31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (1658)

81. mál, Landsbanki Íslands

Ólafur Thors:

Ég þarf ekki miklu að bæta við það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um þetta mál. Ég vil þó í tilefni af ummælum hæstv. fjmrh. vekja athygli á því, að ég tel það mjög miklu miður, ef löggafarvaldið hnígur að því ráði, að fara að fela hinni svokölluðu landsbankanefnd einhverja yfirstjórn Landsbankans. Það er atriði fyrir sig, hvar valdið á að liggja í bankamálum. Og um það er ég alveg samþykkur hv. 3. þm. Reykv., að það á náttúrlega að langmestu leyti að liggja hjá bönkunum sjálfum. Hitt er aftur fyrirkomulagsatriði, hvar innan bankans valdið á að vera. Nú er það vitað, að landsbankanefndin var í öndverðu aðeins formið eitt og hefir til þessa aldrei verið annað en formið eitt. Það er einnig vitað af öllum, sem eitthvað þekkja til þessara mála, að það er allt önnur aðstaða fyrir bankastjórana og bankaráð, að fara með fullkominni þekkingu með æðstu völd í þessu efni, heldur en landsbankanefnd. Formaður bankaráðs hefir að lögum þá skyldu á herðum, að fylgjast daglega með í því, sem gerist á sviði lánveitinga hjá bankanum. Og ég hygg, að það sé öllum hv. þdm. kunnugt, að núverandi formaður bankaráðs Landsbankans hefir fylgzt mjög vel með því, sem gerist innan bankans. Bankaráð Landsbankans kemur saman tvisvar í mánuði til fundarhalda og auk þess, þegar sérstök tilefni þykja gefast til þess. Og bankaráðsmeðlimir hafa að öðru leyti þá skyldu á milli funda, að fylgjast, nokkuð, a. m. k., með því, sem gerist í Landsbankanum. Ég er þess vegna ekki í neinum vafa um það, að tilfærsla valdsins frá bankaráði og yfir í hendur landsbankanefndar er færsla valdsins frá þekkingunni og yfir í þekkingarleysið. Þetta er því greinilegra fyrir það, að í landsbankanefnd eiga nú sæti margir menn, sem ekki hafa búsetu í Reykjavík og þess vegna ekki nema a. m. k. sjaldan geta sótt fundi bankanefndarinnar. En um bankaráðið er þannig litið á, og mig minnir, að svo sé fyrir mælt í l., að meðlimir þess eigi að eiga heima svo nærri Reykjavík, að þeir geti sótt fundi stöðugt. Ég held og, að það hafi verið reglan í bankaráðinu að forðast, nema sérstaklega standi á, að boða varamenn á fund, ef aðalmenn geta ekki mætt. Frá þessari reglu var að vísu vikið, þegar bankaráðið fjallaði um samninga milli Landsbankans og h/f Kveldúlfs, vegna þess að einn í stjórn þessa félags átti sæti í bankaráðinu, og bað hann um, að hann væri leystur undan því að taka þátt í þeim samningum sem bankaráðsmaður, vegna þess að hann hafði þar annara hagsmuna að gæta og þurfti að halda á sínum rétti sem forstöðumaður þess félags, sem samninga átti að gera við. En sem sagt þetta hefir verið nokkuð föst regla, að kalla ekki varamenn á bankaráðsfund, nema það hafi verið alveg nauðsynlegt, til þess að þeir, sem kunnugastir væru málunum, fjölluðu um þau, til þess að sem bezt samræmi væri í starfinu. Það væri skref aftur á bak að hverfa frá því, að bankaráð og bankastjórar fari með þetta vald, og afhendi það landsbankanefnd. Það er mjög miður farið, sem upp var tekið af Alþ. 1928, þegar þáverandi þingmeirihluti í fyrsta skipti gerðist til þess að gera lagabreyt. um stjórn þessarar aðalpeningastofnunar landsins, í því skyni að tryggja sér pólitísk yfirráð yfir bankanum. Löggjöf bankans hafði fengið meiri og betri undirbúning heldur en títt er um löggjöf hér á Alþ. Milliþingan. hafði fjallað um málið, og fyrir henni lágu gögn