31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (1663)

81. mál, Landsbanki Íslands

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég vil taka það fram út af orðum, sem féllu hjá hv. þm. G.-K. í ræðu hans áðan, að ég er framkvæmdastjóri fyrir félag, sem er íslenzkt að öllu leyti, bæði að hluthöfum, fé og stjórn, og hefi aðeins viðskiptasamninga við erlent félag. Það mætti því alveg eins segja, að hv. þm. G.-K. væri í erlendri þjónustu vegna viðskipta hans við Deacons Bank eða af því að hann hefir samninga um kolakaup frá útlöndum.

Þá minntist hann á olíuverðið einu sinni enn og sagði, að ég réði þar einn öllu. En verðlagið hjá mér er alveg hið sama og hjá hv. 1. þm. Skagf. og mági hv. þm. G.-K., og það er alveg eins á valdi þeirra og mín. En ég hefi lýst því oftar en einu sinni, að ég væri fús til að leggja lið mitt til að leysa vandamál olíuinnflutningsins á hvern þann hátt, sem heppilegastur væri fyrir ríkið, jafnvel þótt það kostaði það, að félag mitt yrði alveg að leggjast niður.

Hv. þm. G.-K. spurði, hvers vegna ég vildi ekki láta skipta um framkvæmdastjórn í bönkunum við hverjar kosningar. Ég hefi því einu til að svara, að ég tel ekki ástæðu til slíks, ef mennirnir hafa ekkert af sér brotið.