07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég er lítill sjómaður og hefi lítið vit á öllu, er að sjónum lýtur. Þó hefi ég alltaf skilið, að ef tryggð ætti að vera framtíð góðrar veiði úr sjó, þá myndi eitt frumskilyrðið til þess vera það, að ungviðið fengi frið til þess að vaxa. Hv. þm. Vestm. sagði, að reynsla sjómanna ætti að ráða á þessu sviði. Í því tilefni vil ég segja það, að þeir menn, sem ég er umboðsmaður fyrir hér á Alþingi, Norðmýlingar, sem byggja strönd þessa lands frá Gunnólfsvíkurfjalli suður að Dalatanga, hafa úr öllum sjóþorpum hringt til mín og beðið mig að vera á móti þessu máli, því að það er þeirra reynsla af dragnótaveiðunum, að það væri til ills eins, ef frv. næði fram að ganga. Þegar ég hefi lítið vit á þessum málum og enga aðstöðu til þess að rekja þessa reynslu nyrðra, þá geri ég skyldu mína með því að láta þessa hv. d. vita, hver reynsla þessara manna er og vilji, og framfylgi svo þessu með því að vera á móti þessu frv.

Hv. þm. Vestm. sagðist vonast til þess, að þeir, sem verið hefðu á móti þessu máli, myndu fara að sjá að sér. Hann býst við, að þeir sömu þm., sem í 3 þing í röð eru búnir að vera á móti þessu máli, muni nú vera búnir að sjá að sér og skipta um skoðun. Hvaða þm. eru það, sem hann þekkir að því að vera þá hringlanda, veit ég ekki. Og ég vil vænta þess, að það finnist enginn sá þm. innan þessara veggja, sem er þannig vaxinn, að hann láti hafa sig að þeim leiksoppi, að skipta um skoðun fyrir vilja þessara manna þvert á móti vilja sinna kjósenda.