12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (1895)

102. mál, félagsdómur

*Hannes Jónsson:

Hv. þm. N.-Þ. spurði mig að því, hvort ég væri með eða móti frv. Ég býst við, að hann sé sá eini hlustandi, sem ekki hefir fylgzt betur með en það, að hann hefir ekki skilið, hverja afstöðu ég hefi í þessu máli. Báðar mínar ræður voru óslitin rök fyrir þeirri skoðun minni, að ekki væri einasta nauðsynlegt að setja ákvæði í lög til þess að hindra vinnustöðvanir, heldur væri ástandið, sem nú er, og útlitið framundan beinlínis skaðlegt fyrir þjóðfélagið. En ég get sagt hv. þm. það, að ég vildi gera endurbætur á frv. hans, af því að ég tel það ná allt of skammt. Þetta kom meira að segja fram hjá hv. 2. þm. Reykv., sem benti á stórkostlegar vinnustöðvanir, sem frv. nær alls ekki til. Og þótt hann benti aðeins á fá dæmi, þá eru þau vottur þess, að frv. nær ekki eins langt og það þyrfti að ná. Hitt er annað mál, hvort það er rétt hjá þeim hv. þm., að frv. nái aðeins til fátækustu stéttanna. Ég býst við, að frv. sé mjög áfátt til beggja hliða í því efni, af því að nauðsynleg ákvæði vantar í frv., og að það sé aðeins tilviljun ein, hvorum aðilja það verður til framdráttar í einstökum tilfellum. Ég mun því styðja brtt. í þá átt að koma ákvæðum frv. í fullkomnara form., ef það heldur áfram hér á þingi.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hvar jafnaðarmenn hefðu takmarkað sjálfsákvörðunarrétt bænda. Ég furða mig á því, að hann skuli þora að spyrja svo ettir allar árásirnar, sem þess flokkur hefir gert á rétt bænda í félagi við Framsfl. Ég get bent honum á I. kafla jarðræktarlaganna frá síðasta þingi. Þar var gengið inn á starfsvið Búnaðarfélags Íslands og félaginu sett ákveðin skilyrði eða form fyrir sinni eigi löggjöf. Og þessi lög voru keyrð í gegn á þingi í fyrra, án þess að bændurnir sjálfir fengju að láta í ljós álit sitt um lögin. Meiri hl. skellti skolleyrunum við öllum aths. frá félaginu og keyrði l. í gegn, að bændum algerlega forspurðum og í óþökk mikils þorra þeirra. Það hefir nú að vísu komizt á samkomulag um að fella úr gildi þessi þvingunarákvæði, en jafnaðarmenn hafa lýst óþökk sinni á þessum samningum. Og svo kemur þessi hv. þm., Héðinn Valdimarsson, formaður jafnaðarmanna, og spyr: Hvað höfum við beitt okkur gegn sjálfsákvörðunarrétti bænda í þeirra eigin málum? Þeir hafa einnig stutt það, að gert hefir verið eignarnám á félagseign bændanna, ekki sjáanlega í öðrum tilgangi en þeim, að rýra vald bændanna yfir sínum eigin málum. Þetta tiltæki er ekki meinlausara en það, að lögfróðir menn telja það vera stjórnarskrárbrot. Og svo kemur þessi hv. þm. og spyr, hvar þeir hafi reynt að takmarka réttindi annara stétta.

Þeir hafa tekið eignir af eigendunum, bændum, og fengið þær í hendur óviðkomandi manna, jafnvel andstæðinga, sem lítil líkindi eru til, að bæru hagsmuni bændanna fyrir brjósti ef þeir rækjust á þeirra eigin hagsmuni. Það er því fyllsta ofdirfska og ósvífni af þessum hv. þm., að koma hér fram og spyrja þannig, eftir það sem á undan er gengið.

Ég skal taka það fram, að þær kröfur, sem bændur hafa gert í þessu máli, nálgast það á engan hátt að vera ósanngjarnar á hendur annara. Þeir ganga ekki á rétt neins, en þeir vilja ná sínum rétti, án þess þó að ganga á annara rétt, ráða yfir sínum eigin hagsmunamálum, án þess þó á nokkurn hátt að skaða þjóðfélagið eða hagsmuni annara stétta. En ég býst við, að ég þurfi aldrei að víkja frá stéttarsamtökum bænda fyrir þær sakir, því að þeir hafa sýnt það og munu sýna það, að þeir beita ekki sínum samtakamætti á ólöglegum vettvangi. Þeir heimta ekki meira en þeim ber, og þeim mun ósanngjarnara er að standa á móti þessum sjálfsögðu samtökum þessarar stéttar þjóðfélagsins. Sérstaklega er það óviðeigandi og óverjandi, að heyra forgöngumenn jafnaðarmanna áfellast bændastéttina og hrósa sjálfum sér fyrir, hvað sanngjarnir þeir séu í garð bændanna, þegar þeir beita öllum brögðum til þess að taka völdin á málum bændanna úr þeirra eigin höndum. E. t. v. er þetta bending um það, að samtakamáttur bændanna hafi sýnt jafnaðarmönnum það og öðrum, að það er ekki hægt að fara með bændur eins og skynlausar skepnur og taka af þeim allan rétt á framfærslu- og lífsmöguleikum sínum. Ég fagna þeim aukna skilningi á réttmætum samtökum bændanna, sem sýnist vera kominn fram hjá sósíalistum, þótt hann komi kannske á síðustu stundu og sé aðeins látalæti frá þeirra hálfu til þess að gera sig góða í augum bændanna, því að áður fyrr hefir það heyrzt, að þeir telji sig sjálfkjörna umboðsmenn bændanna, alveg eins og þeir telja sig sjálfkjörna forystumenn verkalýðsins í kaupstöðunum. En ég vænti þess, að bændastéttin íslenzka afsali sér ekki neinum rétti til annara heldur en sinna eigin samtaka um sigurvænlega lausn sinna mála. Það munu bændur sýna við þær kosningar, sem væntanlega fara fram í vor.