12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Finnur Jónsson:

Ég vil segja það um þetta frv., að ég vil, að því verði vísað til sjútvn. Það hefir ekki neina þýðingu að vera að bera fram svo margar till., eins og nú hafa komið fram í þessu máli, og ég vil leggja til, að þær verði allar felldar. Ég vil taka undir það með hv. þm. V.-Sk., að það getur ekki orðið nóg vítt það ábyrgðarleysi, sem hefir sýnt sig hjá hv. þm. Borgf., þar sem hann hefir ekki getað bent á nokkurt réttmæti í málinu, og það má segja, að það sé einsdæmi. Þessi hv. þm. veit það vel, að Vestmannaeyingar vilja, að þessi svæði, sem hér er um að ræða, verði opnuð fyrir Dönum, svo þeir geti sjálfir komizt þangað, og ef þessi till. verður samþ., þá eru það Vestmannaeyingar, sem hafa orðið fyrir búsifjum af hendi Dana í dragnótaveiðum. — Ég ætla ekki að fara út í ræðu hv. þm. Borgf. Ég tel hana vera eins og allar þær ræður, sem þessi hv. þm. flytur, byggða á fjarstæðum einum, og hrekur því hver aðra.

Ég vil segja það, að þær vonir, sem ýmsir sjómenn hafa gert sér um þetta mál, eru að það yrði sem fyrst afgr. sem lög frá Alþingi og þar væri um ákvæði að ræða, sem gætu komið þeim að einhverju gagni. En það verður alls ekki, ef það á að fara að samþ. hinar vitlausu till., sem hér hafa komið fram. Það getur ekki komið til mála að skipta landhelginni niður í smáhluta milli þeirra, sem þessa veiði stunda. Fyrir utan allt ranglæti hljóta þessar till. að leiða til þess, að það verður ekki hægt að halda uppi landhelgisgæzlu. Það er hv. þm. Snæf., sem hefir leitt asnann inn í herbúðir þessa máls. Honum mátti vera það ljóst, að þessi brtt. hans hlyti að leiða af sér fleiri brtt., og þær hafa líka verið bornar fram af sjálfstæðismönnum. Ég veit, að honum er ljós sú staðreynd, að afskipti hans af þessu máli geti orðið til að eyðileggja það. Afstaða Alþfl. er óbreytt eins og áður um þetta mál. Af hálfu hinna flokkanna er um tvennt að ræða, ókunnugleika og ábyrgðarleysi framsóknarmanna, og á hinn bóginn eindregin meðmæli af hálfu sjálfstæðismanna, með margra ára reynslu að baki sér í þessu efni. Í þriðja lagi má nefna menn, sem hafa farið loðnum ummælum um málið, eins og t. d. hv. þm. Snæf. Það er nú kunnugt, að það er alls ekki viðurkennt, að þessi brtt. hv. þm. Snæf. sé nauðsynleg. En þessi mikla kjósendahræðsla, sem hefir gripið þennan hv. þm., hefir komið honum til að koma með þessa till., og það getur orðið til að drepa þetta mál.