15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ólafur Thors:

Ég veit ekki, hvort þessi till. hv. þm. N.-Þ. á að skoðast sem ákveðin yfirlýsing frá Framsfl. um, að það eigi að rjúfa þing. Ef þetta þing á að sitja og afgreiða fjárlög, þá kemur ekki annað þing saman á þessu ári, og verði hæstv. atvmrh. í sínu sæti og engar kosningar fara fram, þá býst ég við, að hann muni samkvæmt þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf í Ed. við umr. um þetta sama mál, gefa út ný bráðabirgðalög, sem staðfesta þau ákvæði, er hann vill lögfesta með því frv., sem hér er til umr. Ég held, að það liggi ljóst fyrir, að ef þetta á ekki að skoðast sem tilkynning um þingrof, þá gildi þessi ákvæði frv., sem hér er til umr., óbreytt, meðan hæstv. atvmrh. situr í þeim ráðherrasessi, sem hann nú er í, sem hann vitanlega gerir, ef ekki verða kosningar. Ef till. á hinsvegar að skoðast sem vottur þess, að þingrof, er menn tala um, sé fastákveðið, þá viðurkenni ég, að það liggur fyrir sá möguleiki, að nýjar kosningar breyti valdaafstöðunni í Alþingi, en ég sé í sjálfu sér ekki, að með því sé fengin betri trygging fyrir því, að yfirlýstur vilji Framsfl. nái fram að ganga í þessu máli, heldur en nú er, þar sem Sjálfstfl. er reiðubúinn að veita sinn stuðning til þess, að frv. Framsfl. nái lögfestingu. Ef hinsvegar stjórnarflokkarnir verða áfram í meiri hl. og samvinnu, þá sé ég ekki, að afstaða Framsfl. til þess að knýja fram vilja sinn í þessu máli verði önnur eða betri heldur en nú er. Hitt er svo annað mál, ef nýr þingmeirihluti fengi valdaafstöðu, þá gæti vel gilt einu máli, hvort þessi till. verður felld eða samþ., því að eins og hæstv. núv. atvmrh. hefir breytt þessum lögum þvert ofan í þingviljann með bráðabirgðalögum, þá hefur hann gefið öðrum fordæmi til þess að gera hið sama.

Hv. þm. N.-Þ. sagði, að sér fyndist von, að mér þætti ánægja í því að fylgja Framsfl. að málum. Það er að því leyti satt, að það er svo sjaldan, að hægt er að leiða Framsfl. inn á rétta braut, því að reyndin er sú, að þá sjaldan ýmsir mætir menn innan Framsfl. bera fram gagnleg mál hér á Alþingi, þá hefir oft farið fyrir þeim eins og fer nú, að þegar á hólminn er komið, hlaupa þeir frá þeim. Þess vegna eru ekki mörg tækifærin hjá sjálfstæðismönnum til að leggjast á sveif með framsóknarmönnum.

Ég held, að af þessu sé ljóst, að enga þýðingu hefir að greiða atkv. með þessari till., og ef framsóknarmenn vilja fylgja eftir þeirri stefnu, sem flokksþing þeirra markaði og felst í frv. framsóknarmanna í Ed., erum við sjálfstæðismenn reiðubúnir að fylgja því fram, og þar með er því máli tryggður framgangur. Við munum þess vegna greiða atkv. á móti þessari brtt. og móti frv. hæstv. atvmrh. um staðfestingu á bráðabirgðalögunum.