23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Það hefir verið uppi till. um að vísa þessu máli til fjhn. og af því að ég á sæti í þeirri n., þá er ef til vill ekki ástæða fyrir mig að tala um frv. að svo komnu, en eins og hv. þdm. er kunnugt um, er ég meðflm. að frv. um svipað efni, og ég gerði það m. a. vegna þess, að með löggjöf síðari ára hafa verið lagðar svo miklar byrðar á stærri kaupstaði landsins, að það virðist alveg óhjákvæmilegt, að sjá um, að þeir fái nokkrar tekjur til þess að standa undir þeim byrðum, aðrar tekjur en þær, sem hægt er að ná með beinni álagningu útsvara. Það getur verið, að Alþingi geti lokað augunum fyrir þessu nokkra stund. en það er ekki hægt mjög lengi. Mér sýnist þetta frv. stefna í svipaða átt og ýms frv. um tekjuauka fyrir bæjar- og sveitarfélög, að sneiða vandlega hjá því, að höfuðstaðurinn njóti nokkurs af þeim tekjum, sem þar er farið fram á handa bæjar- og sveitarfélögum. Ég skal játa, að ég hefi ekki rannsakað þetta mál út í æsar, en mér sýnist ákaflega lítil tekjuvon af þessu frv. fyrir Rvík, sem hefir þó verið mjög íþyngt með margvíslegri löggjöf síðari ár.

I. kafli l., fasteignaskatturinn, getur ekki orðið Rvík að verulegu liði þegar af þeirri ástæðu, að þessi skattstofn er nú notaður af hænum, að vísu ekki eins hár og hámarkið leyfir hér, en hann er þó notaður þannig, að ég sé ekki veruleg líkindi til þess, að þetta yrði notað, og ég hygg þess vegna, að þessi I. kafli l. mundi koma að tiltölulega litlu gagni. — Um II. kaflann er mikið erfiðara að segja. Ég skal játa, að þar eru mörg ákvæði, og sú úthlutun, sem fram fer samkv. þeim kafla, svo dulin, að það er ekki gott að segja í fljótu bragði, hvernig það skiptist og hvern hlut Rvík mun bera frá því borði. Hitt finnst mér augljóst, að það, sem segir í 11. gr. l., að hámark 73 gr. framfærslul. fellur ekki niður. Ég sé ekki annað en að það sé tilfærsla, í stað þess að bundið er við 250 þús. kr., á þar að koma 700 þús. kr. til úthlutunar, og það er að vísu talsverð bót, en ég er ekki viss um, að þetta ákvæði þyrfti að vera, því að eftir að farið er að veita 700 þús. kr. samkv. framfærslul., þá mundi hámarksákvæði 73. gr. að sjálfsögðu vera gengið úr móð, ef svo mætti segja.

Þetta bætir að vísu nokkuð úr, eins og ég hefi sagt, en það er sá stóri galli á ákvæðum II. kafla að því er Rvík snertir, að úthlutunin er bundin við reglur VIII. kafla framfærslul., því að ég sé ekki betur en að í þeim kafla sé séð á ýmsan hátt nokkuð laglega fyrir því, að Rvík verði a. m. k. mjög seint á biðlista með það að fá nokkuð til jöfnunar fátækraframfæris. (Fjmrh.: Er nokkurt sérákvæði um Rvík?). Já, það eru sérákvæði, fyrir það fyrsta um það, hvernig á að reikna út meðalframfærslukostnaðinn. Það hagar þannig til, að Rvík stendur sérstaklega illa að vígi, ekki aðeins miðað við framfærsluna, heldur einnig við fasteignamatið og skattskyldar tekjur, en reynslan er sú, að bæði fasteignamat og skattskyldar tekjur verða hærri í stærri bæjum, þar sem dýrtíðin er yfirleitt meiri, svo að peningarnir hafa þar raunverulega minna gildi en annarsstaðar á landinu. Fasteignamatið er hærra þar, sem fasteignirnar eru seldar fyrir fleiri krónur, og reynslan er sú í öllum löndum, að peningarnir hafa minna gildi í stærri bæjum en þeim smærri. Þess vegna er ekki rétt að miða við það eingöngu, sem byggist á þessu. (PZ: Það er meiri frádráttur). Það er rétt, en sá munur er hverfandi móts við hitt. Þegar reiknað er með þessum tveimur liðum án þess að á hinn bóginn komi á móti jöfnuður á hverjum stað, sem ætti að koma sem liður í reikningsdæmið á móti, þá fæst þarna mynd, sem ekki er rétt. Þannig að reynslan verður sú, að það mun seint koma, að Rvík fái möguleika til úthlutunar samkv. þessum kafla framfærslul. Auk þess eru þau sérákvæði að því er Rvík snertir — ég get þess út af því, sem hæstv. fjmrh. greip fram í —, að Rvík greiðir meðalframfærslukostnað í flokk kaupstaða og fær svo endurgreitt, en aðrir kaupstaðir greiða meðalframfærslukostnað að frádregnum 10%, og það verður til þess að tefja enn fyrir því, að nokkuð

komi í hlut Rvíkur. Ég held þess vegna, að Rvík hafi ekki mikla von um tekjuaukningu eftir þessu frv. Annarsvegar er svo 2. liður 11. gr., þar sem talað er um að jafna kostnað bæjar- og sveitarfélaga af elli- og örorkutryggingum og kennaralaunum. Það get ég hugsað, að Rvík komi undir, en þar kemur bráðabirgðaákvæði til þess að séð verði fyrir því í bráðina, að það, sem kynni að verða fram yfir til úthlutunar, á nú að fara í allt aðra hít. (Atvmrh.: Fyrsta árið). Það er nú ekki alltaf meiri festa í þessum ákvæðum, og maður vill helzt fyrstu peningana.

Ég vildi aðeins geta þessa áður en málið fer í n., til þess að sýna, að með þessu frv. tel ég ekki verið að bæta þörf þeirra, sem ég samkv. mínu umboði hafði náttúrlega fyrst og fremst í huga, þegar ég var meðflm. að hinu frv. — Af því að ég hefi ekki ástæðu til að búast við ósanngirni af hv. þm. í þessu efni, hefði ég viljað vænta þess, að við fyrstu meðferð málsins hefði verið tekið nokkurt tillit til þeirra þarfa, sem reynt var að sjá fyrir í hinu frv.