06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Hv. 1. þm. Reykv. leggur til, að tillag ríkissjóðs til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga lækki úr 700 þús. kr. á ári í 500 þús. kr., en í staðinn sé tekinn frá ríkissjóði nokkur hluti af tekju- og eignarskattinum. Þetta er algerlega í samræmi við aðrar till. hans til að hjálpa bæjunum. Þær ganga nákvæmlega í sömu átt. Hann talar oft um Rvík, hvað hún sé ákaflega illa stæð. Við skulum athuga þetta nákvæmar, hvaða þörf sé hér fyrir hendi hvað Rvík snertir, og þá í fyrsta lagi, hversu hátt hún þarf að fara í álagningu útsvara, miðað við hina kaupstaðina, til þess að ná því, sem þörf er fyrir. Maður gæti dregið það af orðum hv. 1. þm. Reykv., að álagningin væri hvergi eins há og hér. En sjáum til: Tökum dæmi um mann með 20 þús. kr. nettótekjur. Hann hefir í útsvar í

Reykjavík ....................... 5880 kr.

Hafnarfirði ................... .... 3710 —

Ísafirði ...................... .... 11215 —

Siglufirði ..................... .... 10290 —

Akureyri ...................... .... 5835 —

Norðfirði .................... 4000–6000 —

Vestmannaeyjum .............. c. 6000 —

Hafnarfjörður og Norðfjörður eru þarna lægri en Rvík, en allir hinir kaupstaðirnir með hærri álagningu. Á Siglufirði, sem fylgir Reykjavík í „skalanum“, er bætt 75% við Rvíkurskalann, en á Ísafirði er útsvarið nærri því helmingi hærra. Skyldi ekki vera einhversstaðar meiri þörf að lækka útsvörin en í Reykjavík? Tekjurnar, sem þm. ætlazt til að komi í staðinn fyrir þetta jöfnunargjald, eiga að takast af tekjustofnum ríkissjóðs, af tekjuskatti og hátekjuskatti, og mundu nema um 200 þús. kr. Af því fengi Rvík 9/10, en 1/10 eða ein 20 þús. skiptast millí annara bæjar- og sveitarfélaga til uppbótar fyrir þau 200 þús., sem þm. vill fella niður úr þessu frv. Það er fljótséð, hvað hann er að fara. Hann er að reyna það, á kostnað annara landshluta, að hjálpa Rvík, sem þó á tiltölulega bezt með það af öllum bæjar- og sveitarfélögum á landinu, miðað við eignir og tekjur manna þar, að leggja á útsvör og hefir alls ekki notað að fullu möguleika sina við niðurjöfnun útsvara. En hann vill draga úr hinu, sem fellur í hlut hreppanna, sem aðeins hafa borgað frá 150 og upp í 400–500 kr. í tekju- og eignarskatt, en verða að leggja á útsvör, sem nema 8–9 og allt upp í 30 þús. kr. á þetta fólk, sem ekkert á. Þeim sveitarfélögum vill hann ekki hjálpa. — Þeir, sem borga skatt hér. eru næstum 13 þús. og hafa rúmar 42 millj. kr. í tekjur. Og þeir eiga um 60 millj. króna í skuldlausri eign; það er meira en helmingur af því, sem allir landsmenn eiga af skuldlausum eignum. — Þetta er svo mikil fjarstæða hjá þm., að hugsa sér, að alþingismenn, sem viða eru kunnugir sveitarfélögum, sem eru illa stæð og hafa þarfir fyrir að fá sem mest úr jöfnunarsjóði, muni láta sér detta í hug að svipta sveitarfélögin aðstoð til þess eins að geta lækkað útsvörin í Reykjavík á þeim, sem þar hafa þau hæst! — Það er sérstaklega undarlegt, þegar litið er á það, að honum er ætlað það hlutverk í lífinu að prédika rétt lítilmagnans, en ekki að skara í eldinn þar, sem hann brennur bezt fyrir.