17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (2635)

153. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég hefi leyft mér að bera fram till. á þskj. 297, þar sem lagt er til, að heimila stj. að ábyrgjast fyrir Akureyrarkaupstað allt að 1500 þús. kr. lán, eða samsvarandi upphæð í erlendri mynt, til virkjunar á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessi till. er borin fram í Sþ., vegna þess að sýnt þótti, að frv. um svipað efni o. fl., sem borin hafa verið fram í Nd., eru nú aðeins komin til n. þar, og því litlar líkur til þess, að þau komist í gegnum þingið að þessu sinni.

Hinsvegar er mikil nauðsyn á því fyrir Akureyri, að byrjað verði á virkjun Laxár sem fyrst. Þess vegna þótti rétt að reyna að fá samþ. heimilda handa stj. til þess að ábyrgjast þetta lán.

Ég vil benda á það, að Akureyri byggði rafstöð árið 1922, sem þá þegar kom í ljós, að þurfti að auka að afli með mótor. Á annan veg var það ekki hægt á þeim stað, þar sem stöðin var reist. Síðan hafa verið athugaðir möguleikar til virkjunar í námunda við Akureyri, og að fenginni rannsókn hafa menn orðið sammála um, að ekki borgaði sig að reisa slíka frambúðarstöð nær en við Goðafoss í Skjálfandafljóti. En síðasta ár hafa farið fram rannsóknir og áætlanir næstum samtímis á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, og við athugun og samanburð á þessum tveim stöðum hafa menn orðið ásáttir um, að miklu hagkvæmara myndi vera að byggja rafstöðina við Laxá.

Akureyrarkaupstaður hefir brýna þörf fyrir aukna raforku. Stöðin, sem nú er, er rétt aðeins til ljósa. En í seinni tíð hafa risið upp ýms iðnaðarfyrirtæki, sem þarfnast raforku. Þetta er einnig hagsmuna- og nauðsynjamál þeirra héraða annara, sem gætu hagnýtt sér þessa stöð. Má í því sambandi nefna Hrísey, Dalvík og Ólafsfjörð.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þessa þál. En ég vil geta þess, að þetta mál er mál allra án alls flokkadráttar, vænti ég þess, að þetta mál verði einnig rekið hér í þingi sem mál allra flokka, sem þar standa að því. Og þess vegna vildi ég einnig vænta þess, að nægilegur vilji sé hér í þingi til þess að koma þessu nauðsynjamáli áfram. Legg ég til, að till. verði samþ. hér til þess að flýta fyrir því, að framkvæmdir geti hafizt.