12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Páll Þorbjörnsson:

Ég sé, að hv. þm. Borgf. hafa bætzt tveir liðsmenn við þessa umr., hv. þm. Snæf. og hv. þm. V.-Ísf. Ég get ekki betur séð en verið sé að reka þann hnífil í þetta mál með brtt hv. þm., að ég geri ráð fyrir, að ég mundi ekki geta greitt frv. atkv., eftir að þær væru samþ. Hv. þm. Snæf. talaði fyrir sinni till. og gat þess, að hann bæri mjög fyrir brjósti Ólafsvíkinga í þessu efni, en hinsvegar vildi hann bægja Dönum frá landhelginni með þessu ákvæði. Ég verð að segja, að það fer að verða nokkuð dýru verði keypt þessi varasemi gagnvart Dönum, ef hennar vegna á að ganga gersamlega á rétt vissra landsmanna, eins og gert er ráð fyrir með þessum brtt. Hv. þm. Snæf. leggur til, að á Breiðafirði og Faxaflóa megi aðeins veiða skip, sem þar eiga heima, og svo kemur hv. þm. V.-Ísf. og tekur svæðið frá Gilsfirði inn í Hrútafjarðarbotn, eða Vestfjarðakjálkann allan. Hvorugum þessara þm. dettur í hug að amast við því, að allir megi koma og veiða t. d. við Vestmannaeyjar, norður á Eyjafirði eða hvar sem er annarsstaðar. Ég veit ekki um afstöðu annara hv. þm. til þessara brtt., en ég segi fyrir mig, að ég mundi ekki treysta mér til að greiða frv. atkv., eftir að þær væru samþ.