millj. kr. til þess að framkvæma þessi skuldaskil, þó að það færi svo, að í öðrum flokki væri féð notað alveg upp, en í hinum flokkunum yrðu eftir um 400000 kr.

Mín till. gengur út á að ráða bót á því, sem ekki fékkst bót á ráðin í fyrra, en það var tilætlun þingsins, að á árinu 1936 færi fram fullnaðaruppgerð á þeim sveitar- og bæjarfélögum sem til greina gætu komið í þessu efni, en ekki hitt, að halda áfram starfsemi sjóðsins í tvö ár, eins og gert er ráð fyrir í brtt. hv. þm. Barð., hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk. Ég fyrir mitt leyti vildi því mælast til þess, að ef þessi brtt. á þskj. 99 verður samþ., þá verði jafnframt heimilað að auka fé sjóðsins, til þess að hægt verði að fullnægja þeirri eftirspurn, sem vafalaust verður frá sveitarfélögum landsins. Mín till. gerir ekki ráð fyrir, að sjóðurinn verði opnaður, heldur aðeins, að lán verði veitt úr sjóðnum til þess að lúka þeim lánveitingum, sem í fyrra voru gerðar til bæjar- og sveitarfélaga, sem þá sóttu um lán, og veitt verði það, sem eftir er, meðan féð hrekkur til, en ekki opna sjóðinn að nýju. Ég vil einnig benda á, að kostnaðurinn við að láta sjóðinn starfa heilt ár er þó nokkur, og það verður að gera samkv. brtt. á þskj. 99, en ef hann á að hafa lokið störfum 1. júlí, eins og gert er ráð fyrir í brtt. minni, þá er kostnaðurinn við starfsemi sjóðsins miklu minni. Það kann að vera, að sumir telji þetta ekki miklu máli skipta, en það er þó atriði út af fyrir sig.

Ég býst ekki við, að mjög mörg ný sveitarfélög komi með umsóknir, nema því aðeins, að sjóðurinn verði opnaður alveg á ný, eins og gert er ráð fyrir í till. á þskj. 99. Þar er einnig gert ráð fyrir, að bæjarfélögin fái ekki neina réttingu sinna mála, nema svo fari, að eitthvað verði eftir af fé í sjóðnum, þegar sveitarfélögin hafa sótt. Það má segja, að þetta hefði við mikil rök að styðjast, ef litið væri á þetta frá því sjónarmiði, að skiptingin milli þessara tveggja deilda sjóðsins hefði verið beinlínis tæmandi á þann veg, að ekki mætti færa neitt á milli, en ég vil benda á það, að í viðskiptunum við hreppsfélögin hafa bæjarfélögin orðið mjög illa úti, því að þau hafa gefið sveitarfélögunum eftir yfir 500000 kr. í framfærsluskuldum. Bæjarfélögin hafa því tapað innieign hjá sveitarfélögunum, sem nemur a. m. k. ½ millj. kr., sem þau hafa vitanlega lagalegan rétt til að ganga að. Það hefir varla nokkur fátækraskuld verið borguð með meira en 50% og það hefir farið niður í 2½% af skuldinni hjá einu sveitarfélaginu. Þess vegna er aðstaða bæjarfélaganna miklu erfiðari og verri en hún var áður, og hún er einnig erfiðari af ýmsum öðrum örðugleikum, sem að bæjarfélögunum hafa steðjað undanfarin ár, þar sem sveitarfélögin aftur á móti hafa ekki orðið nærri eins illa úti. Þess vegna er það fullkomlega réttlætanlegt gagnvart bæjarfélögunum, sem ekki hafa fengið eftirgefið neitt af skuldum sínum, en sjóðurinn hefir hinsvegar gefið sveitarfélögunum eftir svo hundruðum þúsunda skiptir, að þau fái lán úr sjóðnum til þess að koma þeim skuldbindingum, sem þyngst hvíla á þeim núna, í betra horf.

Ég geri nú ekki ráð fyrir að fá að taka oftar til máls við þessa umr., því að ég er búinn að tala eins oft og heimilt er, en út af því, sem hv. þm. Borgf. skaut hér inn í við síðustu umr., vil ég taka þetta fram: Ég get varla ímyndað mér, að þó nokkur hreppsfélög bætist við á þeim svæðum, þar sem fjárpestin hefir herjað skæðast umtanfarin ár, þá sé ástæða til að auka féð í sjóðnum þess vegna, og þau sveitarfélög látin sitja fyrir lánum, sem síðan þessar lánveitingar byrjuðu, hafa orðið fyrir einhverjum skakkaföllum, svipuðum þeim, sem hv. þm. minntist á.

Að öllu athuguðu finnst mér því rétt, að till. mín á þskj. 70 verði samþ. eins og hún er, því að þar er aðeins farið fram á að ljúka því starfi, sem byrjaði í fyrra, með því fé, sem fyrir hendi er, en ekki að opna sjóðinn aftur og halda áfram lánveitingum úr honum.