23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég get tekið það fram, að ég er mjög fylgjandi 1. kafla þessa frv., sem ræðir um fasteignaskatt, svo langt sem það nær. Þm. Kommfl. í Nd. hafa fyrir skömmu lagt fram í Nd. frv. um stighækkandi fasteignaskatt, sem gengur í svipaða átt. Í 3. gr. frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir, að þessi skattur geti verið mismunandi hár, eftir því hvað hvert bæjar- og sveitarfélag ákveður. Þetta er gott og blessað frá mínu sjónarmiði. En til þess að l. verði ekki misbeitt, þá þarf að ganga betur frá þessu. Það þarf að koma í veg fyrir, að þetta verði til að hækka húsaleiguna. Þess vegna álit ég, að þurfi að tiltaka nánar mismuninn, sem á að gera á verzlunarhúsum og íbúðarhúsum.

Þá er það 22. gr., sem ég álít, að geti verið athugaverð, en þar er talað um eftirlit með bæjar- og sveitarfélögum. Þessar aðgerðir, sem þar er gert ráð fyrir, horfa ekki í lýðræðisátt, og þar, sem þetta hefir verið framkvæmt, hefir það valdið úlfúð og vandræðum. Ef bæjar- og sveitarstjórnir standa ekki í stöðu sinni, eiga það að vera kjósendurnir, sem eru hæstiréttur til að dæma þær. — 20. gr. getur líka verið athugaverð. Ákvæði hennar mundu verka þannig, að verst stæðu bæjar- og sveitarfélögin mundu raunverulega ekkert fá úr jöfnunarsjóðnum, heldur mundi þeirra hluti fara allur eða mikill hluti hans upp í skuldir. Annars er ég að öðru leyti samþykkur þessu frv., en ég mun ef til vill síðar bera fram brtt. í samræmi við þessar aths.