03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (1820)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Héðinn Valdimarsson:

Út af því, sem kom fram í ræðu hv. þm. Snæf. um umsóknir til fiskimálanefndar um lán til byggingar hraðfrystihúsa, eða viðbætur við frystihús, skal ég taka fram, að það er að vísu rétt, að nokkrar umsóknir þess efnis liggja fyrir hjá n. Þessar umsóknir bárust flestar n. kringum síðastl. áramót, sumar frá því í haust, Þær eru 10 eða 12 talsins. Enn er óákveðið, hvar byggt verður á þessu ári, en gert ráð fyrir, að það verði ákveðið á næstunni. Fiskimálanefnd getur ekkert gert í þessu efni nema með samþykki ríkisstjórnar, því að hún starfar algerlega í umboði ríkisstj. og er því bundin því, hve mikið fé verður fyrir hendi til þessara lánveitinga. Aftur á móti vísa ég algerlega frá meiningum hv. þm. Snæf. um hlutdrægni fiskimálanefndar í lánveitingum. N. veitti fé til byggingar hraðfrystihúss á Ísafirði eftir umsókn frá flokksmanni hv. þm., Jóni A. Jónssyni. Þó sjálfstæðismenn væru í meirihluta í n., þegar sú ákvörðun var tekin, þá vil ég alls ekki segja, að þar hafi ráðið hlutdrægni, og finnst mér koma úr hörðustu átt, ef hv. þm. Snæf. vill gefa slíkt í skyn. — Ég vil ekki fastákveða, hvaða hlutfall eigi að vera milli styrks og ábyrgða, sem ríkið veitir vegna frystihúsbygginganna: hins vegar verður að hafa eftirlit með því, að þar verði allt í hófi.

Ég geri ráð fyrir, að stjórn fiskimálanna í framtíðinni verði eitthvað breytt frá því sem nú er, en hvort hún verður, eins og stjórn búnaðarmálanna, tekin undan yfirráðum Alþingis og ríkisstj. að öðru leyti en fjármálin, skal ég ekkert um segja, en þó bygging hraðfrystihúsanna verði látin heyra undir fiskimálanefnd, þá verður það fjmrh., sem alltaf segir já eða nei við ákvörðunum n.

Ég er ekki sammála hv. þm. Snæf. um það, að ekki verði hægt að fá framleiðendur til þess að leggja nokkuð til bygginganna. Reynslan er hið gagnstæða, t. d. á Bíldudal, þar sem ætla mætti, að hvað örðugast væri fyrir hendi. Ef mikill áhugi er fyrir málinu, þá er þetta hægt. Það koma til greina fyrst og fremst vinnuloforð, og svo loforð í afla, sem lagður yrði inn á húsið. Á Akranesi t. d. eru fengin slík loforð. er nema 1/3 kostnaðar við byggingu síldarverksmiðjunnar.

Ég minntist í fyrri ræðu minni á tilraunir Kveldúlfs um sölu á hraðfrystum fiski til Spánar, þó ég ekki nefndi nafn félagsins. Mér hefir aldrei dottið í hug að álasa félaginu fyrir þá tilraun, þótt hún mistækist mjög. Félagið hefir að sjálfsögðu tapað miklu á þeim tilraunum. En það kom enginn í skarðið, er þær féllu niður. Þótt sænska frystihúsið hafi alllengi haldið uppi sínum tilraunum, þá voru þær svo takmarkaðar, að hin mesta nauðsyn var fyrir hendi, er tilraunir fiskimálanefndar um framleiðslu og sölu á hraðfrystum fiski hófust, Þó samkomulag virðist milli aðalflokkanna um, að styrkja beri hraðfrystihúsin, þá greinir flokkana á um leiðir til þess í einstökum greinum. Ég skal geta þess, að í ákvæðum okkar alþýðuflokksmanna er gengið lengra en í þessu frv., þar sem við leggjum til, að auk þess, sem styrkt verði ný hraðfrystihús, verði einnig veitt lán og styrkur til endurbóta á eldri frystihúsum. Auk þess bindum við okkur ekki eingöngu við félög útgerðarmanna og sjómanna, heldur gerum ráð fyrir, að bæjar- eða sveitarfélög geti orðið hinna sömu réttinda aðnjótandi. Annars mun ég ekki við þetta tækifæri fara lengra út í samanburð á þessum frv., en mælist til, að frv. þessu verði vísað til sjútvn.