05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og kemur fram á þskj. 184, þá hefir sjútvn. afgr. þetta mál með þeim breyt., sem þar er sagt, þó þannig, að 2 nm. skrifuðu undir nál. með fyrirvara. Ég skal stuttlega víkja að þessum breytingum.

Í fyrsta lagi þótti meiri hl. n. of snemmt að leyfa veiðar með dragnótum, eins og í frv. er gert ráð fyrir, en þar er farið fram á, að þær verði leyfðar frá 20. apríl, og var því breytt eins og sagt er í brtt. En með því að n. var kunnugt um, og hún búin að fá staðfestingu á því í viðræðum við fiskifræðinga, að kolinn, og þó einkum rauðsprettan, hrygna fyrr sunnan við land en fyrir vestan það og norðan, þá þótti rétt að leyfa ekki veiðar eins fljótt fyrir vestan og norðan land og fyrir sunnan. En n. þótti sérstök nauðsyn að tryggja eins og hægt er, þegar annars er leyfð veiði, að kolanum væri hlíft á aðalhrygningartímanum. Sama viðleitnin til þess að tryggja hlífð á ungviðinu, og þar af leiðandi á fiskstofninum, kemur fram í 2. gr. brtt. n., þar sem sagt er, að ráðh. semji reglugerð um möskvastærð dragnóta, svo og um lágmarksþyngd þess fiskjar, sem veiddur er í dragnót og hafður til sölu.

En hrygningarsvæðin vill n. eftir föngum verja með því að banna veiðar með dragnótum innan landhelgi á svæðinu frá Eystra-Horni sunnan um land að Straumnesi frá 1. jan. til 15. maí og frá 1. til 31. des., og á svæðinu frá Straumnesi austur um land að Eystra-Horni frá 1. jan. til 15. júní og 1. til 31. des. Einnig eru dragnótaveiðar á skipum, sem eru að stærð 35 smálestir brúttó eða meira, bannaðar frá 15. maí til 30. sept. ár hvert. Ég skal taka það fram, að þar sem minnzt er á Straumnes í nál., er átt við Straumnes við Ísafjarðardjúp, og hefir fallið niður að geta þess. Myndi þetta verða lagfært við endurprentun, ef brtt. yrði samþ. En n. áleit ekki þörf á því að koma með sérstaka brtt. til þess að skýra, við hvað er átt. Með þessu ákvæði er landhelgissvæðinu skipt í tvo hluta, annan fyrir sunnan land, en hinn norðan- og vestanlands. Í suðurhlutanum vill n. leggja til, að leyft verði að byrja dragnótaveiðar mánuði fyrr á vorin en á hinu síðara svæðinu, sem gildir fyrir norðan land og austan.

Það hefir komið í ljós við reynsluna, að dragnótaveiðin er allmikil trygging, þegar mikið hleðst af bátum á sömu miðin. Og þess vegna er ekki nauðsynlegt, ef einhver hluti skipanna á annars úrkosti, að stefna til þess, að allur bátaflotinn snúi sér einmitt að þessum veiðum, með því að það er líka vitað, að allir stærstu vélbátarnir eru farnir að stunda síldveiðar á sumrin, og er líklegt, að þeir geri það einnig framvegis. Ennfremur ber að benda á það, eins og tekið er fram í nál., að rýmkun dragnótaveiðal. er ekki hvað sízt gerð fyrir smærri hluta vélbátanna eða jafnvel fyrir þá smæstu. Og einkum eru þær tilslakanir, sem n. leggur til, að verði gerðar, þannig vaxnar, að þær koma jafnvel hinum minnstu bátum að gagni, ef ekki að tiltölulega mestu gagni. Á ég þar við, að n. leggur til, að ákvæði 8. gr. falli niður, en hún hefir í sér fólgin hin svokölluðu héraðabönn, þar sem hvert hérað getur bannað veiði fyrir sínu landi og fengið síðan staðfestingu ráðh. á því. Afleiðingin af þessu er sú, að á ýmsum fjörðum, þar sem heimamenn gætu veitt í dragnót á minnstu fleytur sínar, þar er þeim meinað það með þessum ákvæðum 8. gr. Út af þessu leggur n. til, til þess að stefna ekki öllum vélbátaflotanum einmitt á þessar veiðar, að dragnótaveiði á skipum, sem eru 35 smálestir brúttó eða meira, verði bannaðar frá 15. maí til 30. sept. M. ö. o., þær tilslakanir, sem samkv. till. n. er lagt til, að gerðar verði, ná ekki til báta, sem eru 35 smálestir brúttó eða meira. Þar hafði n. sérstaklega í huga, eins og ég tók fram áðan, að bátum af þeirri stærð og stærri væri fært að stunda sæmilega arðsamar veiðar á öðrum miðum á þessum tíma, enda gera þeir það reyndar eins og nú er ástatt.

