17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2373)

45. mál, sjávarágangur í Vestmannaeyjum

*Sigurður Einarsson:

Það er engan veginn til þess að mótmæla því, sem hv. þm. Borgf. sagði, að ég stend hér upp, því að það var fullkomið samkomulag um það í fjvn. að leggja þessu máli hið fyllsta lið með þeirri breyt., sem n. gerði, en mér þykir ástæða til að taka það fram, af því að hv. þm. Borgf. vitnaði til þeirra gagna, sem n. hafði, að svo er að sjá, sem upptök málsins liggi í því, að 18. febr. ritaði hv. 3. landsk. atvmrh. bréf um það, að það væri almenn skoðun Eyjabúa, að hérna væri mikill háski fyrir dyrum. Þetta erindi hv. 3. landsk. var síðan sent vitamálastjóra til umsagnar, og var það ætlun hv. 3. landsk. að taka málið síðan upp að nýju. með þeim gögnum, sem fengjust við þá athugun og umsögn, er vitamálastjóri vildi gera. Í millitíð kemur þessi þáltill. fram, sem fer í sömu átt, og þá er ekki um annað að gera fyrir stuðningsmenn þessa máls en veita því lið. En það vill svo til, að það er hægt að gera sér ljósa grein fyrir því, hvað er að gerast þarna í Vestmannaeyjum um skemmdir á Eiðinu, þegar rannsókn verður látin fara fram í sumar. Það eru til mælingar á Eiðinu frá 1912, sem við samanburð áttu að gefa óyggjandi upplýsingar um það, hver spjöll hafa þarna orðið. Vitamálastjóri telur í bréfinu, sem hann ritar, að það sé ómögulegt að gera áætlun um kostnaðinn, fyrr en rannsókn hefir farið fram, og virðist hún vera fyrsta skrefið í þessu máli.