01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2368)

45. mál, sjávarágangur í Vestmannaeyjum

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég tel rétt, að fjvn. fái þetta mál til meðferðar. Eins og hæstv. forseti benti á. þá er þetta mál lagt fyrir Sþ., og einnig er hér um veruleg fjárútlát að ræða.

Ég vil geta þess strax, að í janúar átti ég tal við hv. 3. landsk. Skýrði hann mér frá því, að Eiðið væri allverulega að lækka, jafnvel svo, að hætta gæti stafað af. Ég setti mig að sjálfsögðu í samband við vitamálastjóra og lagði fyrir hann að láta rannsaka málið. En vitamálastjóri hefir verið veikur, og eru till. hans ekki komnar enn. En þótt mönnum beri saman um, að Eiðið sé að lækka, þá hefir mér skilizt á verkfræðingi vitamálastjóra, að um beina aðkallandi þörf sé ekki að ræða, en vitanlega er sjálfsagt að láta athuga málið vel nú þegar.

Hv. flm. gat þess, að bent hefði verið á tvær leiðir í þessu efni, og minntist nokkuð á aðra, sem sé að ryðja grjóti af grandanum og steypa vegg ofan á til þess að hækka grandann. Skal ég ekkert segja um, hvort þetta er heppilegasta leiðin. Það verða þeir, sem sérfróðir eru á þessu sviði, að gera till. um. Það hefir einnig verið bent á aðra leið, sem væri heppilegri, sem sé að gera þarna svonefndan „spoonsvegg“. Það er óttast, að jarðvegur í grandanum sé þannig, að stórgrýti sé aðeins ofan á, en undir sé kvikur sandur, sem smátt og smátt grafist burt, og því sigi grandinn niður. Er það íhugunarefni, á hvern hátt við þessu verður spornað. Geri ég ráð fyrir, að innan skamms komi till. vitamálastjóra um þetta efni. En um það er ég hv. flm. sammála, að sjálfsagt sé að gripa til aðgerða nægilega snemma, því að of langur dráttur gæti haft mikinn kostnaðarauka í för með sér.