Ég hefi svo ekki fleiri brtt. við þetta mál að mæla hér fyrir. Þar með er á þær allar minnzt. En almennt vildi ég aðeins segja það, að n. í heild sinni leizt svo á, að ekki væri unnt að standa lengur á móti því, að opnaður væri aðgangur fyrir vélbáta landsmanna að þessum veiðum að einhverju leyti, sem kæmi að gagni.

Bæði er það, að eins og vitað er, þá hafa menn smátt og smátt þessi ár verið að halla sér meir og meir að því, að veiða í dragnót, og annað það, að eftir því sem þorskveiðar reynast óarðvænlegri fyrir vélbátana, þá er nauðsynlegt, að þeim sé gefinn kostur á því, að snúa sér að öðrum veiðibrögðum, — þeim, sem meiri arð gefa en þorskveiðarnar, og yfir höfuð þeim veiðibrögðum, sem geta komið til greina um sumarið, fyrir þá vélbáta, sem eru undir 30 smálestir eða jafnvel 35. Þessir bátar, og allt niður í trillubáta, hafa orðið í engan annan stað að venda en kolaveiðarnar. Og þessar veiðar eru yfirleitt svo arðsamar fyrir báta á þeim stöðum, þar sem tök eru á að koma þessum fiski á markað, að það er a. m. k. mjög mikil og brýn nauðsyn, að ekki sé að ófyrirsynju gengið framhjá þeim bjargráðamöguleikum, sem hér eru fyrir hendi fyrir bátaflotann.

Ég veit vel, að fyrir ýmsum þeim mönnum, sem eru á móti dragnótaveiðum, vakir það, að þeim finnst, að með þessu sé gengið á stofninn, sé eytt kolanum og jafnvel spillt öðrum fiskimiðum. Það atriði út af fyrir sig, hvort gengið sé á stofninn, með því að leyfa dragnótaveiðar í stærri stíl, vil ég á engan hátt vefengja, að muni geta átt sér stað. En með þeim till., sem n. flytur, eru gerðar ráðstafanir til þess að forðast það eins og unnt er, með því ákvæði, sem hún vill lögleiða um möskvastærð og lágmarksstærð þess fiskjar, sem veiddur er í dragnót og hafður til sölu. Með því er gert það, sem unnt er að gera, til þess að vernda stofninn, nema þá með hreinu veiðibanni. En jafnvel þó að það væri að einhverju leyti gengið á stofninn með opnun landhelginnar í þessu skyni, þá er að líta við þessum atvinnumöguleikum fyrir mörg hundruð sjómenn yfir þann tíma, sem þeir hafa einskis annars úrkosti með arðsamar fiskiveiðar. Og þess er líka að gæta, að þessum stofni kolaforðans við strendur landsins er engan veginn tryggður friður í framtíðinni, jafnvel þó að landsmönnum sé meinað að hafa not af honum á þennan veg, vegna þess að það hefir nú viljað vera svo hingað til, að bæði utan og innan landhelginnar hefir þessi fiskur verið drepinn, sumpart af landsmönnum sjálfum, og þó, að því er ég hygg, langmest af útlendum botnvörpungum. Útlendir botnvörpuskipstjórar, sem stunda hér veiðar, þekkja kolamiðin við landið utan landhelgi a. m. k. eins vel og hinir kunnugustu Íslendingar, ef ekki miklu betur. Því verður þess vegna engan veginn að öllu leyti forðað, að þessi fiskur verði veiddur meira eða minna. Og þegar svo er ástatt, þá virðist vera hart að gengið að meina landsmönnum sjálfum að færa sér þetta í nyt, og það þegar ástæðurnar eru þannig, að þeir hafa mjög rýra afkomu við aðrar veiðar, og þeir hinsvegar hafa orðið tæki og aðstöðu til þess að notfæra sér þessar veiðar.

