04.03.1937
Efri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

47. mál, vitabyggingar

*Flm. (Ingvar Pálmason):

Með þessu frv. er farið fram á það, að vitinn á Hafnarnesi verði tekinn inn í vitakerfi landsins. Eins og bent er á í grg. fyrir frv., hefir þessi viti verið starfræktur frá byrjun af Búðahreppi í Fáskrúðsfirði. Vitinn er orðinn nokkuð gamall og úr sér genginn og þarf því allmikilla endurbóta við en það er útilokað, að Búðahreppur geti innt það af hendi. Má því búast við, að starfræksla þessa vita falli niður, en það væri mjög óheppilegt fyrir allar siglingar við Austfirði, því að þessi viti er á hættulegasta siglingasvæðinu fyrir Austfjörðum. Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða það, að vitamálastjóri sé því meðmæltur, að þessi viti verði tekinn upp í vitakerfi landsins; en til þess að endurbótin geti farið fram á vitanum af landsfé verður hann að vera í vitakerfi landsins.

Ég tel óþarft að rökstyðja það frekar en gert er í frv., að það sé með öllu óviðeigandi, að vitanum sé viðhaldið af einu fátæku hreppsfélagi, þar sem vitinn er ómissandi liður í vitakerfi landsins; hann lýsir yfir leiðina milli Skrúðs og lands, og ef starfræksla vitans félli niður, er ekki hægt að nota annan vita en þann, sem er langt frá, og óvíst, að hans njóti við. Ég vænti því, að þetta mál fái góðar undirtektir í þessari hv. d., og ég geri ráð fyrir, að sú n., sem fær málið til meðferðar og ég legg til, að verði sjútvn., leiti umsagnar vitamálastjóra. Verður þá hægt síðar undir meðferð málsins að gefa betri upplýsingar um það, hversu mikið mundu kosta þær endurbætur, sem nauðsynlegt er að gera á þessum vita, og um annað, sem þetta mál varðar. — Ég legg svo til, að frv. verði vísað til sjútvn. að þessari umr. lokinni.