03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (1815)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Flm. (Thor Thors):

Tilgangur frv. þessa er sá, að stuðla að því, að koma upp frystihúsum til hraðfrystingar á fiski í verstöðvum landsins. Það hefir margsinnis verið bent á það hér á Alþingi og utan þings, hver nauðsyn er á því, að breyta til um verkunaraðferð á fiski. Eins og kunnugt er, þá hefir saltfisksframleiðslan verið aðalstoð þessa lands nú um langt skeið, Það hefir og tekizt fyrir harða sókn útvegsmanna við harðvítuga keppinauta að koma þessari framleiðsluvöru okkar í sæmilegt verð á erlendum markaði, en nú síðustu árin, síðan að stefnan um jafnvirðiskaup landanna varð ríkjandi um nær allan heim, hefir kreppt svo að um sölu á þessari aðalframleiðsluvöru okkar, að svo má segja, að henni sé hreinn voði búinn.

Til þess að skýra þetta mál, tel ég rétt að fara nokkrum orðum um ástandið í þessum málum eins og það er nú.

Eins og kunnugt er, þá hefir bezti saltfisksmarkaður okkar verið á Spáni, sum árin voru t. d. fluttar þangað 36 þús. smálestir af saltfiski, en þegar hin gagnkvæma viðskiptaregla fór að ryðja sér til rúms, fór þegar að draga úr þessum útflutningi okkar til Spánar; þannig fengum við fyrst á eftir ekki að flytja þangað nema 22 þús. smálestir og síðan 16,6 þús. smálestir, og loks fór svo, að enginn viðskiptasamningur var gerður á milli landanna, og útflutningur okkar þangað komst niður í 6 þús. smálestir. Tjón okkar vegna hins þverrandi markaðs í þessu viðskiptalandi okkar var því orðið mikið, þótt ekki hefði neitt sérstakt komið fyrir. En þá brýzt hin grimma borgarastyrjöld út, og síðan má segja, að loku hafi verið skotið fyrir öll viðskipti við Spán, enda þótt lítilsháttar hafi verið selt þangað héðan gegnum hinar mestu krókaleiðir. Þó að hinum mikla hildarleik ljúki þar vonandi bráðum. þá er hitt víst, að það tekur fleiri áratugi fyrir þjóðina að ná sér aftur eftir eyðileggingar ófriðarins. Kaupgeta Spánar hlýtur því að verða mjög lítil fyrst um sinn. Á Ítalíu höfum við mátt selja 20 þús. smálestir af saltfiski, en nú megum við aðeins selja þangað 10 þús. Útflutningur okkar þangað hefir þannig minnkað um helming, og fyrir þetta litla, sem við megum selja þangað, verðum við að kaupa vörur frá Ítalíu, sem að dómi fjölmargra eru dýrari og tæplega eins góðar og samskonar vörur, sem nágrannaþjóðir okkar bjóða. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði getur því verið tvísýnn hagur af slíkum viðskiptum. — Eina landið í Evrópu, sem greiðir fiskinn með frjálsum gjaldeyri, er Portúgal. En þar er allur innflutningurinn í höndum eins hrings, sem verður að sækja um innflutningsleyfi til stj. Samkeppnin um portúgalska markaðinn er líka mjög hörð. Þannig hafa aðalkeppinautar okkar, Norðmenn, t. d. tryggt sér 40% af öllum fiskinnflutningi þangað. En um verðlag á þeim innflutningi er þannig háttað, að það fer eftir því, sem framboð annara þjóða segir til um. Við erum ekki ennþá skyldugir til að kaupa vörur af Portúgal, en til þess að geta selt fiskinn þangað, verðum við að bjóða hann fyrir verð, sem er lægra en hjá keppinautum okkar. Með því að verðlag á okkar fiski er lægra, er það rökstutt, að rétt sé að leyfa innflutning frá Íslandi, enda þótt engin vörukaup komi á móti. Þetta sýnir, að við höfum ærið erfiða aðstöðu. Viðvíkjandi hinum nýju markaðslöndum okkar, Suður-Ameríku og Kúbu, má segja, að þau viðskipti hafi greiðan framgang, en verðlagið, sem við náum þar, er ekki hærra en það, sem við fáum á þeim markaði í Evrópu, sem lægst borgar. Og það er vitað, að keppinautar okkar líta okkur hornauga út af þessum viðskiptum, og við getum því aðeins haldið þeim áfram, að við getum allan tímann boðið lægra verðlag. Þetta ástand á einstökum markaðsstöðum sýnir bezt þá örðugleika, sem eru á þessum viðskiptum.

