12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég flyt hér brtt. áþekka þeirri, er hv. þm. Snæf. flytur, og er hún um það, að Vestfirðingar fái að vera sér um dragnótaveiði undan Vestfjarðakjálkanum. Ég hefi ekki trú á, að algerð opnun fyrir alla alstaðar komi að gagni. Við höfum reynslu fyrir því, að hafi verið opnað þannig á einhverjum stöðum, hafa menn komið eftir eitt eða tvö ár og beðið um lokun aftur. Hitt er að mestu óreynt að hafa það fyrirkomulag, sem nú er á Faxaflóa og Breiðafirði, að skipta landinu niður í veiðisvæði. Inn á þá braut fer ég í minni till., og mundi ég vitanlega styðja samskonar till. frá öðrum hv. þm., ef menn teldu heppilegt að vera út af fyrir sig með veiðisvæði víðar á landinu.

*365Það má segja, að mín brtt. sé ekki í samræmi við fyrri till., sem hún er stíluð sem brtt. við, þar sem bæði það svæði, sem ég tiltek, og það svæði, sem hv. þm. Snæf. tiltekur, tekur yfir Breiðafjörð norðanverðan. Því vil ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 275, um að í stað orðanna „á Breiðafirði“ komi: á Breiðafirði sunnanverðum. Þá er Breiðafjörður norðanverður látinn fylgja Vestfjörðum, og er það eðlilegra heldur en að fara að skipta Barðastrandarsýslu, þannig, að t. d. Patreksfirðingum sé bannað að fara suður fyrir Látrabjarg, en aftur Snæfellingum leyft að veiða norðanvert við Breiðafjörð.