Hér má bæta því við, að með byggingu frystihúsa víðsvegar á landinu eru miklu betri og tryggari söluskilyrði fengin fyrir þennan fisk en áður voru. Og síðan sænska frystihúsið byrjaði að kaupa flatfisk og fiskimálan. fór að feta í þess fótspor og tók að koma þessum fiski á markað, hafa opnazt ennþá meiri möguleikar fyrir sölu á þessari vöru. Annarsstaðar á landinu er það svo, sumstaðar a. m. k., að þó að fiskurinn sé ekki hraðfrystur, þá er hann ísaður og honum þannig komið á markaðinn. Hvað mitt kjördæmi snertir, veit ég, að það er mikil eftirspurn af útlendinga hálfu einmitt eftir þessari fisktegund, sem veiðist í dragnót.

Ég býst við því, að eins og nú horfir við með afkomu bátaútvegsins hér við Ísland yfir vetrarvertíðina, þá muni hv. þdm. sjá, að það er meira en lítið bjargræði, sem getur legið í því fyrir þennan bátaflota, að mega hefja dragnótaveiði í lok vetrarvertíðarinnar með öruggri vissu fyrir því, að allt, sem þeir geta veitt af flatfiski, er seljanlegt með góðu verði og strax.

Því miður er útlit fyrir, að afkoman á vetrarvertíðinni verði slæm, og það er líka sérstök ástæða fyrir því, að ekki séu vanræktir þeir möguleikar fyrir bátana, að bjarga sér við aðrar veiðar, ef kostur er.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vil að lokum benda á það, sem við flm. þessa frv., hv. 1. þm. Rang. og ég, tókum fram í grg., að það virðist óforsvaranlegt, að löggjöfin standi þannig í vegi fyrir því, að landsmenn geti notað sér öll þau gæði sjávarins, sem geta orðið þjóðinni til hagsbóta.

Á það er bent í nál., sem hér liggur fyrir, að samkv. skýrslum, sem Fiskifélagið safnaði fyrir síðasta ár, þá stunduðu þessa veiði 96 bátar; 430 manns tóku þátt í þeim og aflinn nam ¾ millj. kr. Þessar skýrslur Fiskifélagsins liggja hér fyrir og umsagnir fiskimanna úr hinum ýmsu veiðisvæðum um dragnótina og notasemi hennar, og geta hv. þm. sannfært sig um, að þær eru mjög á einn veg, sem sé að veiðin sé arðsöm og tilkostnaðurinn lítill og afkoma báta við þær tiltölulega betri og í mörgum tilfellum mikið betri heldur en við þorskveiðar.

Ég vona svo, að hv. þdm. geti fallizt á að leyfa málinu fram að ganga með þeim breyt., sem sjútvn. leggur til, að gerð verði á því. — Þeir nm., sem skrifuðu undir nál. með fyrirvara, gerðu ekki grein fyrir honum í n., en ég vænti þess, að þeir geri það nú við þessa umr., og að sú grg. verði ekki á þann veg, að þeir hyggist að leggjast á móti málinu.