07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (1919)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Jón Ólafsson:

Ég vil upplýsa það, að þegar ég árið 1928 bar fram till. um að hækka tillag til byggingar- og landnámssjóðs úr 100 þús. upp í 200 þús., þá var það gert í samræmi við flokkinn. Þetta mál var þá talsvert rætt í flokknum, og þá voru þar einstakir menn svo framsýnir að sjá, að þetta mundi ekki vera tímabært með þessa löggjöf, eins og síðar kom á daginn. Allir, sem hafa kynnt sér, hvernig lánað var úr þessum sjóði, sérstaklega fyrstu árin, sjá og vita, að þetta voru vandræðalán fyrir suma. Allmargir eru komnir í kreppulánasjóð, og sumir hafa ekki getað hafzt við á sínum jörðum. Mér finnst, að ekki hafi verið farið rétt að í þessum lánveitingum. Stundum hefir verið veitt byggingarlán til jarða, sem höfðu ekki 3 ha. tún. Maður veit um fjölda manna, sem hafa fengið þessi lán, en ekki hugsað um, að fyrst þurfti að rækta jörðina, svo að hægt væri að standa straum af skuldunum, Þetta er ennþá fyrir dyrum, en þó má það ekki ráða því, hvað menn vilja gera, því að sjálfsögðu verða þeir margir, sem geta notið þeirra lána, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., sem eru mun betri en lán úr byggingar- og landnámssjóði.

Ég held, að ekki ætti að þurfa að vera samkeppni milli manna, hvort eigi að líta á þetta mál frá sjónarmiði hv. flm. þessa frv. eða hv. 2. þm. N.-M. Mér finnst bæði frv. vera flutt í svo góðum tilgangi, að ég tel sjálfsagt, að menn sameinist um að fá úr þeim það bezta, sem hægt er. En ég vil enn benda á það, að ég tel mörg býli í landinu ekki fær um að taka þessi háu lán. Hér verður því að koma hjálp, ef ríkið sæi sér fært að veita einhverja hjálp, svo að menn geti staðið straum af byggingarlánunum.