06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 253. Í raun og veru segir till. til um það, í hvaða átt hún stefnir. Hún miðar að því, að innheimta fasteignagjaldsins, sem 1 gr. gerir ráð fyrir, er framkvæmd af lögreglustjórum og þeir greiði svo til bæjanna, eftir því sem skatturinn innheimtist, einu sinni á hverjum ársfjórðungi. Það er einnig gert ráð fyrir því í þessari till., að ef um það er að ræða, að skatturinn innheimtist ekki að fullu, þá verði hlutfallslega greitt til ríkis og bæjar. Aðalrök fyrir þessari till. eru þau, að sérstaklega í smærri kaupstöðunum hefi ég orðið var við, að það eru uppi óskir um það að leysa bæjarstjórnina undan innheimtu þessa gjalds. Þetta stafar af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er þessi skattheimta óvinsæl, og í öðru lagi ber jafnan svo við, að ríkið er á undan bæjunum í því að innheimta skattinn, svo bæirnir fá oft ekki nema lítinn hluta af þeim skatti, sem þeim her. Ég er í raun og veru þeirrar skoðunar, að fasteignaskatturinn eigi að ganga til bæjar- og sveitarfélaga, en um það hefir ekki getað orðið samkomulag milli flokka. En fyrst skatturinn er lagður á í tvennu lagi, bæði til ríkis og bæja, þá mælir öll sanngirni með því, að innheimtan sé á einum stað. Ég skal ekki um það segja, hvort stærri bæjarfélögin, eins og t. d. Reykjavík, muni nota sér þetta, en ég geri ráð fyrir, að bæjarstjórnum eða hreppsnefndum sé heimilt að annast innheimtuna. Ef þessi till. næði samþykki, þá býst ég við, að það verði vel séð hjá bæjarfélögunum, að innheimtan sé í höndum lögreglustjóra.

Um aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, hefir n. ekki átt kost að fjalla. Um fyrri brtt. á þskj. 247 vil ég segja það, að ég hygg, að hún sé alveg ónauðsynleg, ef litið er á 4. gr. frv., því þar eru allar fasteignir bæjar- og sveitarfélaga undanþegnar skatti. Hv. þm. minntist á skemmtigarð í Hafnarfirði, en ég vil spyrja hann, hvort þetta sé ekki bæjarins lóð. (BSn: Félagið Magni á hann). Þá breytir það nokkuð málinu fyrir mér, því enginn ætlazt til að lóð sé skattlögð, sem notuð er til almennings þarfa. (PZ: Eins og t. d. Rauðhólar). Og þá líka Eiði. (BSt: Það er sjálfsagt að skattleggja Rauðhóla).

Ég tel sjálfsagt að undanskilja þessar lóðir, því það mun ekki hafa verið tilætlun þeirra, sem sömdu frv., að leggja kvaðir á þær lóðir, sem notaðar eru til almennings þarfa.

Um hina till. geri ég ekki ráð fyrir að geta greitt atkv. Hún raskar svo mjög þeim grundvelli, sem lagður hefir verið í þessu máli.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri.