01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2366)

45. mál, sjávarágangur í Vestmannaeyjum

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég hefi leyft mér að koma fram með þessa þáltill. í samræmi við samþykkt á þingmálafundi í Vestmannaeyjum og í samráði við þá menn, sem bezt tækifæri hafa haft til þess að fylgjast með ágangi og landbroti af völdum sjávarins á svokölluðu Eiði í Vestmannaeyjum. Þetta eiði eða grandi tengir Heimaklett við Heimaey og er af náttúrunnar hendi tilbúinn varnargarður hafnarinnar, sem skýlir höfninni að norðanverðu, og þó sérstaklega fyrir vestan- og suðvestanbrimum, sem er ein versta átt í Vestmannaeyjum. Mörgum hefir orðið starsýnt á þennan granda, og menn hafa stundum haldið, að hann væri að einhverju leyti gerður af manna höndum. En ólíklegt er, að svo sé, heldur mun hann vera verk náttúrunnar.

Nú á síðustu árum, og einkum allra síðustu ár, virðist þessi grandi hafa farið lækkandi og veitt minni vörn gegn sjávargangi en áður var. Það er augljósasti vottur um það, hve brimsjóir ganga yfir grandann nú orðið, að í mínu ungdæmi og síðar þótti alveg einsdæmi, ef það kom fyrir, að sjór gekk yfir Eiðið, en nú er það orðið alltítt. Í álitsskjali frá gömlum sjómönnum og öðrum Eyjabúum er tekið fram, að í vetur hafi verið brimasamt, enda hafi sjór gengið yfir þennan granda tvo daga í einn. Þess vegna virðist vera ástæða til að veita athygli, hversu miklar og illar afleiðingar það hefði, ef sjórinn jafnaði þennan granda við jörðu. Því að það yrði ákaflega mikið og dýrt verk að koma upp skjólgarði í staðinn fyrir hann.

Nú er það svo, að ennþá er Eiðið svo að segja kyrrt, þó að mikið hafi á bjátað, og væri nú hafizt handa og náttúrunni hjálpað til að ryðja dálitlu af grjótinu burt og búa þar til undirstöðu undir varnargarð úr steinsteypu, sem er álitið heppilegasta úrræðið, þá eru líkur til, ef þetta væri gert nú í sumar, að Eiðið mundi geta staðið óhaggað miklu lengur en ella.

Samkv. því álitsskjali, sem ég nefndi áðan, þá hefir sjórinn brotið sér leið á hér um bil 140 m. löngum kafla yfir Eiðið og inn í höfnina, og bera farvegirnir þess glöggan vott, hvar hann hefir mest sótt á. — Væri sú leið farin, að steypa þarna og hlaða varnargarð, þá mundi samkv. athugunum, sem gerðar hafa verið,, kostnaðurinn við þetta verk einkum felast í vinnulaunum. Aðkeypt efni yrði sjálfsagt ekki annað en steinlímið.

Ég hefi farið fram á það í þessari till., að framkvæmd þessa verks eigi sér stað á sumri komanda, vegna þess, að um tiltölulega lítinn kostnað er ber að ræða samanborið við það gagn, sem af þessu mannvirki yrði, og samanborið við þann kostnað, sem kynni að verða að leggja þarna í, ef ekki er að gert nú þegar.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta. Mér er að vísu kunnugt um, að uppi eru tvær stefnur um það, hvað gera eigi, en ég tel aðra svo fjarri sanni og fjárhagslega erfiða, að ég vil ekki tala um hana hér.

Ég vil að lokum mælast til þess, að till. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til sjútvn. Mér virðist hún vera sú n., sem helzt ætti um þetta að fjalla. Annars er hér um framkvæmd að ræða, sem ríkissjóður sem eigandi landsins, eins og mér annar landsdrottinn, hlýtur að eiga að leysa af hendi, sem sé að verja sitt land fyrir eyðleggingu af náttúrunnar völdum.