01.04.1937
Sameinað þing: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (2545)

23. mál, uppbót á bræðslusíldarverði

Páll Þorbjörnsson:

Það er eitt, atriði í ræðu hv. þm. Ísaf., sem ég vil víkja að, en það er sá hluti ræðu hans. Þar sem hann talaði um afkomu síldarverksmiðjanna 1935. Ég veit ekki, hvernig á að skilja orð hans, en til þess að útiloka misskilning, vil ég taka það fram, að það var sízt óvarlegar farið, þó að síldarverðið væri ákveðið 4,50 kr. fyrir málið þá, heldur en 5,30 kr. 1936. Töp þau, sem verksmiðjurnar urðu fyrir 1935, eru því alls ekki því að kenna, að síldarverðið hafi verið ógætilega áætlað þá. Hin raunverulega orsök þeirra er sú, að grundvöllur sá, sem á var byggt, brást, sem sé aflinn. Reikningar verksmiðjanna fyrir þetta ár voru svo síðbúnir, að ég hafði ekki tækifæri til þess að ganga úr skugga um, hvert tapið var. áður en ég fór úr stjórn þeirra. En eitt vissi ég með vissu, að einn liður í tapinu þetta ár, eða 10 þús. kr., var því að kenna, að h/f Kveldúlfur sveik samninga sína við verksmiðjurnar. Verksmiðjurnar höfðu samið við félagið um kaup á afla af tveimur togurum, miðað við meðalafla skipanna. Eftir þessum samningi hefðu verksmiðjurnar átt að fá frá Kveldúlfi 8 þús. mál, en fengu ekki nema 2 þús. mál. við jafnaðarmennirnir í stjórn verksmiðjanna vildum fara í skaðabótamál við félagið út af þessum samningsrofum, en þá kom samfylking íhalds og framsóknar í stjórninni og hamlaði því, að hægt væri að koma ábyrgð á hendur félaginu vegna þessara samningssvika.*

Áður en ég fór úr stjórn verksmiðjanna 1936. höfðum við töluvert rætt um útlitið fyrir næstu síldarvertíð, og vorum við 4 af 5 stjórnarnefndarmönnum sammála um að greiða 5 kr. fyrir síldarmálið. Af þessum 4 voru 2 fulltrúar sjálfstæðismanna.

Hvað umræður þessar snertir, þá er ekki hægt að líta á þær öðruvísi en framhald af þeim skollaleik, sem hv. þm. G.-K. byrjaði í fyrravor og vitanlega rann út í sandinn fyrir honum, eins og öll verkföll, sem hann hefir staðið fyrir. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að þessir sömu menn, sem síðastl. vor gerðu kröfur um 6–8 kr. fyrir hvert síldarmál, skuli hafa menn á togurum sínum fyrir sama kaup nú og áður á meðan síldarverðið var ennþá lægra. Annars er það vitað, að öll þessi þræta um síldveiðiverkfallið og afskipti hv. sjálfstæðismanna af síldarbræðslum ríkisins frá upphafi er eingöngu sprottin af fjandskap þeirra gegn fyrirtækinu.

Ég held, að sterkustu rökin fyrir því, að þeir hafa í þessu máli leikið hinn herfilegasta skollaleik, sé einmitt hægt að benda á í framkomu hv. þm. vestm. í þessu máli, þar sem hann er fyrsti flm., til samanburðar við það, hvernig hann hagar sér sem form. Lifrarsamlags Vestmannaeyja. Bæði þessi fyrirtæki, síldarbræðslur ríkisins og lifrarsamlagið, eiga að úthluta framleiðendum sem næst sannvirði fyrir sínar vörur. Ríkisverksmiðjurnar hafa keypt síldina fyrir fast verð. Lifrarsamlagið hefir borgað út áætlunarverð. Maður skyldi ætla, að það fyrirtæki, sem hefir áætlunarverðið, ætti að geta greitt framleiðendum fullkomið sannvirði vörunnar með því að greiða uppbót á áætlunarverðið, en þegar hv. þm. Vestm. fer að úthluta uppbótinni, þá fer hann heldur en ekki varlega í sakirnar. Árið 1936 selur félagið fyrir 700 þús. kr. og útborgar til framleiðenda 32 au. á hvern lítra af lifur. Þetta ár sem undanfarið voru tekin af heildarverðinu tillög til sjóða samlagsins, sem eru nú yfir 100 þús. kr., en það var ekki nóg. Hv. þm. vestm. taldi varlegra að leggja þetta ár meira til hliðar en endranær, með hliðsjón af því, að verð lifrarinnar var óvenju hátt, ef svo gæti farið, að það yrði lægra næsta ár. Þessi hugsun er út af fyrir sig ekki ámælisverð, og í þessum tilgangi leggur hann til hliðar meira en 40 þús. kr. aukalega. Ef þessi upphæð hefði verið notuð til að greiða uppbót á lifrarverðið, hefði lítrinn orðið 35 au. í stað 32 au. Þetta var ekki gert, og það broslega er, að hv. þm. Vestm. stóð þarna nákvæmlega í sömu sporum og stjórn síldarbræðslunnar stendur nú. Þó voru háværar raddir meðal lifrarframleiðenda í Vestmannaeyjum um að fá verðið hækkað, engu síður en nú eru um síldarverðið, en þessi upphæð fékkst ekki útborguð, og mér er ekki grunlaust um, að formaður samlagsins, hv. fyrsti fim. þessarar till., hafi ekki einusinni ætlað sér að útborga 32 au. á lítra, og halda þannig eftir kannske nokkuð meira en 40 þús. kr. Svo kemur þessi sami maður hér og áfellist stjórn ríkisverksmiðjanna fyrir nákvæmlega það sama, sem hann sjálfur hefir gert, og það í stærri stíl.

Ég hefi svo ekki miklu hér við að bæta, en vil þó segja nokkur orð út af því, sem hv. 6. þm. Reykv. var að tala um það, að rekstur ríkisverksmiðjanna hefði gengið hörmulega. Ég veit ekki vel, hvað hv. þm. hefir sérstaklega átt við með sínum ummælum. Því er ekki að neita, að ýmislegt hörmulegt hefir gerzt í sambandi við verksmiðjurnar, t. d. bygging verksmiðjunnar á Siglufirði; hún er sjálfsagt það allra hörmulegasta í þessu efni, en þar um réðu allt frá þeim bæsta til hins lægsta eingöngu flokksbræður hv. þm. Það var Magnús Guðmundsson, sem valdi mennina, er stjórnuðu í því máli, og verkin þau lofa mennina.