31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (1660)

81. mál, Landsbanki Íslands

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Hv. þm. G.-K. kom eins og honum er svo tamt, nokkuð að minni persónu. Það er eins og hann geti ekki um neitt talað öðruvísi. Mér finnst hann aftur á móti ekki svo skemmtilegur, að ég sækist eftir að ræða um hans persónu. Hann talaði mjög um löngun mína til að komast í bankaráð Landsbankans, og bróðir hans um löngun mína til þess að komast í skilanefnd Kveldúlfs. Ég held nú, að þetta mundi ekki eiga vel saman. Annars finnst mér nær fyrir hv. þm. að tala um löngun þeirra til að komast í bankaráð, sem nýlega eru búnir að láta kjósa sig þangað, eins og hann sjálfur og form. Framsfl. Landsbankaráðið virðist ekki ópólitískt, þegar í það voru kosnir form. tveggja stjórnmálaflokkanna, þótt það sé nú svo ópólitískt, að Alþingi má ekki skipta sér af því, hvað sem það gerir, jafnvel þótt menn misnoti þar aðstöðu sína til þess að ausa fé í fyrirtæki bankaráðsmannanna sjálfra fram úr öllu hófi.

Þá var hv. þm. að tala um, að það væri mjög leiðinlegt, að stjórnmálaflokkarnir færu að breyta því ástandi, sem Landsbankinn hefir einhverntíma áður komizt í. Ég er ekki á þeirri skoðun. Ég álít, að fjármálin og bankamálin eigi að fylgjast með hinni pólitísku þróun í landinu, að löggjafarvaldið eigi ekki að vera þeim takmörkum háð, að það megi ekki snerta við bankamálunum.

Annars vil ég benda á, að aðferð flokkanna síðast, þegar kosið var bankaráð, var þannig, að álitið er vafasamt af lögfræðingum, hvort kosningin hafi verið lögleg, þar sem annað þing kom saman á eftir, sem flestir munu telja, að hefði átt að kjósa bankaráðið, og önnur niðurstaða hefði orðið, ef það hefði verið gert. Það hæfði þeim flokkum, sem þar fengu meiri hl. kosin og létu við svo búið standa.

Það var dálítið einkennilegt, þegar hv. þm. fór að koma með hótanir um það, að ef núv. þingmeirihl. breytti þannig til, að hann gæti ráðið Landsbankanum gegnum n., sem kosin væri af þinginu, þá gæti það sama orðið gert af öðrum þingmeirihl. síðar. Þetta er einmitt það, sem ætlazt er til, að þingmeirihlutinn á hverjum tíma, hver sem hann er, geti ráðið þessum málum, að bankarnir séu ekki frekar en aðrar ríkisstofnanir undanþegnir valdi Alþingis. Það er farið hér fram á, að þessi landsbankanefnd sé skipuð samkv. vilja Alþingis á hverjum tíma, en að sjálfsögðu fari þingið ekki að skipta sér frekar af venjulegum bankastörfum. Ef hv. þm. G.-K. heldur, að hann eða hans flokkur komist einhverntíma í meirihl. á þingi, hefir hann sízt ástæðu til að vera á móti þessu, því að þá fengi hann þarna óskorað vald og gæti ekki aðeins sett upp varaform. í bankaráðinu, heldur líka varavaraform. og form. sjálfan.

Ég er að vísu samþykkur því, sem hæstv. fjmrh. segir um þetta mál, en mér finnst það að sjálfsögðu ná allt of skammt og vera að litlu gagni, sérstaklega þar sem hann kom ekki inn á það, að yfirleitt ætti að setja bann við ótakmörkuðum lánveitingum til prívatfyrirtækja. Í þessu frv. eru nokkur takmörk sett fyrir lánveitingum, en þó farið ákaflega hægt í sakirnar, þar sem gert er ráð fyrir, að bankinn megi lána fyrirtækjum einstaklinga eins mikið og ríkinu sjálfu, sem á bankann. Svo koma hv. sjálfstæðismenn og kvarta um, að verið sé að beita ofbeldi í þessu efni. Við göngum jafnvel svo langt að gera ráð fyrir, að landsbankanefndin geti gefið undanþágu frá þessu, þannig að einstök fyrirtæki geti fengið að skulda meira en ríkissjóður, þótt sennilega hefði verið rétt að setja algert hámark, eins og gert er t. d. í dönskum lögum. Við getum þannig hugsað okkur þetta frv. miklu róttækara en það er, þótt sjálfstæðismönnum þyki þar nokkuð mikið aðgert til þess að varna því, að sparifé landsmanna lendi í fárra manna höndum.