03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (1543)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Um þetta frv. er í rauninni ekki annað en gott eitt að segja, en þó má benda á það, að sú heimild, sem um getur í 1. gr. frv., er að sjálfsögðu fyrir hendi og hefir verið framkvæmd, áður en þetta frv. kom fram, eins og hv. flm. gat um. En annars var það aðeins eitt lítið atriði í ræðu hv. þm., sem gaf mér tilefni til þess að standa upp, því að mér finnst rétt að leiðrétta það í ræðu hv. þm., að það hafi verið bæjarstjórnin í Reykjavík, sem á sínum tíma byrjaði framkvæmdir á atvinnubótavinnu fyrir unga menn. En sannleikurinn er sá, að frumkvæðið að þessu kemur frá stjórn Alþýðusambandsins, með bréfi til hæstv. atvmrh. á árinu 1935, þar sem þess er óskað, að úr ríkissjóði væri veitt einhver upphæð til atvinubóta fyrir unga menn og stúlkur, gegn því að bæjarstjórn Reykjavíkur veiti þar fé á móti, og þetta varð til þess, að hæstv. atvmrh. ritaði bæjarstjórninni og kvaðst mundu leggja fram nokkra upphæð úr ríkissjóði í þessu skyni gegn framlagi af hálfu bæjarstjórnarinnar. Bæjarstjórnin tók þessu vel, og síðan hefir þetta verið framkvæmt. Þetta skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli, en það er þó rétt, að það komi fram, hvert er upphaf þessa máls hér í Reykjavík.

Annars er líka rétt að minna á það, að hv. 9. landsk. hefir á tveimur undanförnum þingum flutt frv., sem gengur í líka átt, þó að það sé að sumu leyti nokkru fyllra en þetta frv., og nú flytur sá þm. á ný frv., sem að nokkru leyti er undirbúið af sambandi ungmennafélaganna hér á landi, sem á síðustu tímum hafa látið þetta mikla alvörumál nokkuð til sín taka og vilja stuðla að því með samtökum sínum, að bæta úr atvinnuleysi ungra manna, sérstaklega í kaupstöðum. Einmitt nú þegar þetta mál er á ferðinni, er verið að dreifa hér út sérprentun af fróðlegri og ágætri ritgerð eftir Aðalstein Sigmundsson um atvinnuleysi æskunnar. Þar sem hér eru nú á döfinni tvö frv. um sama efni, þá ættu þau að geta orðið grundvöllur að því, að hægt verði að leysa þetta mál á yfirstandandi Alþ. með viðunandi löggjöf, og þar sem að því frv., sem nú er til umræðu, standa fimm sjálfstm., þá má gera ráð fyrir, að sá flokkur vilji nú eitthvað fyrir málið gera, og þar eð vitað er um afstöðu Alþfl. til málsins, þá vil ég mega vænta þess, að það takizt að setja um þetta löggjöf, sem gæti orðið grundvöllur að merkilegum framkvæmdum til þess að hjálpa og leiðbeina atvinnulausum æskumönnum og gefa þeim kost á einhverri atvinnu og fræðslu um leið. Ég vil því í sjálfu sér fagna þessu frv. og vona, að það dragist nú ekki lengur að leysa þetta mál. En það hefir því miður verið svo, að á tveimur undanförnum þingum hefir ekki verið nægilegur skilningur af hálfu hv. þm. um að setja löggjöf um þetta efni, þar sem frv. hv. 9. landsk. hefir verið tekið fremur kuldalega á Alþingi undanfarið, en ég vil vænta þess, að það hafi orðið einhver breyting á hugum hv. þm., sérstaklega þegar staðreyndirnar blasa nú við sjónum okkar um land allt, en ekki sízt í kaupstöðunum.