02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (1780)

89. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Flm. (Jónas Guðmundsson):

Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði miklar umræður um málið við þessa umr. En út af ummælum hv. þm. N.-Þ., þar sem hann spurðist fyrir um það, hvort ég ætlaðist ekki til, að frv. næði fram að ganga, þar sem ég sagði, að frv. væri fram borið til þess að fá álit d. á aðalatriðinu, sem ég tel vera vörugjaldið, þá get ég bæði svarað því játandi og neitandi. Ég tel, að ef vörugjaldið er fellt úr þessu frv., eða hverju öðru frv., sem er um tekjur handa sveitarfélögum landsins, þá sé þýðingarlaust að samþ. það vegna kaupstaðanna. Það er ekki hægt að fá það fé, sem kaupstaðir og kauptún þurfa að fá í sína sjóði, til þess að standa undir auknum álögum, þar sem útgerðin hefir dregizt saman og útsvarsgreiðslan minnkað frá því, sem áður var, nema með því að leggja þetta gjald á. Ef það er skoðun þessarar hv. d., að ekki beri að leggja á vörugjaldið, þá sé ég fyrir mitt leyti ekki, að það hafi neina þýðingu að samþ. nokkuð um það efni hvað þau snertir. — Það er vitanlegt, þar sem frv. hv. 1. þm. Eyf. gerir ráð fyrir, að lagður verði aukatollur á alla aðra tolla landsins, sem fyrir eru, og honum skipt eftir höfðatölu milli allra íbúa landsins, að hlutur kaupstaða og kauptúna verður í því tilfelli svo smár, að það munar svo lítið um það fé, sem þannig fæst í bæjar- og sveitarsjóðina, að það er líka þýðingarlaust að samþ. það þarna.

Ég vil því svara þessari fyrirspurn hv. þm. N.-Þ. á þá leið, að ef bæði allshn. og sérstaklega hv. d. vill samþ. vörugjaldið, þá álít ég, að hún eigi að samþ. frv. En ef hún ekki vill samþ. vörugjaldið, þá álít ég, að hún geti látið vera að samþ. frv. (GSv: Það var í fjhn. í fyrra). Ég hefi ekkert á móti því, að málið fari til fjhn.

Þá spurði hv. þm. um það, hvernig stæði á því, að nú væri ekki gert ráð fyrir, að síldarverksmiðjurnar greiddu nema ¼% í staðinn fyrir 1% í fyrra, og nú ætti gjaldið að renna í jöfnunarsjóð en ekki í sveitarsjóðina, eins og þá var gert ráð fyrir. Það er alveg rétt, að þarna er stórfelld breyt. frá því, sem var í fyrra. En ástæðan er sú, að ef kaupstaðirnir fá heimild til þess að leggja á vörugjald, en það höfðu þeir ekki eftir frv. eins og það leit út, þegar það kom til Nd. í fyrra, þá fá þeir þar tekjur, sem gera meira til jafnaðar heldur en þó þeir fengju leyfi til þess að leggja útsvör á fyrirtækin. Svo er hitt einnig, að síldarverksmiðjur ríkisins eru ekki fyrirtæki einstakra manna, sem sett eru niður á þeim stöðum, þar sem eigendurnir hafa áhuga á að reka fyrirtækin, heldur fyrirtæki, sem þjóðin hefir stofnað til þess að greiða fyrir atvinnurekstri landsmanna. Um verksmiðjurnar á Siglufirði, þar sem er aðalstöðin, er það að segja, að þar eru skip frá öllum höfnum landsins, sem eiga nokkur skip til síldveiða, og koma þangað með sinn afla, svo að það er sanngjarnt, að sem flestir landsmenn fái hlutdeild í því útsvari, sem þessi fyrirtæki eru látin greiða, á sama hátt eins og ætlazt er til með fyrirtæki, sem ná yfir stór svæði, eins og S. Í. F., sem nær yfir allt landið, að það sé ekki skattskylt á einum stað, heldur greiði gjald, sem skiptist milli allra landsmanna. Sama er að segja um mjólkursamsöluna, þótt hún sé takmörkuð við þrengra svæði. Menn gætu bent á það, að S. Í. S., sem hefir starfsemi um allt land, ætti á svipaðan hátt að vera skattskylt. En þar til er því að svara, að S. Í. S. er byggt upp af kaupfélögunum, sem hafa aðsetur og útibú um allt land og eru skattskyld eftir samvinnulögunum á þeim stöðum, sem þau reka sína starfsemi. Því er þetta fyrirtæki ekki tekið upp í þetta frv.

Ég veit, að hv. þm. N.-Þ. hefir sérstaklega haft í huga verksmiðjuna á Raufarhöfn, þegar hann talaði um gjaldið á síldarverksmiðjum ríkisins. Ég skal játa, að ég hefi ekki athugað, hvort Raufarhöfn er svo fjölmennt kauptún, að hún geti fallið undir ákvæði vörugjaldsins í þessu efni. Hitt veit ég, að Raufarhöfn er stór hreppur, en hvort nógu margir íbúar eru í kauptúninu sjálfu, hefir ég ekki athugað, Það stendur þá til bóta fyrir hv. þm. N.-Þ. og aðra, sem vilja athuga það, að láta vörugjaldið einnig ná til smærri staða en í þessu frv. er ráðgert. Í frv. er gert ráð fyrir, að það sé bundið við 500 íbúa, en það er ef til vill ekki rétt. Þetta mætti athuga í n. eða á annan hátt, svo að verksmiðja sú, sem hv. þm. ber fyrir brjósti, fengi ámóta álagningu og það, sem á hana mundi lagt með útsvari.

Ég sé svo ekki ástæðu til að bæta neinu við það, sem ég hefi áður sagt um þetta, og þar sem mér virðist, að ekki verði um neinar verulegar umræður að ræða við þessa umr., þá sé ég ekki ástæðu til að hafa þetta svar mitt til hv. þm. lengra.