16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (1838)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Bergur Jónsson:

Hv. þm. Ísaf. hefir að nokkru leyti svarað hv. 6. þm. Reykv. viðvíkjandi því, að þetta þing muni ekki sitja mikið Iengur. Ég get róað hv. 6. þm. Reykv. alveg, því að þess verður ekki langt að bíða, þangað til þingið verður rofið. Hv. 6. þm. Reykv. er ákaflega glaður yfir því, að slík yfirlýsing skuli koma fram frá stjórnarflokkunum, þó að engin líkindi séu til þess, að hans flokkur komist í stjórnaraðstöðu, enda þótt hann geri bandalag við flokk, sem hann hefir ekkert sameiginlegt með, flokk, sem er ekkert annað en afskræmi af Framsfl. og hefir stolið stefnuskrá hans; Sjálfstfl. verður ekki kápan úr því klæðinu. Íslendingar sjá gegnum það sem þykkara er heldur en þá slæðu, sem sjálfstæðismenn ætla að bregða yfir sig. — Það er gaman að sjá hv. 9. landsk. vera að reyna að gefa hv. 6. þm. Reykv. hjálp; ég hélt, að hv. 6. þm. Reykv. þyrfti ekki slíka hjálp.

Það er prófsteinninn á það, hvort mönnum er alvara með það, að reyna að koma upp frystihúsum hér á landi með aðstoð ríkisins, hvort þeir vilja fara þá fljótustu leið, sem hægt er að fara í þessu máli, eða hvort þeir vilja heldur tefja málið með smáatriðum, þegar búið er að benda á galla á frv. því, sem hv. þm. Snæf. og fleiri hv. þm. hafa borið fram. Jafnaðarmenn hafa líka komið með till. í þessu máli, sem engum viti bornum mönnum, jafnvel ekki jafnaðarmönnum, dettur í hug að taka alvarlega, því að þær eru einungis kosningabomba og kosningabeita. Það erum við framsóknarmenn einir, sem berum fram till., sem í alvöru er ætlað að reyna að leysa þetta mál. Ábyrgðarákvæðið er bara hégómi í þessu sambandi. Og það veit ég, að hv. 6. þm. Reykv. skilur vel, að það er aðalatriðið, að frystihúsin séu sett upp á þeim stöðum, þar sem mest er nauðsyn á að setja þau upp, og að þeim verði veittur það mikill styrkur, að hægt sé að útvega lán handa þeim, og að ríkisstj. veiti þeim aðstoð til þess að fá þau lán; ef það tekst, þá verða reist frystihús á þeim stöðum, þar sem þörf er fyrir. En hitt er annað mál, að ef þessi aðferð skyldi sýna, að hún væri ekki nógu sterk, þá má fyrir framtíðina finna betri aðferð, og hennar verður áreiðanlega leitað, síðar á þessu ári, því skal ég lofa hv. 6. þm. Reykv., svo að hann þurfi ekki að bera áhyggjur út af því, að hann skuli ekki fá að vinna með Bændafl. Um þetta mál er enginn ágreiningur, eins og hv. þm. sagði, nema þessi, hver sé skynsamlegasta leiðin í málinu. Fljótvirkasta leiðin er sú, sem þeir menn vilja fara, sem líta á þetta mál með alvöru og vilja hjálpa mönnum til þess að reisa þessi frystihús, en vilja ekki skreyta sig með fölskum fjöðrum eða blása sig upp fyrir kjósendum með því, sem þeim er kannske engin alvara með. Hv. þm. virtist halda, að þál. væru veikari en fjárlagafyrirmæli og hefðu ekki sama gildi gagnvart stjórninni, en þetta er misskilningur. og því til sönnunar vil ég benda hv. þm. á, að hann þarf ekki annað en að fara fram á skrifstofu og athuga þingtíðindin frá síðasta aukaþingi, sem ekki var fjárlagaþing. Þetta er einmitt sú aðferð, sem við viljum grípa til nú í þessu máli, því að okkur er alvara að koma því fram.

Hv. þm. Ísaf. þarf ég ekki að svara, því að hann kom með sömu rökin og hv. 6. þm. Reykv. Annars skal ég viðurkenna, að það er nýtt að heyra þennan hv. þm. apa rök og annað eftir honum, því að til þessa hafa þeir ekki verið slíkir vinir, að þeir hafi verið sem einn maður í málflutningi sínum, ekki hér á Alþingi a. m. k. Það má líka vel vera, að þetta hafi verið þeim ósjálfrátt.