Enda þótt svo fari vonandi, að þjóðirnar sjái fram á það, að haftastefna undanfarinna ára hafi litla sælu fært þeim, og viðskiptin komist aftur í frjálsan farveg, þá er nauðsyn á fyrir okkur að breyta til um verkunaraðferðir og einmitt fara inn á þær brautir, að reyna að koma fiskinum sem mest nýjum á markaðinn erlendis. Þetta er nauðsynlegt og æskilegt vegna þess, að með því móti getum við látið þessa aðalframleiðsluvöru okkar ná til fleiri landa heldur en hingað til hefir átt sér stað. Við verðum að geta komið vöru okkar til neytenda, sem geta goldið hærra verð fyrir hana heldur en þeir, sem hingað til hafa mest viðskipti haft við okkur. Það er svo, að saltfiskurinn, sem seldur er til Suðurlanda, er aðallega neyzluvara fátækari hluta þjóðanna, og þess vegna er það ætíð mjög takmarkað, hvert verðlag fæst fyrir hann. Nýr fiskur er hinsvegar neyzluvara allra þeirra, sem hafa ráð á því, að kaupa góð matvæli, og þess vegna er ekkert líklegra en það, að þegar þetta mál er komið í fastara horf, þá getum við boðið mun betra verðlag fyrir framleiðsluvöru okkar en hingað til hefir átt sér stað. En þegar horfið verður að því að breyta um framleiðsluháttu, er það fyrsta sporið, ef við viljum, að það nái til almennings, að koma upp hraðfrystihúsum sem víðast á landinu. Þessi hraðfrystihús þurfa ekki að vera stór, en þau þurfa að vera víða, til þess að sem flestir sjómenn og útvegsmenn geti haft afnot af þeim, því að víða aflast talsvert mikið af verðmeiri fiski en þorski, sem verður oft og tíðum að litlum notum fyrir þá sök, að engin tök eru á því, að frysta hann. Þetta frv. miðar að því, að greiða úr þessari þörf. Við leggjum til, að ríkið leggi fram ¼ hluta af andvirði húsa og véla sem beinan óafturkræfan styrk. Við teljum þetta nauðynlegt vegna þess, að fjárhagur útvegsmanna yfirleitt — og ekki síður hinna smærri útvegsmanna — er þann veg komið, að þeir eiga erfitt með að ráðast í slíkar framkvæmdir.

Við teljum þetta sanngjarnt, þegar tillit er tekið til þess, að með lögum um ráðstafanir út af fjárkreppunni, nr. 79 frá 1933, lagði ríkissjóður fram ¼ af kostnaðarverði sem tillag til frystihúsa til þess að frysta kjöt. Hér er því sjávarútveginum fengin samskonar aðstaða og landbúnaðinum hefir þegar verið fengin á þessu sviði.

Þá teljum við einnig nauðsynlegt, að ríkissjóður ábyrgist lán allt að ¾ af byggingarkostnaði húsa og véla, til þess að hægra verði að koma þessum fyrirtækjum upp. Það er vitað, að útvegsmenn sjálfir hafa ekki það mikið lánstraust vegna hrörnandi efnahags, að þeir geti aflað sér þess lánsfjár, sem þarf, og það er ennfremur vitað, að þorri allra sveitarfélaga landsins hefir orðið að veðsetja eignir sínar í kreppulánasjóði bæjar- og sveitarfélaga, og er því ekki líklegt, að lánsstofnanir landsins taki ábyrgð hreppsfélaganna gilda sem tryggingu fyrir þessum lánum. Það er því ekki í annað hús að venda um ábyrgðir en til sjálfs ríkisins. Við teljum líka eðlilegt, þar sem hér er um stórfellt hagsmunaatriði fyrir sjávarútveginn að ræða, að ríkissjóður veiti samskonar aðstoð og hann hefir gert víðsvegar um land, þar sem hafnarvirkjum hefir verið komið upp með nokkru tillagi frá ríkinu og með ábyrgð ríkissjóðs á því, sem til vantaði. Sem tryggingu fyrir lánsábyrgð sinni fengi svo ríkissjóður fyrsta veðrétt í þessum húsum. Það er ætlun okkar, að það verði undinn bráður bugur að því, að koma þessum frystihúsum upp sem víðast um land. Þegar svo er komið, að þessi verkun er almennt hafin, er næsta sporið að tryggja flutning á þessum afurðum frá landinu. Í því efni er svo ástatt, að Eimskipafélag Íslands hefir sett upp kælitæki í 3 skip sín, Gullfoss, Brúarfoss og Dettifoss, og það má telja, að þau rúmi um 1250 smálestir samtals af frystum fiski. Þetta má segja, að sé nægilegt í bili, meðan ekki er komið meira skrið á þetta mál en raun er á, enda er það svo, að ef við þurfum að senda heila farma, er hægt að gripa til erlendra kæliskipa. En þegar málið er komið í fullkomnara horf, þurfum við nauðsynlega að líta betur eftir flutningaþörfinni.

En svo er eitt atriði enn í þessu máli, sem e. t. v. má segja, að sé fyrsta atriðið. Það er að tryggja sölu á þessum afurðum erlendis, að afla góðra og traustra markaða. Á því má engin bið verða. Við vitum, að ef við vinnum vel að þessari verkun heima og tryggjum öruggan flutning, þá er hægt að selja mjög mikið af þessari vörutegund, en við verðum að tryggja, að móttakan erlendis sé í sem fyllstu lagi, og ennfremur að ná samningum um flutning á þessari vörutegund langt inn í viðskiptalöndin og sem víðast um Evrópu til að byrja með. Það er vitað, að í Norður-Ameríku hafa verið gerðar nokkrar tilraunir með þetta, og þó ekki hafi ennþá tekizt sem skyldi, er það víst, að mikill markaður er þar fyrir þessa vörutegund.

Af því að þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir sjávarútveginn, þá leyfum við okkur að vænta þess, að það þurfi ekki að valda ágreiningi, og fái greiðan og öruggan framgang. Vil ég svo mælast til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.