23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á undanförnum þingum hefir það verið viðurkennt af öllum, að nauðsyn bæri til að sjá sveitar- og bæjarfélögum fyrir fleiri tekjustofnum heldur en þau hafa haft. Út af þessu var, eins og menn muna, skipuð milliþn. í jan. 1936, sem samdi frv. um þetta efni. Þetta frv. var svo lagt fyrir þessa hv. d. og samþ. með nokkrum breyt., en síðan limlest í Nd. og varð ekki útrætt þar. Hefir nú verið ýmislegt um þetta rætt og eins og gengur reynt að skella skuldinni á stjórnarflokkana í því efni. En sannleikurinn er sá, að á því þingi klofnuðu allir flokkar um þetta mál í Nd. Á fyrra þingi þessa árs voru líka frv. um þetta efni fyrir þinginu, bæði frá mér og eins frv. frá Jónasi Guðmundssyni, sem þá átti sæti á Alþ. Er ekkert hægt um það að fullyrða, hver niðurstaðan hefði orðið þá, ef þingið hefði ekki verið rofið, en þingrofið har að höndum áður en hægt var að sjá, hvaða afgreiðslu þessi mál mundu fá. Nú er hér borið fram frv., sem gengur að vísu töluvert skemmra, a. m. k. að ýmsu leyti, heldur en þau frv., sem borin hafa verið fram áður. En þetta frv. hefir þó þann kost, að telja má tryggt, að það nái fram að ganga í höfuðatriðum á þessu þingi. Ég skal taka það fram þegar, að eins og sagt er í grg. frv., er þetta frv. borið fram í samráði við atvmrh. og fyrir hans hönd. Þar af leiðandi gefur það að skilja, að ekki gat staðið neitt í frv., sem hæstv. ráðh. ekki vildi fallast á. En ég fyrir mitt leyti hefi áskilið mér rétt til að bera fram brtt. við frv. siðar eða að vera með brtt., sem fram kynnu að koma.

Þetta frv. er, eins og menn sjá, í 3 köflum. Í I. kafla er lagt til að bæjar- og sveitarfélögin megi innheimta fasteignaskatt, bæði af húsum, lóðum og lendum. Er um þetta fylgt frv. mþn. frá 1936, þó með þeirri breyt., að hér er gert ráð fyrir, að þetta verði alstaðar heimild, en í frv. mþn. var skatturinn lögboðinn í kaupstöðum. Ennfremur er sú breyt. gerð, að það lágmark, sem gert var ráð fyrir í frv. mþn., er burtu fellt, og þar af leiðandi geta bæjar- og sveitarfélögin haft þennan skatt eins lágan og þau vilja. Ég fyrir mitt leyti skal játa, að ég tel þennan kafla frv. ekki mikils virði, þó að hann geti náttúrlega orðið til hagræðis sérstaklega í þeim kaupstöðum, sem ekki hafa þegar fengið sér heimild til að leggja á fasteignaskatt. En þar, sem fasteignaskattur er fyrir, tel ég ekki mikil líkindi til, að hann verði verulega hækkaður, þó að þetta verði samþ.

Það, sem ég tel eiginlega aðalkjarna frv., er 2. kafli, þar sem ræðir um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga. Ég álít, að þessi kafli muni verða að mestum beinum notum, ef samþ. verður. Það kann að vera, að ýmsum þyki það lítið, sem bæjar- og sveitarfélögin eiga að fá í sinn hlut eftir þessum kafla, en það er, eins og kunnugt er, 700 þús. kr. af því fé, sem innheimtist samkv. „klauflaxinum“. Það verður að undirstrika, að samkv. till., sem gerðar eru í þessum kafla, þá verður þessu fé fyrst og fremst varið til þess að létta undir með þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem hafa mestar byrðar af þeim málum, sem má segja, að þau geti sízt ráðið við, en það er framfærslukostnaðurinn, framlag til elli- og örorkutrygginga og svo kennaralaun. Þetta er allt útgjöld, sem löggjöfin hefir lagt bæjar- og sveitarfélögunum á herðar og þau geta sízt við ráðið. Ég er viss um, að þú ekki hefði verið gengið lengra en að afnema hámarkið, sem nefnt er í 73. gr. framfærslulaganna, þá hefði það eitt út af fyrir sig komið mörgum bæjar- og sveitarfélögum í góðar þarfir, hvað þá heldur þegar hér er nú gengið miklu lengra.

Þá er 3. kaflinn um eftirlit með bæjar- og sveitarfélögum. Kaflinn fjallar um það, að settur skuli sérstakur maður til þess að annast skýrslusöfnun frá bæjar- og sveitarfélögum, sem að þessu lúta, og annast skiptingu þessa fjár á milli þeirra. Ennfremur er ætlazt til, að þessi maður hafi svo auk þess sérstakt eftirlit með fjárreiðum bæjar- og sveitarfélaga. Og ennfremur það, að ef sveitar- eða bæjarfélag kemst í svo mikil vandræði, að gera þarf sérstakar ráðstafanir til bjargar því, eins og komið hefir fyrir, þá megi að nokkru leyti svipta það fjárforræði um takmarkaðan tíma. Ennfremur eru ákvæði um, að ef bæjar- eða sveitarfélag skuldar ríkissjóði eða er í vanskilum með skuld, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir, þá megi halda eftir sem svarar skuldinni, af því, sem bæjar- eða sveitarfélaginu ber að fá hjá jöfnunarsjóðnum, til lúkningar henni.

Ég skal svo að lokum vekja athygli á bráðabirgðaákvæði, þar sem farið er fram á, að á næsta ári verði jafnaður framfærslukostnaðurinn fyrir árin 1936–1937. Ég legg svo að sjálfsögðu til, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til n., en ég er í nokkrum vafa um, til hvaða n. það eigi að fara sökum þess, að málið á samkv. eðli sínu heima í allshn., en alveg samskonar máli hefir þó verið vísað nýlega til fjhn., og leyfi ég mér því að skjóta því til hæstv. forseta og biðja hann um till. viðvíkjandi nefnd.