16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

47. mál, vitabyggingar

*Thor Thors:

Ég á hér smábrtt. á þskj. 337, þess efnis, að bætt verði við einum nýjum vita inn í vitalögin, sem sé vita við Grundarfjörð, að þar komi ljósviti. Þessi till. er flutt samkv. tilmælum hreppsnefndar Eyrarsveitar. Hreppsn. þar hefir tjáð mér, að mikil nauðsyn sé á því, að þar komi nýr og góður viti, því að vitinn, sem þar er fyrir, Krossanesvitinn, er hvergi nærri fullnægjandi. Það hefir komið átakanlega í ljós, hversu brýn þörf er á góðum vita þarna. Í því sambandi þarf ekki annað en að minna á strand Súðarinnar á síðasta vetri þarna í Grundarfirðinum, og lá við sjálft, að yrði stórslys af því strandi. Má telja líklegt, ef góður viti hefði þá verið við Grundarfjörðinn, að hægt hefði verið að komast hjá þessu strandi.

Þar sem hér er um brýna þörf að ræða, vil ég leyfa mér að vænta þess, að hv. d. taki þessari till. minni vingjarnlega.