06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég skal ekki fara út í langt karp við hv. 1. þm. N.-M. Hann spilar hér alltaf sína plötu um það, að ég vilji hjálpa þeim, sem ekki þurfa þess. Hv. þm. ræður þetta af því, að þegar verið er að gera ráðstafanir til þess nú að útvega bæjar- og sveitarfélögum fjárhagslega aðstoð, þá vil ég, að því sé hagað þannig, að aðstoðin komi nokkurnveginn jafnt niður á öllum aðiljum. Það má náttúrlega lengi segja, að Rvík þarfnist ekki þessarar aðstoðar, en það er ákaflega spaugilegt að heyra, þegar hv. 1. þm. N.-M. er sí og æ að koma með þessar alkunnu röksemdir, þegar hann er að tala um þessi óskaplegu auðæfi Rvíkur. Er það virkilega, að hv. þm. lifi í þeirri gömlu trú, að ríku mennirnir hafi peningana í kistuhandraðanum og þurfi ekkert við þá að gera annað en að sólunda þeim. En þetta er svo fjarri. Öll þessi auðæfi, sem hv. þm. er að tala um, þau liggja í föstum eignum, sem menn geta ekki gripið til hvenær sem er. Og það er það, sem bjargar okkar þjóðfélagi, að enn eru til skuldlausar eignir, svo sem skip og hús til ýmiskonar atvinnurekstrar og ef slíkar eignir hættu að vera til, þá er þjóðin komin á heljarþrömina. Það er vitanlegt, að í Rvík eru öll stærstu atvinnufyrirtæki landsmanna, og það er því ekki nema eðlilegt, að í þeim eignum, sem þessi atvinnufyrirtæki eiga, liggi mikið verðmæti. En það er ekki þar með sagt, að Rvík sé einskonar pyngja, þar sem ekkert sé annað fyrir ríkissjóðinn en gripa ofan í til þess að sækja sér peninga. Það mun sannast, að ef haldið verður áfram að velta útgjöldunum yfir á Rvík eins og gert hefir verið undanfarið, þá verður ekki langt þangað til að fer að þyngjast undir fæti fyrir henni eins og öðrum bæjarfélögum. Hv. 1. þm. N.-M. heldur ef til vill, að hann geti aflað sér atkvæðafylgis í sínu kjördæmi með þessu og það getur vel verið, en það má hv. þm. vita, að það er æfinlega fyrirboði falls, ef ósanngirnin fær að ráða eingöngu. Það er fyrsta skilyrðið til þess að geta haldið reglu í hverju þjóðfélagi, að þeir, sem með völdin fara, séu sanngjarnir. Það er ekki sjálfsagt að fara með því valdi, sem Alþ. hefir út í æsar. Þar verður að ráða fyllsta sanngirni. Allt annað hefnir sín. Hv. þm. sagði, að 1. kafli þessa frv. byði Rvík upp á mikla möguleika til tekjuöflunar. Ég veit ekki hvers vegna þessi kafli býður Rvík upp á meiri möguleika en öðrum. Reykjavík er einn af þeim stöðum, sem þegar notar þessa leið í ríkum mæli. Ef Rvík hefði nú ekki þegar slíkan fasteignaskatt, þá væri þetta mikil tekjuvon, en Rvík notar þetta nú þegar, og ég er alveg óviss um, hvort Rvík sæi sér fært að nota þennan skatt út í æsar. Eitt af því, sem kvartað er um hér, er há húsaleiga. Svo stórfelld hækkun á fasteignaskattinum mundi án efa miða í þá átt að hækka húsaleiguna enn meira. Ég veit ekki, hvort hv. þm. telur það vera hjálp við þá ríkari að velta þessum skatti yfir á þá, sem verr mega.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar. Eg hefi með því að bera þessar till. fram gert tilraun til að færa málið í það horf, sem mér virðist sanngjarnast, en læt svo bara atkv. skera úr.