03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Brynjólfur Bjarnason:

Ég get ekki farið langt út í málið; vil ekki lengja umr., aðeins gera aths. við ræðu hv. frsm. allshn. Hann hélt því fram, að viðurhlutamikið væri að fella 22. gr. og 20. gr. niður, því að það þýddi sama sem að lögfesta óskilsemina. Mér skilst þá, að í hvert skipti sem Alþingi hafnar tillögum um ný refsiákvæði, þýddi það, að lögfest væri það, sem ákvæðin hafa átt að koma í veg fyrir. Segjum, að ég flytti frv. um að skerpa einhver ákvæði í refsilögum og að þær till. væru felldar á Alþingi. Skyldi það þá vera yfirlýsing um, að verknaðurinn, sem ákvæðin snertu, væri ekki refsiverður framar?

Hv. flm. sagði, að til gætu verið þau tilfelli, að sveitar- og bæjarfélög komist í vanskil og greiðsluþrot fyrir sjálfskaparviti, en hitt viðurkenndi hann, að væri algengara, að þau kæmust það af óviðráðanlegum orsökum. Vitaskuld eru sjálfskaparvítin til og afleiðingarnar þessar. Hver á þá sökina? — Sveitarstjórnin eða bæjarstjórnin. Hvað á við þær að gera? –Þær eiga að fara. Hver á að láta þær fara? — Það eru íbúarnir í bænum.

Þá var það viðvíkjandi brtt. minni við 3. gr., hvernig skatturinn ætti að vera mismunandi. Auðvitað er það rétt hjá hv. flm., að enn beri að sama brunni og vant er. að þrátt fyrir slík ákvæði komi skatturinn ekki réttlátlega niður í öllum tilfellum. Það má segja svo um alla skatta nema þá, sem lagðir eru á eftir efnum og ástæðum. Ef hægt væri að koma þessu öðruvísi fyrir í sumum bæjarfélögum, vildi ég, að n. athugaði það rækilega til 3. umr. og gerði sínar brtt. — Það var viðurkennt þegar við 1. umr. af hv. 1. flm., að æskilegt væri að búa svo um þetta, að skatturinn gæti orðið til að hækka húsaleiguna.