um margvíslegar rannsóknir og upplýsingar. Það var því mjög til hins verra, að þessari löggjöf, sem sett var á Alþ. 1927, var strax breytt á Alþ. 1928, eingöngu í því skyni, að hinn nýi stjórnarmeirihluti gæti talið sig hafa öruggan meiri hluta í bankaráði Landsbankans. Það er ekki vafi á því, að ef það verður meginregla, að hver stjórnmálaflokkur telji það skyldu sína og fyrsta skylduverk sitt, eftir að hafa fengið valdaaðstöðu á Alþ., að yfirfæra það vald yfir á þessa peningastofnun landsins, þá skerðir það mikið það traust, sem við Íslendingar þurfum þó að njóta hjá nágranna- og viðskiptaþjóðum okkar um öryggi peninga- og bankamála í landinu. En svo víst sem það er, að þessi lagabreyt. var gerð eingöngu í þessu skyni 1928, þá er það engu síður augljóst, að nú á að leika sama leikinn í þessu efni. Það vita allir hv. þm., að bak við tjöldin er þetta frv. kallað frv. til l. um að koma Héðni Valdimarssyni í bankaráð Landsbankans. Ég sé, að hæstv. fjmrh. kannast við þetta, e. t. v. hefir hann fundið upp á þessu sjálfur. (Fjmrh: Ég hefi aldrei heyrt það fyrr). Ætli það sé ekki svipað eins og þegar hæstv. ráðh. stóð upp við útvarpsumræðurnar og lýsti yfir, að það hefði aldrei komið til mála að leita fyrir sér um lántöku í Svíþjóð. Það er nefnilega vitað, að eins og er, eru stjórnarflokkarnir í minni hl. í bankaráðinu, en í meiri hl. í landsbankanefndinni. Og ég verð að segja, að ef fara á að leika þetta hvað eftir annað og þingmeirihlutinn þolir ekki, að stjórnarandstaðan fari um mjög takmarkaðan tíma með meirihlutavald í bankaráðinu, þá liggur í hlutarins eðli, að hvaða stjórnmálaflokkur sem er verður áður en varir neyddur til að leika þennan sama leik. Við skulum hugsa okkur, að þetta frv. næði fram að ganga, svo færu bráðlega fram kosningar og þeir, sem nú eru í stjórnarandstöðu, kæmust í meiri hluta, ég er ekki í vafa um, að það mundi verða talinn nauðugur einn kostur að breyta til aftur. (HV: það kemur af sjálfu sér). Aðalatriðið er það, að ef meiningin er að tryggja stjórnarflokkunum völd í bönkunum, þá mun, hvenær sem misræmi kemur fram milli þingmeirihlutans og bankavaldsins, því verða raskað með nýrri löggjöf, og það tel ég óheppilegt. Það má vel deila um það, hvort æskilegt sé að einstök fyrirtæki hafi mjög stóran hluta af lánsfé bankanna til sinnar starfrækslu. Mér finnst engin goðgá, þótt menn vilji rökræða það. En mér virðast ræður manna fremur byggðar á persónulegu ofstæki heldur en málefnalegum grundvelli. Hinsvegar vil ég vekja athygli á því, að þegar Búnaðarbankinn var stofnaður, mun hann hafa fengið 3. millj. kr. framlag, og ég hygg, að eitt fyrirtæki í landinu hafi fengið 1½ millj. kr. að láni, um leið og bankinn tók til starfa. Það var ekki að þessu fundið þá, þótt út af fyrir sig geti það verið varhugavert.

Ég skal svo ekki að öðru leyti fara lengra út í þetta mál, því að ég get vísað til þess, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan. Ég vil aðeins að lokum leggja áherzlu á það, að ég tel mjög varhugavert að færa valdið yfir Landsbankanum frá bankaráðinu til landsbankanefndar, og jafnframt hitt, að ef núverandi stjórnarflokkar vilja endilega slá því föstu, að það skuli vera regla, hvernig sem á stendur, að stjórnarandstaðan megi aldrei, hvað stuttan tíma sem er, hafa aðstöðu til valda í bankamálunum, þá verður ekki svo gott fyrir aðra að víkja frá þeirra reglu, þótt þeir flokkar, sem síðar verða við völd, kynnu að óska eftir öðru fyrirkomulagi.