03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Bernharð Stefánsson:

Ég vil þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu þessa máls, því eins og menn vita, var ég viðriðinn flutning þess, þó það væri flutt eftir beiðni hæstv. atvmrh.

Annars vildi ég segja nokkur orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, og þó sérstaklega þeim orðum, sem hann lét falla í sambandi við 3. og 4. brtt. sína. Hv. þm. leggur til, að 20. gr. frv. falli niður, en þar er svo fyrir mælt, að halda skuli eftir af jöfnunarsjóðsstyrk, ef viðkomandi sveitarfélag skuldar ríkissjóði. Hv. þm. sagði, að það mundi vera hægðarleikur fyrir stjórnina að innheimta með öðru móti hjá sveitarfélögum, ef þau skulduðu ríkissjóði, því hún hefði ráð þeirra svo í hendi sér. Ég held, að það sé fengin fullgild reynsla fyrir því, að ekki er eins erfitt að innheimta hjá neinum eins og bæjar- og sveitarfélögum, ef þau á annað borð tregðast við að borga. Ég held þess vegna að þessi gr. sé nauðsynleg, ef ekki á beinlínis að stefna að því, að fjárreiður bæjar- og sveitarfélaga komist í enn meira öngþveiti en þær eru nú og að þau verði hreint og beint handbendi ríkissjóðs.

Þá þótti hv. þm. 22. gr. frv. afleit, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið hafi eftirlit með fjárreiðum þeirra sveitar- og bæjarfélaga, sem verða að fá styrk úr ríkissjóði fram yfir jöfnunarsjóðsstyrkinn. Í gr. er þó ekki gert ráð fyrir, að þetta eftirlit vari nema tiltekinn tíma, og ekki nema eitt ár í senn. Ég held, að þetta séu sjálfsögð ákvæði, og að það verði hver að finna sig í því, þó hann verði ekki sjálfráður sinna gerða þegar þannig stendur á. Hann sagði, að það mundi verða þokkalegt, ef íhaldssöm ríkisstjórn fengi vald yfir fjármálum Hafnarfjarðar, Ísafjarðar, Norðfjarðar o. fl. staða gegn vilja bæjarbúa sjálfra. Ég skal nú ekkert um það segja, hvernig það mundi verða. en ég vil segja það, að það yrði þá ekki síður þokkalegt, ef bæjar- og sveitarfélög gætu hagað fjármálastjórn sinni með tilliti til þess, að ríkið tæki við öllum afleiðingunum, en hefði hinsvegar ekkert vald til að ráða neinu, hversu sem með fjármálin væri farið.

Ég tel þessa 22. gr. alveg sjálfsagða. Úr því gengið er inn á þá leið, að verja allmikilli fjárupphæð til hjálpar bæjar- og sveitarfélögum, fjárupphæð, sem eftir eðli sínu ætti að renna í ríkissjóð, þá er ekki nema alveg rétt, að ríkið hafi hönd í bagga með um það, hvernig fjármálum þeirra aðilja er stjórnað.