31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (1664)

81. mál, Landsbanki Íslands

Ólafur Thors:

Hæstv. fjmrh. vill halda sér við það, að stærri eftirgjafir þurfi að vera samþ. bæði af bankaráði og landsbankanefnd. En hér er sá ljóður á, að eftirgjöf, sem bankaráð máske vill veita, fæst ekki, ef landsbankanefnd neitar, enda þótt hagsmunum bankans kunni að vera betur borgið með því að veita hana. En á slíku hefir bankaráðið auðvitað miklu meiri þekkingu. Því er langtum meiri trygging í því fólgin, að bankaráð hafi þetta vald heldur en landsbankanefnd. Ég kallaði fulltrúana í landsbankanefnd pólitísk verkfæri, af því að þeim er oft og einatt stjórnað af þeim ráðh. þeirra, sem þangað skýtur málum.

Ég skal ekki angra hv. 2. þm. Reykv. meira með því að tala um olíuverzlun hans. Mig furðar sú vanstilling á geðsmunum hans, að ég skuli ekki einusinni mega biðja honum blessunar eins og ég gerði í síðustu ræðu minni. Ég hafði líka gert honum þær málsbætur, að það væri ekki honum sjálfum að kenna, hve hátt olíuverðið væri, heldur væru það hans erlendu herrar, sem réðu því. En úr því að hann vill bera ábyrgðina einn, má hann það fyrir mér, en hún verður ekki minni fyrir það.