12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Gísli Guðmundsson:

Ég get ekki annað sagt en mér sé ánægja að því, að það virðist vera að koma upp sundrung í liði þeirra manna, sem léðu þessu illa máli fylgi sitt hér í hv. d. við 2. umr. Að vísu minnir mig, að hv. þm. Snæf. tæki það fram, að hann greiddi frv. atkv. „til 3. umr.“, enda heyri ég, að honum er nú að verða allljóst, hvílík skaðsemi getur af þessu máli leitt.

Hv. þm. Snæf. ber hér fram brtt. á þskj. 275, þess efnis, að á Breiðafirði og Faxaflóa séu dragnótaveiðar aðeins heimilar skipum, sem skrásett eru í þeim lögsagnarumdæmum, sem að þessum fjörðum liggja. Ég get skilið þessa brtt. út frá sjónarmiði þessa hv. þm., en hinsvegar get ég ekki fellt mig við, að slík undantekning ein, sem þarna er um að ræða, verði samþ. Ég verð að segja það, að yfirleitt finnst mér, að hreppapólitík eigi ekki að koma til greina í þessu máli eða öðrum. Það verður að miða þetta mál nokkuð við almenna hagsmuni landsmanna. Þess vegna hefi ég hugsað mér að bera fram skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 275. Ég tel, að af öllu óréttlátu, sem er í þessu frv., þá sé það ákvæði óréttlátast, sem afnemur héraðabönnin, er í gildi hafa verið og sett hafa verið eftir tilmælum hlutaðeigandi héraða. Mín brtt. í þessu efni er sú, að undantekning sú, er hv. þm. Snæf. leggur til, að gerð verði frá frv., gildi um alla þá staði, þar sem héraðabönnin eru í gildi við gildistöku þessara laga, ef þau einhverntíma taka gildi. Þessa brtt. við brtt. á þskj. 275 vil ég leyfa mér að leggja fram skrifl. og afhenda hæstv. forseta.