03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (1822)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Flm. (Thor Thors):

Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að ef þessi ábyrgðarheimild væri í lögum, þá mundi þess verða krafizt af lánsstofnunum hverju sinni, að hún yrði notuð. Það kann vel að vera, að eitthvað sé hæft í þessu, en ég verð að draga það í efa, að þess verði krafizt í hverju tilfelli. Ég get vel fallizt á það, sem hæstv. ráðh. sagði, að ef einhver framlög koma frá félagsmönnum, og svo bætist 25% styrkur frá ríkinu, þá yrði öruggt fyrir lánsstofnanir að lána gegn fyrsta veðrétti í húsum og vélum, án þess að þurfa ríkisábyrgð, en þó að þess yrði ekki krafizt nema í einstökum tilfellum, að ríkið gengi í ábyrgð, þá tel ég nauðsynlegt, að ábyrgðarheimildin yrði í lögum, því að ella er mjög dregið úr nauðsynlegum framkvæmdum þessa máls.

Ég ætla nú ekki að taka upp deilur við hv. 2. þm. Reykv. um fiskimálanefnd, aðgerðir hennar og hvernig hún er skipuð, en ég vil þó ekki láta því ómótmælt, að sjálfstæðismenn séu í meiri hluta í n. Mér er ekki kunnugt um nema einn mann af sjö í fiskimálanefnd, sem er yfirlýstur sjálfstæðismaður; hinir eru annaðhvort flokksmenn í stjórnarflokkunum eða þeim fylgjandi, enda þótt það hafi kannske ekki komið mjög greinilega fram.

Hv. þm. talaði um, að nauðsynlegt væri að tryggja það, að ekki yrði unnið fram úr öllu hófi í þessu máli, að aðgerðirnar yrðu ekki meiri en svo sem þörfin heimtaði, og ekki meiri en það, að unnt yrði að koma þessari vöru í verð. Ég er honum sammála um það, enda gerir þetta frv. ráð fyrir því, að atvmrn. sé heimilt að veita þetta lán eða hindra það, eftir því sem ástæður eru fyrir hendi. Atvmrn. hefir það í hendi sinni að hlutast til um, að ekki verði gengið lengra í þessu máli en eðlilegt og nauðsynlegt er, en ég vil taka það skýrt fram, að ætlun okkar flutningsm. er, að það sé unnið mikið og fljótt að framkvæmdum í þessu máli, og að það beri ekki að horfa í það, þótt framlög ríkisins yrðu í byrjuninni nokkuð há, því að það er okkar álit, að þau framlög muni margskila sér aftur í þjóðarbúið. Ég skal ekki deila um, hversu auðvelt verður að fá framlög útvegsmanna í þessu skyni, en ég verð að telja, að eins og nú er komið fjárhag þeirra, geti þessi framlög aðeins orðið af skornum skammti, og ég tel það málinu til spillis og í einstökum tilfellum til eyðileggingar, að heimta, eins og frv. Alþfl. ætlast til, að útvegsmenn og sjómenn leggi fram 15%. Ég þekki hreppsfélög, þar sem ég get ekki hugsað mér, að útvegsmenn og sjómenn gætu innt slík framlög af hendi í öndverðu, en þó er mjög brýn nauðsyn á, að þessi fyrirtæki komist þar á fót.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi núna snúa orðum sínum um það, að frv. Alþfl. gengi lengra en okkar, á þann veg, að það tæki til hraðfrystitækja og gömlu húsanna. Það leiðir af hlutarins eðli, að okkar frv. tekur líka til þess, með beinum lögjöfnuði kemur það strax undir þetta, og með öðrum lögskýringarhætti, sem heitir „hlutarins eðli“ heyrir það beint undir þetta.

Út af ræðu hv. þm. Barð. er fátt að segja. Hann vildi tengja þetta mál við kjötfrystihús. Þau eru styrkt með sérstakri löggjöf, svo að það er ekki ástæða til að blanda þessu saman, og það er vitað, að beitu, sem er aðallega síld og fellur því undir þetta frv. sem fiskur, mætti vitanlega geyma í þessum húsum. — Þar sem ég geri ráð fyrir, að þetta sé mín síðasta ræða, vil ég beina því til hv. sjútvn., að hún leitist við að hraða þessu máli, því að það er vita, að frv. Alþfl. nær ekki fram að öllu leyti á þessu þingi, því að það er yfirlýst af Framsfl., að hann er á móti ríkisútgerð í þessu frv., og það er vitað, að Sjálfstfl. er á móti ríkisútgerð. En þar sem það er upplýst í þessum umræðum, að allir flokkar eru sammála um aðalatriði málsins, að styrkja þessi hús, svo að þeim verði komið upp, þá hlýtur hv. sjútvn. að taka til alvarlegrar athugunar þá nauðsyn, sem er á því, að afgreiða þetta mál sérstaklega, og þetta verður sérstaklega að gera fyrir þá sök, að það eru fjöldamargir útvegsmenn, sem bíða með óþreyju eftir að fá að vita vissu sína í þessu máli. Það er mesta áhugamál sjómanna og útvegsmanna í mörgum minni verstöðvum. Ef rýmkað verður um dragnótaveiðina, sem útlit er fyrir, þá veit ég, að margir fátækir útvegsmenn mundu reyna að ná sér í nauðsynleg tæki til þess að stunda þessa veiði, ef þeir ættu von á að koma aflanum í peninga, en til þess að það geti orðið, þarf hraðfrystihús. Ef hv. þm. hafa einlægan áhuga fyrir því, að leysa þetta mál, þá getur sá áhugi ekki komið fram nema á einn hátt, sem sé þann, að þetta mál sé afgr. sérstaklega nú á þessu þingi, svo að til framkvæmda geti komið nú þegar á næsta sumri. Það verður prófsteinn á einlægni hv. þm. í þessu máli, hvort þeir vilja taka málið til sérstakrar úrlausnar. Gangi það ekki á þessu þingi, þá verð ég a. m. k. að draga í efa, að mælt sé af einlægni, þegar talað er um áhuga fyrir þessu máli. Ég tel það mjög miður farið, ef á að leggjast á þetta mál og fresta því enn um eitt ár.